137. löggjafarþing — 37. fundur,  10. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[11:26]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Mál hliðstætt þessu var lagt fram af minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna á vormánuðum sem við framsóknarmenn vörðum vantrausti á þingi. En við vorum algerlega andvígir því frumvarpi sem þá var lagt fram og þess vegna náði það ekki fram að ganga. Ég held að allir séu sammála því að það frumvarp sem við ræðum hér sé mun betra í alla staði heldur en hið fyrra frumvarp þannig að sú andstaða sem við framsóknarmenn beittum okkur fyrir hefur þar af leiðandi skilað sér í því að við ræðum mun betri löggjöf en þá sem við ræddum þá og hefði verið samþykkt ef við hefðum stutt hana.

Eins og ég sagði áðan, frú forseti, þá höfum við lagt áherslu á að faglega verði skipað í stjórn þessa félags. Meiri hlutinn hefur ekki sæst á þá hugmynd okkar meðal annars að setja á fót valnefnd sem mundi tilnefna í þessa stjórn eða að fleiri en einn aðili mundi tilnefna í stjórn þessa félags. Þar af leiðandi getum við ekki greitt þessu frumvarpi atkvæði okkar og sitjum hjá við þessa atkvæðagreiðslu.