137. löggjafarþing — 37. fundur,  10. júlí 2009.

störf þingsins.

[10:35]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að beina orðum mínum til hv. þm. Guðbjarts Hannessonar, formanns fjárlaganefndar. Ég kem upp til að lýsa áhyggjum mínum af stöðu þingsins í þeirri orrahríð sem nú er og fram undan verður varðandi skiptingu fjármuna hjá ríkinu. Ég sé á upplýsingum sem ég hef fengið að þingið hefur virkilega tekið tillit til þeirra aðstæðna sem verið hafa í þjóðfélaginu, dregið saman seglin og sparað. Ef ég skil þessar upplýsingar rétt hafa ráðuneytin brugðist við með öðrum hætti og í sjálfu sér hafi ekki verið mikil raunlækkun á milli ára hjá ráðuneytunum 2008 og 2009. Ég vil heyra það frá hv. formanni fjárlaganefndar hvort hann sé sama sinnis og ég um það að við verðum að standa vörð um þingið, að framkvæmdarvaldið komi ekki hér og leggi fram tillögur um sparnað sem veikja muni þennan mikla þátt okkar samfélags og þjóðfélags og hvort hv. þingmaður muni beita sér fyrir því í fjárlaganefnd að standa vörð um þær fjárveitingar sem þingið fær.

Það er ljóst að á þeim tímum sem við lifum í dag er óeðlilegt að framkvæmdarvaldið beiti sér fyrir því að draga úr vægi þingsins. Því er mjög mikilvægt og ég heiti í raun á alla þingmenn að standa vörð um þær fjárveitingar sem ætlaðar eru þinginu og láta það ekki gerast að dregið verði úr þeirri þjónustu, því vægi og þeim störfum sem við erum að sinna á þinginu. Við eigum ekki að láta framkvæmdarvaldið setja þingið niður með þeim hætti.