137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

breytingartillaga og umræða um ESB.

[12:00]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þakkir til forseta fyrir að bregðast við þeirri skýru kröfu okkar þingmanna að fá að tala hér og nýta allan þann tíma sem mögulegt er samkvæmt þingsköpum.

Ég er allt að því orðlaus. Mér finnst að í þessu máli sé reynt að skapa ágreining og mynda enn meiri ágreining, sem þó er nógur fyrir, á öllum stigum málsins. Nú átti að keyra í gegn takmarkanir á ræðutíma. Sem betur fer stöðvaði frú forseti það og ég þakka enn og aftur fyrir það. En ég er fullkomlega orðlaus eftir ræðu hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar. Ég er hrygg og sorgmædd. Mér finnst með ólíkindum að þetta sé hægt í þessu stóra og mikla máli sem þingmenn og meira að segja forsvarsmenn annars stjórnarflokksins segja að ekki hafi verið neitt samkomulag um að klára öðruvísi en að þingmenn greiði atkvæði eftir sinni bestu sannfæringu. (Forseti hringir.) Það er verið að ganga á bak þeirra orða. Ég átta mig ekki á því, frú forseti, hvernig þetta má vera, hvernig þetta er hægt.