137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[20:07]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því að hv. þingmaður skuli taka undir þessi sjónarmið mín. Ég tel þau svör sem ég hef fengið frá Fjármálaeftirlitinu og fjármálaráðuneytinu algjört hneyksli þar sem þeir neita mér um upplýsingar, upplýsingar sem ég tel að þingmenn þurfi á að halda til þess að taka ákvörðun um það eiginfjárframlag sem ætlunin er að setja inn í bankana, 280 milljarða og jafnvel 105 milljarða í varasjóð til þess að dekka hugsanleg áföll í framtíðinni. Svo virðist vera að við þingmenn eigum að taka þessa ákvörðun algjörlega blindandi og án þess að vera með einar eða neinar upplýsingar. Ekki einu sinni innan viðkomandi fagnefndar, viðskiptanefndar, höfum við fengið þessar upplýsingar enn sem komið er.

Ég ætlaði líka að fá að spyrja hv. þingmann: Er ekki rétt skilið hjá mér að með þeim breytingum sem hér eru lagðar til um að félagið fari hugsanlega undir Bankasýsluna þá sé eiginlega verið að taka undir athugasemdir hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar í sínu nefndaráliti þar sem hann gerir athugasemdir við að ekki skuli verða sérstök valnefnd til ráðgjafar við skipan stjórnar, því að í Bankasýslufrumvarpinu er einmitt gert ráð fyrir valnefnd sem geri tillögur til stjórnar Bankasýslunnar um skipan stjórnarmanna í þau félög sem eru undir Bankasýslunni. Þar með ætti svo að vera líka varðandi þetta eignaumsýslufélag.