137. löggjafarþing — 37. fundur,  10. júlí 2009.

ríkisbankarnir -- sparnaður í rekstri þingsins -- samgöngumál -- svar við fyrirspurn.

[11:01]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Áfram um stöðu Alþingi. Við getum verið sammála um að við viljum verja hagsmuni Alþingis. Aftur á móti vildi ég vekja athygli á því að gengið verður frá þessum breytingum í fjáraukalögum í haust. Þar er að vísu unnið eftir þeim römmum sem komu í bandorminum svokallaða sem hefur verið afgreiddur frá þinginu. Hins vegar er það Alþingi sem setur fjárlög fyrir árið 2010. Þar hafa verið settir ákveðnir rammar sem koma fram aðallega í skýrslunni sem lögð var fram ásamt því sem er í bandorminum. Þar er Alþingi gert að spara eins og ráðuneytunum og það er gengið svolítið stíft eftir því. Ég mun a.m.k. fylgja því eftir í fjárlaganefnd að þar sé ekki neinn felusparnaður heldur raunverulega verið að reyna að hagræða og draga saman og endurstokka ríkiskerfið miðað við minnkandi tekjur og fjárhagsgetu. Það var ákvörðun ríkisstjórnarinnar og tillaga sem lögð var fram í þinginu og hefur verið kynnt í skýrslu sem mun koma til afgreiðslu eins og ég sagði í fjárlögum. Það að reynt verði að beita sparnaðinum þannig að gætt verði jafnréttissjónarmiða og reynt að ráðast að stjórnsýslunni frekar en að grunnþjónustunni eins og málefnum fatlaðra eða heilbrigðisþjónustunni. Ég vona að hv. þingmaður og sá sem hér stendur séu sammála um að sú forgangsröðun eigi að haldast.

Alþingi verður auðvitað að sæta sömu skoðun og aðrir, eins og ég sagði, og mun að sjálfsögðu sýna gott fordæmi. Alþingi hefur sýnt það hingað til og hefur tekið á sig, eins og hv. þingmaður bendir réttilega á, niðurskurð og mun gera það áfram til jafns við aðra. Það þýðir ekki að skerða þurfi vinnuaðstöðu þingmanna eða möguleika þeirra til að sinna störfum sínum en það getur þýtt að draga þurfi eitthvað úr utanlandsferðum og að einhverju leyti lækka kostnað í kringum okkar störf eins og hjá öllum öðrum í samfélaginu.