137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[20:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil taka undir orð síðasta ræðumanns, hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, að þegar atvinnulífið er komið á þennan hátt í eigu ríkisins verður það alltaf löðrandi í pólitík eins og ég hef nefnt áður. Þess vegna er sérstaklega vandmeðfarið hvernig menn fara að þessu.

Ég tók þátt í mikilli breytingu á þessu frumvarpi, sem upphaflega var lagt fram sem 1. mál á yfirstandandi þingi, og það náðust fram mjög góðar breytingar á því. Ég var mjög sáttur við þær breytingar, ég tel mjög nauðsynlegt að komið sé með eitthvert regluverk utan um það hvernig ríkið á að fara með allar þessar eigur sínar sem fjölgar með hverjum deginum, það eru bæði flugfélög og tryggingafélög, bara að nefna það, sem ríkið er að eignast. Það er líka gott að koma með einhvern aðila sem getur tekið á fortíðarvandanum því að hlutverk banka er aðallega fram á við. Bankar eiga að vinna að því sem þeir ætla að gera í framtíðinni en ekki því sem þeir ætla að gera í fortíðinni. Að þessu leyti er ég mjög sáttur við þær breytingar sem gerðar voru milli 1. og 2. umr.

Við glímum hér við óþekkt vandamál, Íslendingar. Það er ekki til þekking í landinu til að ráða við það magn af gjaldþrotum sem við erum með í dag og það er ekki til þekking á því hvernig ríkið á að meðhöndla öll þau fyrirtæki sem það er að eignast. Það er algjör firra ef menn halda að það sé til einhver þekking á Íslandi í þessari stöðu. Hún er til á einstaka stað í heiminum, í löndum sem hafa lent í svipuðum hremmingum, svipuðu hruni, þó að enginn hafi í rauninni lent í jafnmiklu hruni og við að talið er. Þetta er mikið vandamál og ég vonast til að menn leiti þekkingar þar sem hún er til staðar, sem sagt úti í heimi.

Ég var búinn að lofa formann hv. efnahags- og skattanefndar fyrir það hve vel hann tók í allar breytingar og annað slíkt, frumvarpið hefur tekið miklum og jákvæðum breytingum. Fjallað er um hvað gerist þegar fyrirtæki koma inn í kerfið, þ.e. undir ríkið, að gæta skuli jafnræðis og gagnsæis og allt það, og svo alveg sérstaklega þegar fyrirtækin fara aftur út, því að meiningin er að þau fari öll út aftur. Og sérstaklega er fjallað um það að fyrirtækið sem við ætlum að fara að stofna sé aðallega ráðgefandi, til að staðla aðgerðir en ekki til að eiga fyrirtækin nema í algjörum undantekningartilfellum.

Svo kemur núna breyting sem ég er bara afskaplega ósáttur við sem er breyting sem kemur frá meiri hlutanum. Ég var ekki á þeim fundi og verð bara að eiga um það við sjálfan mig. Það var mikil umræða hér á þeim tíma um annað mál og þar stendur að fjármálaráðherra sé heimilt að framselja eignarhlutann til Bankasýslu ríkisins. Þetta gerði ég miklar athugasemdir við, verulega miklar. Í fyrsta lagi geri ég miklar athugasemdir við Bankasýsluna og það frumvarp, þó að það sé í annarri nefnd, og þarna er að gerast dálítið merkilegur hlutur sem ég vara við og nefndi áðan.

Segjum að þetta gangi eftir og að þetta fyrirtæki, um endurskipulagningu rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja, með öllum heimildum um að fá upplýsingar og gögn, segjum að það verði sett undir Bankasýsluna og ráðherra skipar svo stjórn Bankasýslunnar hvernig sem það gerist. Bankasýslan á svo að fá einhverja valnefnd varðandi fjármálafyrirtæki en það á ekki við um þetta fyrirtæki. Bankasýslan, stjórn þess félags fer þá væntanlega með hlutabréfið eina sem er í þessu félagi eftir að búið er að færa það undir og mun skipa stjórn þar án valnefndar nema menn geri breytingu á því frumvarpi sem er síðast á dagskrá í dag, um Bankasýslu ríkisins, og þessu félagi verði skotið inn í sem fjármálafyrirtæki þannig að valnefndin komi alla vega að þessu.

Þá gerist það merkilega að ráðherrann ber ekki lengur ábyrgð á skipun stjórnar í þessu fyrirtæki. Það líst mér mjög illa á vegna þess, eins og ég nefndi fyrr í umræðunni og eins og hæstv. forsætisráðherra lenti í aftur og aftur og kvartaði mikið undan á sínum tíma, að þegar bankarnir voru einkavæddir eða hlutafélagavæddir að fullu í eigu ríkisins þá fengust allt í einu engar upplýsingar. Allt í einu fengust engar upplýsingar um stöðu bankanna. Þessu kvartaði hv. þingmaður þá, Jóhanna Sigurðardóttir, núverandi hæstv. forsætisráðherra, mikið undan. Ég er bara hræddur um að það nákvæmlega sama gerist hérna. Allt í einu er komin einhver stjórn sem skipar stjórn í þessu fyrirtæki og það er algjörlega undir hælinn lagt hvort hún gefi einhverjar upplýsingar. Ef hún gefur ekki upplýsingar, hvað þá? Og ef allt það sem hér stendur í 6. gr. um gagnsæi o.s.frv., ef ekkert er farið að þeim lögum, að því ákvæði, hvað gerist þá? Hver á að kæra, hver er aðili málsins? Er það Alþingi? Er það nefndin? Er það ráðherrann? Þetta held ég að þurfi að skýra miklu betur áður en menn taka svona ákvörðun.

Ég er ansi hræddur um að þetta sé mikið skref aftur á bak og legg til að nefndin sem gerir þessa breytingartillögu dragi hana jafnvel til baka, að þeir stjórnarliðar sem standa að tillögunni dragi þá tillögu til baka að veita þessa heimild. Nú er ekki einu sinni víst að hún verði nýtt en ég tel mjög líklegt að hún verði nýtt vegna þess að hún er mjög spennandi fyrir þá sem vilja fá völd og gína yfir miklu. En þetta getur orðið mjög hættulegt, allt þetta dæmi, vegna þess að það eru pólitískt kjörnir menn sem hafa áhrif á það hvert fyrirtæki verða seld og hvað gerist með þau, það getur jafnvel gerst að menn fái ekki vinnu nema þeir séu í réttum flokki og menn fái ekki gjaldeyri nema þeir séu í réttum flokki o.s.frv. Því miður kynntist ég því einum of mikið þegar ég var yngri og ég vil helst ekki upplifa það aftur og ég geri ekki ráð fyrir að neinn vilji það nema kannski sá sem er í þessum rétta flokki.