137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

breytingartillaga og umræða um ESB.

[12:06]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem upp því að ég gat ekki orða bundist eftir ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals þar sem hann var að væna okkur ráðherra Samfylkingarinnar um að ganga hér um sali og kúga þingmenn. Þetta er bara ósatt hjá hv. þingmanni og það kom hvergi fram í máli þess hv. þingmanns sem hóf þessa umræðu, hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar, að ráðherrar Samfylkingarinnar stæðu að einhverju slíku.

Ég undra mig líka á því, virðulegi forseti, hvert þessi umræða er að fara vegna þess að ég hélt að umræða um fundarstjórn forseta ætti að snúast um fundarstjórn forseta. Ég vildi gjarnan geta hafið fundinn á því að kveðja mér hljóðs og lýsa skoðun minni í einstaka málum og sent hvatningu til þingheims um leið og ég segðist ekki ætla að taka þátt í umræðu þann daginn, sent hvatningu til þingheims um það hvernig ég telji að þeir eigi að greiða atkvæði. Ég hefði alveg viljað byrja daginn á því að standa hér og segja að ég telji tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu, þá leið, vera lýðskrum vegna þess að þar fer fram óupplýst umræða. En ég geri það ekki vegna þess að ég hef litið svo á að umræða um fundarstjórn forseta væri ekki ætluð fyrir yfirlýsingar einstakra þingmanna um skoðanir þeirra á ákveðnum (Forseti hringir.) málum heldur væri það, virðulegi forseti, umræða um fundarstjórn hæstv. forseta.