137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[22:19]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Í ræðu minni áðan tæpti ég aðeins á efnisatriðum úr 3. gr. frumvarpsins eins og það liggur fyrir nú eftir 2. umr. málsins þar sem sérstaklega er kveðið á um það hvernig skuli fara með þær eignir sem þetta nýja félag kaupir og hvernig skuli farið með það þegar farið er í að selja eignirnar að nýju.

Ég vakti athygli á því að þau leiðarljós sem eru kveikt í þessu frumvarpi og lýsa eiga mönnum veginn um það hvernig fara eigi með þessar eignir félagsins kunna að vera mjög mótsagnakennd. Tökum dæmi. Hér er talað um að hafa skuli í huga að hámarka verðmæti ríkissjóðs en í sömu setningu er talað um að haft skuli til hliðsjónar það sem kallað er byggðafesta, þ.e. væntanlega það að fyrirtækjum skuli ekki ráðstafað þannig að það hafi í för með sér byggðaröskun. Tökum dæmi af fyrirtæki sem er burðarás í einhverju tilteknu byggðarlagi. Hér liggja fyrir tvenns konar viðmið, annars vegar að ná hámarksarðsemi af verðmætum fyrir ríkissjóð og hins vegar að tryggja byggðafestu. Það sjá auðvitað allir að þetta eru ekki endilega samrýmanleg markmið og þá vaknar spurningin: Hvort á að ráða? Er þá algjörlega matskennt af hálfu löggjafans hvernig skuli ráðstafa þessum eignum? Á að hafa í huga hina byggðalegu hagsmuni eða á að hafa í huga hámörkun verðmæta ríkissjóðs? Eða á kannski að hafa í huga hugmyndir um dreifða eignaraðild? Allt þetta getur stangast hvað á annars horn.

Þrátt fyrir að þetta séu eitt og sér ekki óskynsamleg viðmið þá er það þannig þegar við skoðum þetta í samhengi að hættan er sú að stjórnin sem verður valin í þetta félag og framkvæmdastjóri, sem eiga síðan að hafa þetta verkefni með höndum, lendi í mjög miklum vanda. Ég held því að það væri skynsamlegt, virðulegi forseti, að menn veltu þessu betur fyrir sér, færu betur ofan í þetta mál þannig að það lægi a.m.k. fyrir hvað á að vera ríkjandi og hvað á að vera víkjandi þegar kemur að þessum málum.

Í öðru lagi langar mig aðeins að fara inn í umræðuna, sem ég gat ekki gert í fyrri ræðu minni, um stjórn félagsins og ráðningu framkvæmdastjóra. Hér hefur verið farið allmörgum orðum um það hvernig þessu er fyrir komið í frumvarpinu eins og það liggur fyrir núna og mætti segja margt um það. Eitt er t.d. alveg skýrt að í þessu frumvarpi er kveðið upp úr um það, sem er út af fyrir sig ákveðinn léttir eða ákveðin stefna, að það liggur skýrt fyrir í 4. gr. að stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skuli vera lögráða, þ.e. þeir eiga að vera orðnir 18 ára. Að vísu er það svo í lögræðislögum, ég fletti þessu sérstaklega upp, að til er ákveðin undantekning, ef sá sem er ólögráða fyrir æsku sakir fer í hjúskap verður hann lögráða upp frá því, þannig að við getum séð í tilteknum undantekningartilvikum að mjög ungt fólk geti verið í stjórn eða jafnvel framkvæmdastjórar þessa félags, en ég geri ekki ráð fyrir að það verði mjög mörg dæmi um að þeir sem eru skilgreindir í lögum börn stjórni þessu félagi. Ég á ekki von á að það verði hin almenna regla í þessu, kannski frekar undantekning ef þannig háttar til um mjög efnileg börn sem hafa nýlega gengið í hjónaband og eru ekki orðin 18 ára og eru þá talin kannski mjög eftirsótt í þetta hlutverk. En látum það liggja á milli hluta.

Aðalatriðið er að það er augljós mótsögn í því fyrirkomulagi sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu, að skipað er í þessa stjórn með þeim hætti sem frumvarpið kveður á um. Síðan er vísað í hina nýju stóru bankastofnun sem á að vera alltumlykjandi og m.a. hafa þetta með höndum. Þar er hins vegar kveðið á um að þegar þessi nýja bankastofnun á að fara að velja í bankaráð viðskiptabankanna eigi að beita valnefndum. Ég skal viðurkenna að ég er enginn sérstakur talsmaður valnefnda, ég hef séð margs konar bull koma út úr valnefndum og það sem þaðan kemur er stundum upp og ofan. En ég tel að þegar verið er að fjalla um svona mál nánast á sömu mínútunni sé það ekki ósanngjörn krafa að það sé eitthvert samræmi í því þegar á annars vegar að ráða í stjórnir banka og hins vegar að ráða í þetta mikla félag, (Forseti hringir.) að það sé eitthvert samræmi í því hvernig þessum málum (Forseti hringir.) skuli háttað. En þá er kannski því við að bæta, eins og ég nefndi áðan, að gert er ráð fyrir að býsna ungir krakkar geti verið í stjórn (Forseti hringir.) og framkvæmdastjórn þessa nýja félags.