137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

gjaldeyrismál.

137. mál
[22:45]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Það frumvarp sem hér er um að ræða helgast af þeim vilja að öll þau úrræði séu til staðar sem nauðsynleg eru til að framfylgja þeim lögum sem Alþingi hefur sett. Því er ekki um annað að ræða en að styðja framgang þessa máls en undir liggur hin ómögulega staðreynd að gjaldeyrishöft eru við lýði. Það er bara þannig, frú forseti, að á meðan slík höft eru er bæði viljinn til að fara fram hjá þeim og getan miklu meiri en geta eftirlitsaðila hins opinbera til að stöðva það að menn nýti sér þann mun sem myndast t.d. á gengi íslensku krónunnar heima á Íslandi og erlendis. Það er vandinn. Það eru lög sem ganga þvert gegn markaðnum, þvert gegn lögmálinu um framboð og eftirspurn á gjaldeyri og því skapast þessi ógæfulega staða.

Þess vegna er enn á ný ástæða til að áminna þingheim allan um það og ríkisstjórn hversu mikilvægt er að það skapist þær aðstæður sem gera okkur kleift að afnema þessi gjaldeyrishöft. Þau eru vond og þau eyðileggja og þau hægja á öllum möguleikum okkar til þess að endurreisa íslenskt efnahagslíf. Það er grundvallaratriði þessa máls, hvert skref í átt til frekari hafta hefur reynst okkur auðvelt, það er erfiðara að fara til baka en fyrr en síðar verður það að gerast. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)