137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[20:04]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Það var einkar athyglisvert að hlusta á hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur ræða um það hversu eðlilegt væri að viðhafa gagnsæi og að Alþingi fengi upplýsingar um það sem væri að gerast. Ég verð að segja að ég fagna virkilega þessu viðhorfi og mundi kannski óska eftir því að það sama viðhorf yrði tekið upp til dæmis innan fjármálaráðuneytisins og jafnvel innan Fjármálaeftirlitsins því að þessi þingmaður hefur — ég hef spurt tvisvar ef ekki þrisvar um ýmsar upplýsingar sem ég tel mjög eðlilegt að Alþingi fái að vita. Í fyrra tilvikinu spurði ég Fjármálaeftirlitið um hversu mikið væri búið að færa niður skuldir hjá bönkunum eða hversu mikils þær væru metnar. FME hefur falið sig mjög vel á bak við samninga sem þeir gerðu við Deloitte og Oliver Wyman þannig að spurning er hvort það sé að einhverju leyti komið í veg fyrir að Eignaumsýslufélagið geti á þennan máta farið fram hjá þessum ákvæðum sem eru í lögunum um það og gert samninga við utanaðkomandi verktaka sem eru þess háttar að þeir komi í veg fyrir að Alþingi geti fengið þær upplýsingar sem það óskar eftir. Ég held að það sé mjög mikilvægt að það komi ekki aftur fyrir. Ég tel nánast varðandi þau tilfelli sem ég tala hérna um mjög eðlilegt að Alþingi hreinlega setji lög sem kæmu í veg fyrir að Fjármálaeftirlitið og fjármálaráðuneytið og viðskiptaráðuneytið geti falið sig svona á bak við samninga við einkaaðila.

Ég mundi gjarnan vilja fá svör við þessu og í seinna andsvari mínu mundi ég gjarnan vilja ræða minnihlutaframhaldsnefndarálit frá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni.