137. löggjafarþing — 37. fundur,  10. júlí 2009.

ríkisbankarnir -- sparnaður í rekstri þingsins -- samgöngumál -- svar við fyrirspurn.

[10:56]
Horfa

Þór Saari (Bhr):

Virðulegur forseti. Ég tek til máls um störf þingsins eins og nokkrum sinnum áður. Ég hef tæpt á því úr þessum stóli að mér þykja ekki til fyrirmyndar vinnubrögðin á Alþingi, vinnulag og vinnureglur. Tók þó steininn úr í gær þegar verið var að afgreiða nefndarálit um ESB-málið.

Ég verð að segja það að ég hef aldrei orðið vitni að öðru eins. Þetta eru stærstu mál Íslandssögunnar sem verið er að afgreiða og þau eru afgreidd á harðahlaupum yfir Austurvöllinn, inn og út um herbergi og á göngum nefndasviðs Alþingis. Ég var kallaður þrisvar sinnum út af nefndarfundi undanfarna tvo daga til að tékka á orðalagi sem átti að vera í þessu nefndaráliti. Vissulega var það gert af virðingu við sjónarmið okkar, Borgarahreyfingarinnar, sem koma fram í því nefndaráliti. Engu að síður eru þetta ekki eðlileg vinnubrögð.

Nefndarálitið í gær var afgreitt með fyrirvara af hálfu fulltrúa Borgarahreyfingarinnar í utanríkismálanefnd vegna þess að henni var rétt nefndarálitið ólesið og hún var beðin um að vera með á því án þess að hafa lesið það. Vitaskuld sagði hv. þm. Birgitta Jónsdóttir: Nei, ég set ekki nafn mitt undir nefndarálit sem ég hef ekki lesið.

Ég velti því fyrir mér hversu margir nefndarmenn skrifuðu undir þetta nefndarálit án þess að hafa lesið það. Það var ekki sest niður í utanríkismálanefnd og farið yfir álitið línu fyrir línu og það rætt í nefndinni. Slík eru vinnubrögðin í stærstu málum Íslandssögunnar og þau eru ekki til sóma. Troðið er á drengskaparheitum alþingismanna þegar þeir eiga að að vinna samkvæmt samvisku sinni, þeim er hótað og þeir eru kúgaðir.

Virðulegi forseti. Þegar ég hef rangt fyrir mér skipti ég um skoðun. Það er greinilegt að fjölmargir þingmenn hafa komið inn á þing í vor með ákveðnar skoðanir og þegar það rennur upp fyrir þeim að þær eru kannski ekki alls kostar réttar miðað við gögn sem eru lögð fram í málum sem hér koma fram, (Forseti hringir.) þá eiga menn og verða einfaldlega að skipta um skoðun ef það rennur upp fyrir þeim að þeir hafa rangt fyrir sér og þeir verða að fylgja samvisku sinni. (Forseti hringir.) Það er ekki hægt að viðhafa kúgun og hótanir í garð þingmanna vegna þess. Það er ósæmilegt.