137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[19:56]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Samfylkingunni og hv. þingmanni hefur verið tíðrætt um ráðherraábyrgð. Það samræmist einfaldlega ekki þeirri breytingartillögu sem hv. þingmaður hefur m.a. lagt fram í þessari umræðu sem felur það í sér að verið er að færa ábyrgðina frá hæstv. fjármálaráðherra mögulega yfir til stjórnar Bankasýslu ríkisins. Hvernig samræmist það stefnu Samfylkingarinnar þegar við ræðum um ráðherraábyrgð? Hér er um grundvallarbreytingu að ræða á þessu máli.

Síðan finnst mér alltaf undarlegt þegar þingmenn Samfylkingarinnar koma hér upp í ræðustól eins og hvítþvegnir englar og segjast vera að taka til eftir stjórnartíð Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Áttfölduðust skuldbindingar Íslendinga vegna Icesave-reikninganna í Bretlandi ekki á tíma Samfylkingarinnar sem fór þá með viðskiptaráðuneytið? Og á sama tíma og Fjármálaeftirlitið íslenska og það breska voru að ræða hvers lags „monster“ þeir reikningar væru í Bretlandi heimilaði þá ekki sama eftirlit Landsbankanum að fara til Hollands og opna þar reikninga sem eru að steypa okkur í ómældar skuldir að mér sýnist ef Samfylkingin ætlar að samþykkja það frumvarp sem við ræðum hér um Icesave?

Það er með ólíkindum að Samfylkingin skuli voga sér að láta sem hún beri enga ábyrgð á þeirri stöðu sem uppi er í samfélaginu í dag. Það er verið að skuldbinda íslenska þjóð, ef við samþykkjum Icesave-samkomualagið, um mörg hundruð milljarða íslenskra króna, hrun sem varð á vakt Samfylkingarinnar. Hv. þingmenn Samfylkingarinnar geta ekki komið hingað upp eins og þeir beri enga ábyrgð á stöðu mála, þeir skulu bara vera menn að meiri og viðurkenna að Samfylkingin ber verulega ábyrgð á Icesave-hneykslinu sem við verðum að fella hér á Alþingi, a.m.k. að breyta að verulegu leyti að mínu mati.