137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[21:37]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umfjöllunar er kannski ekki mikið að vöxtum við fyrstu sýn þegar pappírarnir eru skoðaðir en hins vegar er ljóst að hér er um að ræða gríðarlega umfangsmikið og flókið mál. Það verðskuldar allmikla umræðu eins og það hefur fengið hér í dag, raunar líka við 2. umr. þessa máls og umfjöllun í nefnd sem greinilega hefur átt mikið verk fyrir höndum að takast á við það frumvarp sem upphaflega var lagt af stað með.

Sannleikurinn er sá að þegar þetta frumvarp er skoðað í þeim búningi sem það er í núna eftir 2. umr. og borið saman við það frumvarp sem lagt var fram í upphafi er ljóst að það hefur tekið ótrúlega miklum breytingum. Í raun og veru má segja að við séum hér í þriðju atrennunni að þessu máli. Fyrst var frumvarpið lagt fram á síðasta þingi en þá var það ekki afgreitt. Það beið þess síðan að verða tekið til endurskoðunar af núverandi ríkisstjórn, eins og kemur fram í greinargerð og athugasemdum með þessu frumvarpi, að eftir að tekið hafði verið tillit til þeirra athugasemda að einhverju leyti sem borist höfðu þegar frumvarpið var lagt fram upphaflega. Það er þó alveg ljóst að þegar þau mál eru skoðuð og bornar saman þær athugasemdir sem bárust við upphaflegt frumvarp að það frumvarp sem lagt var af stað með nú í vor, þingskjal 1, fyrsta mál þessa þings, var algjörlega vanbúið. Það sjáum við m.a. af þeim umræðum sem urðu strax í upphafi um málið. Það kemur einnig í ljós þegar við rennum augum yfir þær athugasemdir sem bárust frá fjöldamörgum aðilum sem málið varða, frá atvinnulífinu, bönkunum og öllum þeim sem skoðuðu þetta mál. Í raun og veru er Alþingi að kveða upp dóm um þetta frumvarp í þeirri meðhöndlun sem það hefur fengið í þingnefndinni og með þeim breytingartillögum sem þegar hafa verið afgreiddar og eru nú lagðar hér fram.

Það sætir mikilli furðu að mál eins og þetta, sem er augljóst forgangsmál ríkisstjórnarinnar, lagt fram sem fyrsta mál hennar á vorþingi, skuli hafa verið svo vanreifað sem raun ber vitni. Það ber auðvitað skýrt merki þess að kastað var til höndunum við gerð þess. Það hefur ekki verið hugsað út í hörgul þrátt fyrir að ábending þess efnis hafi birst í greinargerð frá virtum aðila erlendum sem kallaður var til þess að gera tillögur í þessum efnum. Það er mjög ámælisvert að ríkisstjórn skuli leggja fram mál af þessari stærðargráðu sem er svo vanreifað sem raun ber vitni.

Ég gagnrýni í sjálfu sér ekki þó að Alþingi geri miklar breytingar á tilteknum lagafrumvörpum, hvort sem er frá ríkisstjórn eða einstökum þingmönnum. Það er þá fyrst og fremst til marks um að Alþingi vinnur vinnuna sína, það fer yfir málið til þess að reyna að betrumbæta það. Það lýsir líka sjálfstæði þingsins sem vekur aftur á móti athygli á þeirri umræðu sem stundum á sér stað um að Alþingi sé ekki sjálfstæð stofnun, að Alþingi taki eingöngu tilskipunum framkvæmdarvaldsins. Þó að það eigi við stundum á það alls ekki við alltaf. Þetta mál er dæmi um þegar Alþingi tekur til sinna ráða þegar framkvæmdarvaldið kastar gjörsamlega til höndum varðandi mál, sérstaklega af þeim toga sem við fjöllum um. Það er gríðarlega þýðingarmikið mál sem mun hafa áhrif á fyrirkomulag atvinnulífsins, ekki bara í bráð heldur líka í lengd, sérstaklega í ljósi þess að við vitum að eigendastefna ríkisins er mjög óskýr og yfirlýsingar hæstvirtra ráðherra og þingmanna varðandi mögulegt eignarhald á einstökum fyrirtækjum eru mjög misvísandi. Það er alveg ljóst að það sem við fjöllum um hér getur haft mjög mikil áhrif á hvernig fyrirkomulag og staða atvinnulífsins verða á næstunni og í framtíðinni og þar með hefur það mikil bein áhrif á hvernig lífskjör muni þróast á komandi árum.

Það er kannski til marks um hversu miklum breytingum frumvarpið hefur tekið að þetta er þriðja atrennan að þessu máli og svo miklum breytingum hefur frumvarpið tekið að það varð niðurstaða hv. efnahags- og skattanefndar sem fór yfir málið að jafnvel þyrfti að breyta heiti frumvarpsins. Upphaflegt heiti frumvarpsins var að mati nefndarinnar þannig eftir þær breytingar sem búið er að gera á málinu við 2. umr. málsins að það þótti ekki endurspegla inntak þess, ekki heldur eftir þær breytingar sem nefndin gerði á því og Alþingi hefur nú þegar samþykkt. Það segir okkur hvernig að þessu máli hefur verið staðið og það er auðvitað ekki vansalaust af hálfu framkvæmdarvaldsins að leggja af stað með svona stórt mál sem varðar framtíðarskipulag atvinnulífsins og hvernig við ætlum að reyna að sigla atvinnulífinu út úr þeim miklu erfiðleikum sem við er að glíma.

Gleymum því ekki að atvinnulífið er nú í mjög alvarlegri stöðu. Ég hef ekki hitt neinn úr atvinnulífinu sem ekki kvartar undan því að fjárhagsleg fyrirgreiðsla af hálfu bankastofnana sé í skötulíki. Ekki er búið að ljúka stofnun bankanna, það hefur dregist viku eftir viku, mánuð eftir mánuð. Nú er sagt að þeirri vinnu eigi að ljúka um miðjan þennan mánuð, nánar til tekið 17. júlí, og á meðan hefur atvinnulífið liðið mjög fyrir þetta.

Það mál sem hér er lagt til felur í raun og veru í sér að færa verkefni sem ella væru í ríkisbönkunum, og eftir atvikum í sparisjóðunum, sem nú stefnir í að verði ríkisvæddir eins og glögglega kom fram í umræðunum hér í dag, inn í þetta nýja fyrirtæki sem er opinbert hlutafélag í eigu ríkisins með einu hlutabréfi sem hæstv. fjármálaráðherra fer með. Þess vegna munu safnast algjörlega áður óþekkt völd í atvinnulífinu inn í þetta nýja fyrirtæki.

Stundum hefur verið talað um að það sé mikil samþjöppun valds í atvinnulífinu eins og það hefur verið undanfarin ár og oft hefur verið undan því kvartað að skortur sé á samkeppni þegar um er að ræða að fáein fyrirtæki eru ríkjandi á einhverjum markaði. Hér er verið að ákveða, verði þetta frumvarp að lögum, að færa stjórn á mjög stórum hluta atvinnulífsins inn í eina stofnun sem á þá að ráða öllu því sem hún vill í sambandi við rekstur og fyrirkomulag atvinnulífsins. Það sem við höfum séð í fortíðinni varðandi samþjöppun valds í atvinnulífinu er hreinn barnaleikur á við það sem hér er verið að leggja drögin að. Ég held að ég sé örugglega ekki einn um að hugsa þannig en í gegnum höfuð mitt fóru ýmsar orwellskar hugsanir, stórabróður-skírskotanir, þegar ég velti fyrir mér því gífurlega valdi sem þessu nýja fyrirtæki verður ætlað.

Ef hið nýja frumvarp er lesið eins og það liggur fyrir eftir 2. umr. málsins blasir við að þar er verið að leggja til gífurlega mikil völd sem verða í höndum þessa nýja fyrirtækis. Þegar hefur verið farið yfir það í nokkru máli í hverju það felst. Eitt af því sem vakti athygli mína er c-liðurinn, þegar kemur að því að velta fyrir sér hvernig eigi síðan að fara með þær eignir sem þetta fyrirtæki á að „forvalta“. Þar er lagt á ráðin um tiltekin meginmarkmið um hvað leggja skuli áherslu á og er skemmst frá því að segja það er mjög margt tínt til og flest er það skynsamlegt. Hins vegar blasir líka við þegar þessi mál eru skoðuð að ýmislegt af því sem lagt er upp með þegar þessi fyrirtæki verða seld, þegar þau fara úr eigu stóru orwellsku stofnunarinnar, stangast á. Það er t.d. ekki alveg ljóst mál að markmiðið um dreifða eignaraðild í þessum fyrirtækjum og markmiðið um að ná hámarksafrakstri fyrir ríkissjóð séu endilega samrýmanleg. Í umræðunni sem fram fór á sínum tíma um einkavæðingu bankanna kom fram að þar stönguðust á tvö sjónarmið: Annars vegar það sjónarmið að æskilegt væri að selja fyrirtæki þannig að það tryggði dreifða eignaraðild. Hins vegar var sagt: Þessu verðum við að víkja til hliðar til þess að reyna frekar að ná hámarkstekjum af eignasölunni fyrir ríkið vegna þess að það blasir við að sá sem getur keypt fyrirtæki og eignast þar ráðandi hlut er væntanlega tilbúinn til þess að greiða heldur hærra verð fyrir hlutafé en sá sem ætlar að kaupa lítinn hlut sem ekki gefur honum mikil völd og áhrif í hendur.

Hér í 3. umr. er einnig rædd breytingartillaga sem er á nefndaráliti meiri hluta efnahags- og skattanefndar þar sem segir að fjármálaráðherra verði heimilt að framselja eignarhlutinn til Bankasýslu ríkisins. Það er út af fyrir sig sögulegt að vísað sé í þessum lögum til frumvarps sem ekki hefur einu sinni hlotið afgreiðslu Alþingis. Þetta er að vísu heimildargrein þannig að út af fyrir sig er það væntanlega þinglega tækt eins og það er lagt fram en engu að síður er sérkennilegt að hugsa til þess að heimild skuli vera til þess að framselja eignarhlut til stofnunar sem ekki er enn þá búið að setja á laggirnar.

Það er þó enn þá sérkennilegra ef við skoðum hvernig það frumvarp sem við fjöllum um hefur þróast að þessu leyti. Í upphaflegu frumvarpi sem lagt var fram í vor var heimild í 4. gr. fyrir fjármálaráðherra að afhenda eignarhlut ríkisins í eignaumsýslufélaginu til félags í eigu ríkissjóðs. Talað var um það í upphafi að hæstv. fjármálaráðherra hefði heimild til þess að fela tilteknu ríkisfyrirtæki eignarhlut ríkisins í eignaumsýslufélaginu.

Við 2. umr. málsins og í efnahags- og skattanefnd var rætt sérstaklega þetta ákvæði upphaflega frumvarpsins, um að fela einu tilteknu félagi umsýslu á þessu nýja fyrirtæki sem á að fara með endurskipulagningu á rekstrarhæfum fyrirtækjum. Niðurstaða nefndarinnar varð sú — og þetta er dálítið merkilegt — að taka burtu þá heimild sem hæstv. fjármálaráðherra var afhent samkvæmt upphaflegu frumvarpi sem lagt var fram í vor. Nefndin komst að niðurstöðu um að ekki væri skynsamlegt að hæstv. fjármálaráðherra gæti framselt það félag sem við fjöllum um hér í hendurnar á einhverju ríkisfyrirtæki. Það er síðan rökstutt sérstaklega í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og skattanefndar.

Þess vegna verð ég að segja eins og er að það vekur óskaplega furðu að nú, 7. júlí, skuli gerð breytingartillaga sem gengur þvert á breytingartillöguna sem sama nefnd, sami meiri hluti lagði fram 16. júní sl. Breytingartillagan frá 16. júní gengur í eina átt, breytingartillagan frá 7. júlí gengur í þveröfuga átt og er í raun og veru afturhvarf til þeirrar hugmyndar sem hæstv. fjármálaráðherra hafði um þessi mál þegar hann lagði fram frumvarpið, þannig að hvað virðist stangast á annars horn.

Skyldi hæstv. fjármálaráðherra hafa komist með puttana í þetta mál? Getur það verið að hæstv. fjármálaráðherra hafi verið óánægður með málið eins og gert var ráð fyrir í niðurstöðu nefndarinnar og hafi þess vegna ákveðið með tilstyrk meiri hluta nefndarinnar að hverfa frá upphaflegum hugmyndum sínum og snúa þessu máli í átt að því sem hann vildi þegar hann lagði málið fram? Það væri fróðlegt að fá svör við því að verið er að sveigja svona gjörsamlega frá þeirri leið sem mörkuð var þegar málið var lagt fram upphaflega. Hvað skýrir það að menn fara hér tvisvar sinnum í (Forseti hringir.) 180° beygju frá upphaflegum tillögum sínum? (Gripið fram í.)