137. löggjafarþing — 37. fundur,  10. júlí 2009.

ríkisbankarnir -- sparnaður í rekstri þingsins -- samgöngumál -- svar við fyrirspurn.

[10:54]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna þess að nú eru fimm vikur liðnar síðan ég lagði fram skriflega fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra. Í þingsköpum Alþingis segir, með leyfi forseta:

„Ef óskað er skriflegs svars sendir ráðherra forseta það að jafnaði eigi síðar en tíu virkum dögum eftir að fyrirspurn var leyfð. Forseti sendir fyrirspyrjanda svarið og skal það prentað og útbýtt meðal þingmanna á fundi.“

Þessu skjali var útbýtt 4. júní, fyrir fimm vikum eins og ég sagði, og ég vil beina því til forseta hvort hér sé ekki klárlega verið að brjóta þingsköpin.

Maður veltir því líka fyrir sér út af allri umræðunni um upplýsingaflæði framkvæmdarvaldsins til Alþingis hvort þetta sé enn ein niðurlægingin þar.

Síðan vil ég jafnframt beina því til forseta að eftirfarandi lagaákvæði verði skoðað vegna þess að í lögum um samgönguáætlun stendur:

„Fjögurra ára áætlun samgönguáætlunar skal endurskoðuð á tveggja ára fresti og þá unnin ný áætlun fyrir næstu fjögur ár og lögð fram á Alþingi ný þingsályktunartillaga um hana, þannig að ávallt sé í gildi samþykkt áætlun fyrir a.m.k. tvö ár í senn.“

Frú forseti. Ég óska eftir þessu af því að síðasta áætlun var samþykkt 17. mars 2007, þannig að samkvæmt þessu má skilja að það sé ekki einu sinni í gildi samgönguáætlun nema ef vera skyldi persónuleg samgönguáætlun hæstv. samgönguráðherra sjálfs.

Ég ítreka spurningu mína til forseta um að hún gangi í að reka á eftir þessu og hvort minn skilningur sé réttur að hér sé klárlega verið að brjóta þingsköp Alþingis.