137. löggjafarþing — 37. fundur,  10. júlí 2009.

störf þingsins.

[10:40]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fá að ræða aðeins um áherslur í samgöngumálum við hv. þm. Magnús Orra Schram, fulltrúa Samfylkingarinnar í samgöngunefnd þingsins. Þannig er mál með vexti að um langan tíma hafa íbúar höfuðborgarsvæðisins þurft að búa við það að fá miklu skertari framlög til allra samgöngubóta en almennt hefur verið á landinu og þó að heldur hafi ræst úr síðustu ár þekkjum við það öll sem þar búum og störfum að þar er óþolandi ástand á ákveðnum tímum dags, á álagstímum víða á svæðinu. Sérstaklega á þetta við á vetrartímanum þegar skólar eru komnir í gang og umferðarþunginn er mikill á ákveðnum tíma að morgni og síðdegis.

Það eru ákveðnar stórframkvæmdir sem hafa verið í pípunum getum við sagt eða staðið til að fara í og búið að undirbúa útboð á og þegar eru reyndar komin í gang útboð. En nú sjáum við í áherslum hæstv. samgönguráðherra að það er verið að hætta við þessi útboð og fresta því að láta fara að vinna þessi verk. Um er að ræða Arnarnesveg í Kópavogi. Arnarnesvegur tengir saman nýjar byggðir, Álftanesveg sem er löngu tímabært að fara í. Svo erum við að tala um tvöföldun Vesturlandsvegar þar sem er mikill flöskuháls í umferðinni og umferðarhnútar myndast bæði inn og út frá höfuðborgarsvæðinu og eins fyrir íbúa í Mosfellsbæ. Ég vil því inna hv. þm. Magnús Orra Schram eftir áliti hans á þessari forgangsröðun samgönguráðherra og hvort við megum ekki treysta því, íbúar og þingmenn kjördæmisins sem hann kemur úr, (Forseti hringir.) að hann muni standa vörð um hagsmuni kjördæmisins þegar kemur að skiptingu fjár til samgöngumannvirkja.