137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[21:59]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi máls míns nota tækifærið til að þakka hæstv. forseta fyrir þau svör sem hér komu fram, að ætlunin væri að taka næst á dagskrá mál nr. 10, Gjaldeyrismál. Það skiptir verulegu máli að vita það vegna þess að þetta eru nýjar upplýsingar eftir því sem ég best veit. Ég tel fullvíst að þetta hafi ekki verið rætt við þingflokksformenn eða að menn hafi ekki vitað af þessu áður og því er auðvitað mjög gott að þetta kemur fram á þessum tímapunkti þannig að hægt sé að bregðast við því með einhverjum hætti. Það er auðvitað svo, hæstv. forseti, að þegar mikið er að gera í þinginu geta menn átt von á því að dagskrá breytist og að gerðar séu breytingar en eins og hæstv. forseta er ljóst af langri setu sinni í forsætisnefnd er heppilegast að slíkar breytingar gerist með nokkrum fyrirvara og um leið er auðvitað heppilegast að slíkar breytingar séu gerðar í samráði þingflokksformanna eftir því sem kostur er svo því sjónarmiði sé haldið til haga.

Svo ég víki almennt að efnisatriðum þess máls sem er á dagskrá og er til umræðu verð ég að segja að það er mikilvægt og ferill þessa máls allur sýnir í rauninni hversu mikilvægt það er að mál fái vandaða meðferð í þinginu. Á vordögum var lagt fram frumvarp fjármálaráðherra um þetta efni sem síðan hefur tekið breytingum í veigamiklum atriðum bæði á þinginu í vor og eins nú á sumarþingi og ég hygg að frumvarpið hafi að langmestu leyti þróast til betri vegar. Ég hef persónulega haft talsverðar efasemdir um þá leið sem verið er að fara hér en ég held þó að margt hafi gerst í meðferð málsins sem geri það að verkum að það sé betra en það var þegar það kom fram fyrst í vetur, en því frumvarpi sem þá var lagt fram var ýtt til hliðar sem betur fer og nýtt frumvarp lagt fram þegar nýtt þing kom saman í vor.

Að þessu sögðu, bara til að taka það fram held ég að sú vinna sem lögð hefur verið í frumvarpið hafi verið jákvæð og skilað árangri að mörgu leyti en með því er ég ekki að segja að mér lítist vel á málið eins og það lítur út í dag þó að það sé betra, þó að það sé skárra. Áður en ég nefni einstaka þætti í frumvarpinu kemst ég ekki hjá því að taka undir þau orð sem komu fram í ræðu hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur fyrr í kvöld þar sem hún tók það saman að þessi dagur hefur á sér blæ afskaplega mikillar ríkisvæðingar. Við ræddum fyrr í dag frumvarp sem felur í sér verulega hættu á ríkisvæðingu sparisjóðakerfisins. Þetta frumvarp hefur fólgna í sér hættu á ríkisvæðingu á stórum hluta íslensks atvinnulífs og með frumvarpi um Bankasýslu ríkisins sýnist mér, eins og ég lýsti við 1. umr. þess máls, hætta á að fest verði í sessi ríkisvæðing bankakerfisins sem illu heilli átti sér stað hér á haustdögum af ástæðum sem auðvitað enginn óskaði eftir og enginn fagnaði en það gerðist.

Þetta er því töluvert dapurleg staða sem við stöndum frammi fyrir. Við horfumst í augu við það að atvik hafa orðið með þeim hætti og mál því miður þróast á þann veg að ríkið hefur tímabundið þurft að koma að fleiri þáttum í efnahagsmálunum en við hefðum óskað. Þegar við förum í einstök mál og reynum að útfæra hvernig aðkoma ríkisins á að vera verðum við að fara af afskaplega mikilli gætni. Við verðum að fara af gætni til að tryggja það eins og hægt er að þau afskipti ríkisins sem um verður að ræða verði eins lítið skaðleg og nokkur kostur er, að það verði eins lítill skaði af afskiptum ríkisins og kostur er, og þá er ég að hugsa bæði hvað varðar pólitísk afskipti varðandi samkeppnisþætti og fleira þess háttar, því að eins og fleiri en einn og fleiri en tveir hv. þingmenn hafa rakið í kvöld getur miðstýring og of mikið vald hjá of fáum aðilum hjá ríkinu haft afar skaðleg áhrif í atvinnulífinu. Þess vegna þarf að tryggja að þessar hættur verði eins litlar og kostur er. Ég er þeirrar skoðunar að ekki sé nægilega vel gengið frá þessu frumvarpi til að lágmarka þann skaða sem kynni að koma til af þessum sökum.

Það er líka sjónarmið sem hafa þarf í huga og er reyndar vikið að í þessu frumvarpi að um leið og verið er að forma það með hvaða hætti aðkoma ríkisins á að vera verði hugað að því með hvaða hætti ríkið fari út úr viðkomandi starfsemi. Það er vikið að því í frumvarpinu og ég hefði kannski kosið að örlítið meira púðri hefði verið eytt í þann þátt málsins en það er þó betra í þessu frumvarpi en ýmsum öðrum frumvörpum sem við höfum hér til umfjöllunar að það er þó vikið að þessu. Það segir í c-lið 3. gr., með leyfi forseta:

„að ráðstafa eignum sem félagið kaupir, sbr. a-lið, eins fljótt og markaðsaðstæður leyfa með gagnsæjum hætti og að teknu tilliti til sjónarmiða um jafnræði, virka samkeppni, dreifða eignaraðild“ o.s.frv.

Þetta er betra en margt annað sem við höfum séð í dag og höfum til umfjöllunar á þessu þingi, það er þó hugað að þessu. En ég tel að það hefði mátt eyða meira púðri í þennan þátt enda held ég að það hljóti að vera sameiginlegt markmið a.m.k. flestra flokka í þinginu, kannski ekki allra en flestra flokka í þinginu, að ríkið sé ekki með yfirgripsmikil afskipti af atvinnustarfsemi í landinu til langframa. Ég held að það sé afar mikilvægt.

Ég ætlaði að nota þann skamma tíma sem ég hef hér til umráða til þess að víkja örlítið að nokkrum einstökum þáttum frumvarpsins. Ég hef ekki átt þátt í að koma að þessum málum í nefnd og hef ekki séð í gögnum málsins skýr svör við þeim vangaveltum sem ég hef um þetta mál eða um einstök atriði þess og væri þakklátur ef ég gæti fengið áður en þessari umræðu lýkur einhver svör við því. Hv. formaður efnahags- og skattanefndar hefur verið talsvert við umræðuna og getur kannski brugðist við, en ég vænti þess þá að ef hann gerir það ekki muni aðrir hv. þingmenn stjórnarflokkanna sem hér eru staddir koma þar til sögunnar og útskýra þann þátt fyrir mér. Þeir hafa eins og löngum í umræðum í dag verið fjarstaddir og ekki tekið þátt í umræðu um þau mál sem hér hafa verið til umfjöllunar og þykist ég vita að þeir hafi mörg og mikilvæg verkefni sem hafa tafið þá frá því að sinna þingstörfum í dag og vænti þess að það birtist þá kannski í þeim málum sem við eigum eftir að taka fyrir síðar á dagskránni í kvöld.

Ég ætlaði eins og ég sagði að víkja að nokkrum atriðum, því sem helst stendur upp úr af því sem ég rak augun í þegar ég kynnti mér frumvarpið eins og það leit út eftir 2. umr. Það eru ákveðnar spurningar í því sambandi sem mér finnst ég ekki fá svör við eins og ég sagði áður, hæstv. forseti. Ég nefni þar 3. gr. frumvarpsins um tilgang félagsins. Í a-lið finnst mér óljóst, og tek þar undir athugasemd sem kom fram í umræðunni hjá hv. þm. Illuga Gunnarssyni og raunar fleirum, það sem talað er um í 2. málslið a-liðar:

„Félaginu er heimilt í undantekningartilvikum að kaupa lánskröfur og eftir atvikum eignarhluti í hlutaðeigandi atvinnufyrirtækjum.“

Mér finnst ekki alveg ljóst hvað átt er við með undantekningartilvikum. Ég velti fyrir mér hvort þetta beri að túlka með þeim hætti að rökstyðja þurfi í hverju tilviki fyrir sig hvers vegna þessari heimild sé beitt. — Hv. þm. Helgi Hjörvar er kominn í salinn og er ágætt að hann hlýði á þessar spurningar. — Það er varðandi a-lið 3. greinar, þar velti ég fyrir mér orðinu undantekningartilvik og hvaða áhrif það hafi á túlkun ákvæðisins. Eigum við að líta svo á að það sé frjálst mat stjórnar félagsins eða stjórnenda félagsins hvenær þessi undantekningartilvik eiga við og hvenær ekki? Eða er verið að tala um að rökstyðja þurfi í hverju tilviki fyrir sig hvenær undantekningartilvik eru fyrir hendi og hvenær ekki? Ef svo er, gagnvart hverjum á stjórnin að skýra þessar undantekningar? Ég velti þessu fyrir mér. Ég held að þetta geti skipt verulegu máli vegna þess að því opnari sem þessi heimild er því ljósara verður það hversu víðtæk afskipti þessa félags geta orðið af fyrirtækjum í íslensku atvinnulífi.

Í b-lið velti ég líka fyrir mér tveimur atriðum eða kannski einu atriði sérstaklega og það er auðvitað þar sem talað er um skuldsett atvinnufyrirtæki. Atvinnufyrirtæki, mörg hver, eru skuldsett og spurningin er sú hvort þar eru einhverjir frekari mælikvarðar sem hv. efnahags- og skattanefnd hefur hugsað í því sambandi. Ég hygg að allflest fyrirtæki raunar séu skuldsett þannig að þetta kann að vera afar opin heimild. Þar sem ég hef ekki átt þess kost að sitja í þeirri nefnd sem um málið fjallar væri ég þakklátur ef hv. formaður efnahags- og skattanefndar gæti skýrt þetta frekar. Ég held að það hjálpi umræðunni ef þessir hlutir liggja ljósir fyrir og það kann að vera að þarna sé einhver hugsun að baki sem ég átta mig ekki á, en sé svo vona ég bara að það komi fram síðar í umræðunni.

C-liður 3. gr. snýr að því eins og ég vék að áðan hvernig á að ráðstafa eða selja eignir. Ég hefði frekar kosið að það væri sagt beint út að það ætti að selja þessar eignir en þetta kemur kannski út á eitt, þetta orðalag að ráðstafa eignum. Hv. þm. Illugi Gunnarsson kom með athugasemd varðandi það hvort ekki þyrfti að huga betur að því hvað fælist í þeirri ráðagerð sem þarna er um að markaðsaðstæður ráði þessu. Hvaða markaðsaðstæður eru menn að hugsa um? Eru menn að hugsa um söluverðmætið eitt og sér, að ná sem mestu fyrir söluna eða geta önnur sjónarmið skipt máli? Það er að vísu sagt þarna:

„… að teknu tilliti til sjónarmiða um jafnræði, virka samkeppni, dreifða eignaraðild, þ.m.t. eignaraðild starfsfólks, hámörkun verðmæta ríkissjóðs og byggðafestu.“

Það má kallast kraftaverk ef allt þetta næðist í sömu sölunni. En ég velti fyrir mér hvaða merkingu hv. efnahags- og skattanefnd eða meiri hluti hennar leggur í markaðsaðstæður að þessu leyti.

Varðandi d-liðinn, 2. mgr. d-liðar, velti ég fyrir mér þeirri víðtæku reglugerðarheimild sem þar er fólgin og er reyndar áréttuð í 7. gr. frumvarpsins. Ég hef nokkrar áhyggjur af þeirri víðtæku reglugerðarheimild sem þarna felst og tel að að mörgu leyti hefði verið betra að hægt væri að útfæra í lagatexta þau atriði sem hér er gert ráð fyrir að reglugerð taki til.

Tími minn er að líða en ég vildi nefna að lokum að ég tek undir þær athugasemdir sem hafa komið fram varðandi stjórn félagsins. Ég hef eins og aðrir hv. þingmenn áhyggjur af því að of mikið vald færist til fjármálaráðherra að þessu leyti og tel að fara hefði þurft aðra leið (Forseti hringir.) en hér er gert ráð fyrir til að tempra það vald.