137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[22:25]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um stofnun opinbers hlutafélags til að stuðla að endurskipulagningu rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja, mál sem hefur verið til umfjöllunar á þessu þingi en dúkkaði upp aftur á þinginu eftir að það náði sem betur fer ekki fram að ganga á síðasta þingi. Ég segi sem betur fer vegna þess að ég sat í hv. efnahags- og skattanefnd á þeim tíma og það frumvarp sem þá var lagt fram var fullkomlega galið, svo ég leyfi mér að kveða sterkt að orði, og það gleður mig að frumvarpið er búið að taka breytingum til þó nokkurs batnaðar þó að lengi megi bæta hlutina.

Þetta tengist allt saman því sem við erum að ræða þessa dagana. Frumvarpið sem við ræddum fyrr í dag, sparisjóðafrumvarpið, er mjög mikilvægt og við höfum komið fram athugasemdum okkar við það, minni hlutinn, og talað dálítið fyrir daufum eyrum í þeim efnum, 3. umr. um það mál lauk áðan. En ég held að hrósa megi efnahags- og skattanefnd, mér hefur heyrst á félögum mínum sem þar eiga sæti að athugasemdir þeirra varðandi málið sem við ræðum núna hafi nokkuð verið teknar til greina. En þetta tengist allt, þetta eru allt saman verkefni um endurreisn og hún er eflaust mikilvægasta verkefnið sem við sem þjóð höfum nokkurn tíma staðið frammi fyrir, leyfi ég mér að segja, og þá skiptir mjög miklu máli hvernig við gerum það.

Hér eru nokkur mál sem öll tengjast, það er eins og ég sagði sparisjóðafrumvarpið sem við ræddum áðan, það er þetta frumvarp, það er frumvarpið um Bankasýsluna sem við munum ræða með þessu áframhaldi einhvern tíma undir morgun ef skipulagið verður með þeim hætti. Síðan koma inn í þetta allt hlutir eins og eigendastefna fyrir fjármálafyrirtækin sem við ræddum áðan og hefur ekki verið afgreidd út úr ríkisstjórn. Mér skilst að það eigi að afgreiða hana á morgun og vonandi fáum við sjá hana sem allra fyrst vegna þess að í þessu máli eins og í hinum málunum er varða fjármálafyrirtækin sérstaklega skiptir eigendastefna mjög miklu.

Markmiðin með þessu öllu saman eru göfug og mig langar að ræða þetta aðeins í heild en ekki einskorða mig við frumvarpið sem hér er til umræðu þar sem ég tel að mörg efnisatriðanna sem við höfum sett hornin í séu þegar komin fram. Mig langar að dvelja dálítið við það markmið sem sett er fram með þessu frumvarpi og var mikið rætt í tengslum við Bankasýsluna og það er að færa þessi fyrirtæki sem því miður eru öll komin í fang ríkisins, færa valdið frá pólitíkinni og ákvarðanirnar frá ráðamönnum, frá fjármálaráðherra. Þá er spurningin: Er það markmið að takast? Það er það sem ég hef miklar áhyggjur af varðandi frumvarpið um Bankasýsluna en ég hef líka áhyggjur af því í þessu frumvarpi vegna þess að jafnvel þótt sett verði á fót ný stofnun eða hlutafélag í þessu tilfelli þá er það þannig að pólitíkin er ekki langt undan. Hæstv. fjármálaráðherra skipar stjórnina og ég leyfi mér að fullyrða að það eitt að hann geri það þýði á mannamáli að pólitíkin er þar mjög nærri og sama á við um Bankasýsluna. Það má eiginlega segja að þetta sé þannig að það er verið að færa pólitíkina, setja eitt millibil, en eins og við höfum rætt í viðskiptanefnd í tengslum við þetta, þá gengur þetta ekki alveg nógu langt.

Ég held að það hafi verið hv. þingmaður Borgarahreyfingarinnar, Margrét Tryggvadóttir, sem í samtali líkti þessu við leikrit, að það væri verið að setja á fót leikrit, markmiðið væri að færa pólitíkina út en fyrst menn gengju ekki alla leið, fyrst menn tækju ekki skrefið þannig að það sé sannarlega óháður aðili og óháðir aðilar sem skipa stjórn eða ráða stjórnendur verði þetta alltaf pólitískt. Við skulum bara segja hlutina eins og þeir eru.

Af hverju viðurkennum við það ekki bara að á meðan þessar stofnanir, meðan þetta eignaumsýslufélag, Bankasýslan, bankarnir og öll þessi fyrirtæki eru í ríkiseigu verði þetta á ábyrgð stjórnmálamanna? Og við skulum þá sameinast um það öll að skipa í þetta, gera þetta þannig að það verði alveg einsýnt að það sé fulltrúi frá öllum stjórnmálaöflum sem hafi tilnefningaraðila og þannig getum við tryggt að það sé ekki hægt að væna blessaðan fjármálaráðherrann um að vera að gæta einhverra sérstakra hagsmuna. Þá bera allir jafna ábyrgð.

Ég held að við ættum líka að gera annað, ég held að við ættum að heita okkur sjálfum því þegar þessar tilnefningar fara af stað að við gerum það þannig að allir flokkar skipi á faglegum nótum, að það sé ekki verið að skipa menn og konur í stjórnir og ráð sem ekki eiga þar heima og einungis á grundvelli pólitískra skoðana. Þannig gætum við hugsanlega náð einhverjum árangri ef við komum okkur saman um þetta.

Ríkið er einhvern veginn alltumlykjandi í öllu sem við gerum núna og fyrir manneskju eins og mig sem hefur þá stjórnmálaskoðun og trúir á þá hugmyndafræði í pólitík að við eigum að minnka umsvif ríkisins þá eru dagarnir núna á Alþingi hver sorgardagurinn á eftir öðrum. Ég notaði þau orð í viðskiptanefnd um daginn þegar við vorum að ræða mál sem við ræðum á eftir og varða gjaldeyrishöftin, að ég þyrfti að taka það fram og nota þann formála við allar þær spurningar sem ég spyrði gesti að, hvað mér fyndist þetta mál vera ömurlegt. Mér finnst þetta allt saman rosalega ömurlegt og ég verð bara að fá að segja það úr þessum virðulega ræðustól og vona að mér fyrirgefist það en það er ömurlegt að við skulum þurfa að standa hér árið 2009 og stofna eignaumsýslufélag ríkisins. Það er fullkomlega ömurlegt. Það er því eins gott að við gerum þetta eins vel og við hugsanlega getum.

Virðulegi forseti. Margt er komið fram af því sem máli skiptir. Í þessu máli, eins og ég sagði áðan, hefur sem betur fer verið tekið tillit til ýmissa athugasemda. Í vinnu efnahags- og skattanefndar á síðasta þingi þegar þetta var til umræðu var beinlínis varað við því af velflestum umsagnaraðilum, held ég, að fara þessa leið. Ég man að fulltrúi Alþýðusambandsins kom á fundinn og sagði að með þessu væri verið að gera meiri skaða en gagn, ég man ekki hvort það var hann eða einhver annar sem notaði þau orð að það væri beinlínis hættulegt fyrir endurreisnina að fara þessa leið. Mér skilst að þær umsagnir — ég hef ekki náð að lesa þær allar — hafi sem betur fer mildast þó svo að umsagnaraðilar hafi enn gert athugasemdir og það hefur ekki verið tekið tillit til þeirra allra.

Sá sem talaði á undan mér, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, rak augun í það atriði að stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skyldu vera lögráða og kom með dæmi um að það þyrfti ekki alltaf að þýða það að viðkomandi væri orðinn fullorðinn. Það er líka í 4. gr. sem ég rek augun í annað sem er reyndar líka í frumvarpinu um Bankasýsluna og það varðar hæfisskilyrði forstjóranna. Þar er sagt, með leyfi forseta:

„Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skulu hafa haldgóða menntun og sérþekkingu á fjármálum og rekstri fyrirtækja.“

Í Bankasýslufrumvarpinu segir um hæfisskilyrði, með leyfi forseta:

„Stjórnarmenn og forstjóri skulu hafa haldgóða menntun auk sérþekkingar á banka- og fjármálum.“

Þá langar mig að spyrja þá sem hafa verið í vinnu nefndarinnar varðandi þetta mál: Hvernig er haldgóð menntun skilgreind? Það er ekki gerð krafa um að viðkomandi stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skuli hafa háskólapróf eða hafa lokið verslunarprófi eða hverju sem er. Mér leikur forvitni á að vita hvernig haldgóð menntun er skilgreind, reyndar í báðum þessum frumvörpum. Mér hefur hreinlega láðst að spyrja að því í hv. viðskiptanefnd þar sem þetta orðalag er líka viðhaft. Án þess að ég sé að gera lítið úr skóla lífsins er skilgreiningin á haldgóðri menntun eilítið loðin mundi ég segja.

Virðulegi forseti. Tími minn fer að styttast. Ég vil aðeins segja að í endurreisnarstarfinu öllu saman er mikilvægt að við vöndum okkur. Ég dreg svo sem ekkert í efa að menn hafi vandað sig og gefið sér tíma við þetta mál, ég held hins vegar að öll svona umsýsla með eignir ríkisins sem þarf að koma út aftur og þegar verið er að úthluta gæðum, bjóði upp á ákveðna hættu á spillingu. Þess vegna er afar mikilvægt að komið verði í veg fyrir allt slíkt, að markmiðin og regluverkið allt sé skýrt að því ógleymdu að séð verði fyrir endann á verkinu, að við höfum það að markmiði sem ég sé að er reyndar dálítið langt í en því á að ljúka 2015. Ég hefði kosið að því væri gefinn styttri tími en við getum öll vonað að ef við leggjum okkur fram verði hægt að ljúka þessu verkefni á skemmri tíma.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan með stjórnina að ef mönnum er fullkomin alvara með að færa pólitíska valdið burt og frá þessu verkefni eigi að líta til þess hvernig stjórnin er skipuð og gæta þess í hvívetna að það sé ekki á hendi og ábyrgð eins ráðherra að skipa stjórn sem skipar svo framkvæmdastjóra, vegna þess að það gerir ekkert annað en að bjóða hættunni heim.