137. löggjafarþing — 37. fundur,  10. júlí 2009.

ríkisbankarnir -- sparnaður í rekstri þingsins -- samgöngumál -- svar við fyrirspurn.

[10:46]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég get ekki tjáð mig um þann einstaka lánasamning sem hv. þingmaður nefndi hér en ég hlýt að taka það fram að ég geri mjög ríka kröfu til þess að jafnræði og gagnsæi ríki þegar ráðstafað er opinberu fé. Við erum að setja á bilinu 300–400 milljarða inn í bankana og sparisjóðina af skattfé landsmanna. Það er mjög mikilvægt að þegnarnir geti verið vissir um að því sé ráðstafað á jafnræðisgrunni, að þjónustan sem menn fá fari ekki eftir öðru en eðlilegum viðskiptaháttum.

Í mínum huga erum við að ekki endurreisa gamla bankakerfið. Við erum með þessum fjármunum að endurreisa heilbrigt fjármálalíf á Íslandi og til þess þarf margt að breytast. Það þarf einmitt að tryggja jafnræðið sem ég nefndi, bankarnir þurfa að þjóna fyrst og fremst einstaklingum og heimilum og fyrirtækjum í landinu, stórum og smáum, en ekki vera áhættusæknir fjárfestar eins og þeir voru og hygla eigendum sínum og góðvinum þeirra. Slík starfsemi og slík stefna leiddi okkur einmitt í hrunið.

Margir hafa áhyggjur af því að þegar eigendastefna sem á að taka til allra fjármálastofnana sem ríkið á hlut í lítur dagsins ljós muni samkeppni vera ógnað. Ég hlýt að segja að það er auðvitað vandrataður vegurinn á milli fulls jafnræðis í þessum efnum og samkeppnissjónarmiða en í mínum huga er jafnræðið mikilvægara og ég vonast til þess að eigendastefnan, þegar hún verður kynnt í þinginu, fylgi þeirri meginreglu.