137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar um 38. mál á þskj. 249, tillögu til þingsályktunar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

Utanríkismálanefnd hefur undanfarnar sex vikur fjallað um málið sem lagt er fram af utanríkisráðherra. Í því er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning.

Nefndin fjallaði samhliða um tillögu til þingsályktunar um undirbúning mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu sem lögð var fram af þingflokkum Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Sú tillaga gengur út á að fela utanríkismálanefnd Alþingis að undirbúa mögulega umsókn um aðild að Evrópusambandinu með því að setja saman greinargerð um mikilvægustu hagsmuni Íslands í aðildarviðræðum við sambandið og vinna vegvísi að mögulegri aðildarumsókn sem taki til umfjöllunar öll álitamál varðandi upphaf aðildarviðræðna og hvernig að þeim skuli staðið, auk þess að fjalla um nauðsynlegar ráðstafanir í tengslum við staðfestingu mögulegs aðildarsamnings. Er í þeirri tillögu gert ráð fyrir að þessari vinnu verði hraðað eins og kostur er og lokið eigi síðar en 31. ágúst nk.

Það var alveg ljóst frá upphafi vegferðar nefndarinnar að skiptar skoðanir væru innan þeirra stjórnmálaflokka sem nú eiga sæti á Alþingi um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Nefndin ásetti sér engu að síður að fjalla sameiginlega um málin enda töldu nefndarmenn tillögu Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks lúta að veigamiklum atriðum sem um margt væri eðlilegt að meta og horfa til við undirbúning hugsanlegrar aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu. Tillagan var því mikilvægt innlegg í vinnu nefndarinnar og vil ég nota þetta tækifæri og þakka það málefnalega framlag sem felst í tillögu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar er í samræmi við þetta vikið að atriðum sem fram koma í greinargerðum beggja tillagnanna en vinna nefndarinnar undanfarnar sex vikur miðaðist af fremsta megni við að sameina umfjöllun um þau sjónarmið sem uppi hafa verið og tryggja sem besta og ítarlegasta umfjöllun og málsmeðferð.

Því lítur meiri hlutinn svo á að með nefndaráliti hans sé í raun orðinn til sá vegvísir sem tillaga Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks gengur út á þótt við lokaafgreiðslu málsins hafi ekki tekist að ná þeirri samstöðu sem lagt var upp með. Engu að síður telur meiri hlutinn eðlilegt að við undirbúning og skipulag aðildarviðræðna við Evrópusambandið fylgi ríkisstjórnin þeim sjónarmiðum um verklag og meginhagsmuni sem koma fram í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar og á sér einnig stoð í tillögunni í máli nr. 54 frá Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki og endurspeglast sömuleiðis í samþykktum einstakra stjórnmálaflokka og er e.t.v. sérstök ástæða til að nefna samþykkt flokksþings Framsóknarflokksins sem ályktaði ítarlega um málið.

Að mati meiri hlutans verður ekki vikið frá þeim hagsmunum sem nefndarálitið lýsir án undanfarandi umræðu á vettvangi Alþingis og leggur meiri hlutinn til að orðalagi þingsályktunartillögunnar verði breytt með hliðsjón af þessu.

Nefndin ræddi á fundum sínum nokkuð um upphaf og ferli hugsanlegra aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Því eru gerð ítarleg skil í nefndaráliti meiri hlutans og óþarft að endurtaka hér. Þó er rétt að halda því til haga að um það var rætt af hálfu ýmissa gesta nefndarinnar að skynsamlegt gæti verið að aðildarumsókn Íslands, ef samþykkt verður, bærist fyrir fund utanríkisráðherra Evrópusambandsins sem fer fram 27. júlí nk. þótt það sé að sjálfsögðu ekkert úrslitaatriði. Sá vettvangur er bær til að ræða slíka umsókn og senda áfram til framkvæmdastjórnarinnar til meðferðar. Til að skera úr um hvort ríki fullnægi aðildarskilyrðum lítur framkvæmdastjórnin fyrst og fremst til svokallaðra Kaupmannahafnarviðmiða sem gerð er grein fyrir í nefndaráliti meiri hlutans. Á endanum er það svo leiðtogaráð Evrópusambandsins sem tekur ákvörðun um hvort ráðist skuli í aðildarviðræður við umsóknarríki. Samþykki Alþingi þá þingsályktunartillögu sem hér er til umfjöllunar má gera ráð fyrir að leiðtogaráðsfundur Evrópusambandsins, sem haldinn verður í desember nk., taki málið til meðferðar og verði niðurstaða ráðsins jákvæð má ætla að viðræður gætu hafist snemma næsta árs.

Við aðildarviðræður leggur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fram tillögur að samningsafstöðu í hverjum hinna 35 kafla löggjafar sambandsins. Einróma samþykki allra aðildarríkja þarf til að hefja og ljúka viðræðum um hvern og einn kafla og hið sama á að sjálfsögðu við um umsóknarríkið. Fyrir liggur að Ísland hefur nú þegar að mestu tekið upp löggjöf Evrópusambandsins á sviði 22 kafla af 35 í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Ætla má að viðræður um þá kafla verði skýrar og tiltölulega einfaldar í sniðum, hins vegar mun greining á löggjöf og í kjölfarið öllu ítarlegri samningaviðræður þurfa að fara fram varðandi þá þætti sem ekki falla undir EES- og Schengen-samningana, þ.e. um landbúnaðar- og sjávarútvegsmál, dóms- og innanríkismál, gjaldmiðilsmál, skattamál, byggðamál, tollamál, utanríkismál, öryggis- og varnarmál, fjárhagsmálefni, stofnanir og ýmis önnur atriði.

Nefndin ræddi sérstaklega á fundum sínum mikilvægi þess að allt samráð og upplýsingagjöf við Alþingi, hagsmunaaðila og almenning meðan á aðildarviðræðum við Evrópusambandið stæði yrði mikil og víðtæk. Meiri hlutinn leggur í áliti sínu þunga áherslu á að Alþingi geti í ferlinu öllu uppfyllt stjórnskipulegar skyldur sínar, axlað þá ábyrgð sem meðferð málsins krefst og haft virka aðkomu að og eftirlit með aðildarviðræðum á öllum stigum. Því verður ekki lögð á það nægjanleg áhersla við fulltrúa framkvæmdarvaldsins að víðtækt samráð verði haft við Alþingi á öllum stigum viðræðuferlisins til að þingið standi ekki frammi fyrir orðnum hlut heldur sé virkur þátttakandi og eftirlitsaðili frá upphafi og í ferlinu öllu. Í þessu felst, eins og fram kemur í áliti meiri hlutans, að ráðherrar og samningamenn komi reglulega á fund nefndarinnar meðan á viðræðum stendur, öll gögn sem lögð verða fram í viðræðunum komi jafnframt inn á borð nefndarinnar og að utanríkisráðherra geri Alþingi reglulega grein fyrir stöðu viðræðnanna með skýrslu. Þá gengur meiri hlutinn út frá því að samráðshópur sem skipaður verður fulltrúum allra stjórnmálaflokka á Alþingi, t.d. fulltrúum úr utanríkismálanefnd, auk breiðs hóps hagsmunaaðila, verði stjórnvöldum og samninganefnd til ráðgjafar í ferlinu auk þess sem meiri hlutinn telur eðlilegt að samsetning samningateyma í einstökum málaflokkum sé kynnt í utanríkismálanefnd áður en endanlega er í þau skipað.

Það er tillaga nefndarinnar að utanríkismálanefnd fari með Evrópumálin á vettvangi Alþingis hér eftir sem hingað til, þar með talið samskipti við stjórnvöld í öllu viðræðuferlinu samþykki Alþingi þá tillögu sem hér er rædd.

Mikilvægi þess að treysta hlutverk Alþingis við viðræðuferlið endurspeglast í breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar við tillögugreinina en hún lýtur að því, eins og ég hef áður getið, að við undirbúning og skipulag aðildarviðræðna við Evrópusambandið skuli ríkisstjórnin fylgja þeim sjónarmiðum um verklag og meginhagsmuni sem koma fram í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar. Í þessu sambandi vil ég einnig halda því til haga að stjórnvöld geta hvenær sem er dregið sig út úr aðildarviðræðum ef þeim þykir einsýnt að hagsmunum Íslands verði áfram betur borgið utan sambandsins eða fyrir liggi að ekki náist ásættanlegur aðildarsamningur. Þá gæti Alþingi jafnframt á hverju stigi málsins með sama hætti ályktað um að aðildarviðræðum skuli hætt.

Þá er ekki síður mikilvægt að það ferli sem sett verður upp í tengslum við aðildarviðræður verði eins gegnsætt og kostur er og að sem víðtækast samráð verði haft við hagsmunaaðila á breiðum grunni þannig að þeir eigi jafnvel beina aðkomu að samningahópum þegar rætt er um þá kafla löggjafar Evrópusambandsins sem mestu hagsmunir Íslands liggja í. Má í því sambandi nefna aðila eins og Samband íslenskra sveitarfélaga, Bændasamtök Íslands, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Samtök atvinnulífsins og einstök aðildarfélög þess, launþegahreyfinguna, bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði, háskólasamfélagið, óháð félagasamtök á ýmsum sviðum, svo sem eins og í umhverfis- og náttúruverndarmálum, og marga fleiri.

Þá ræddi nefndin sérstaklega alla upplýsingamiðlun til almennings en meiri hlutinn telur afar brýnt að mikil áhersla verði lögð á kynningarmál og almenningur verði upplýstur um möguleg áhrif aðildar að Evrópusambandinu og um gang aðildarviðræðna. Einungis með þessu móti er hægt að tryggja að sem flestir taki upplýsta ákvörðun við lokaskref ferlisins þegar hugsanlegur aðildarsamningur Íslands að sambandinu verður lagður í dóm þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Tryggja þarf að slík upplýsingamiðlun einkennist af hlutlægni og meiri hluti nefndarinnar bendir á það að nauðsynlegt sé að gera félagasamtökum sem málið varðar kleift að kynna málstað sinn fyrir þjóðinni. Í því sambandi verða stjórnvöld að tryggja fjármagn á jafnræðisgrundvelli til þeirra hreyfinga sem vilja berjast fyrir sínum málstað og koma opinberri upplýsingamiðlun fyrir hjá óháðum aðila. Um þetta er ítarlega fjallað í nefndaráliti og eru þar m.a. reifaðar tillögur Borgarahreyfingarinnar um Lýðræðisstofu.

Í raun má segja að strax í upphafi málsmeðferðar utanríkismálanefndar hafi sá tónn upplýsingagjafar og ákalls eftir virku samráði sem meiri hlutinn leggur áherslu á verið sleginn því nefndin tók þá ákvörðun að auk þess að senda málið til umsagnar með hefðbundnum hætti skyldi birt opinberlega sérstök auglýsing þar sem félögum, samtökum og einstaklingum var gefinn kostur á að koma skriflegum athugasemdum á framfæri við nefndina. Þessi háttur gaf góða raun því þó nokkrar umsagnir bárust, aðallega frá einstaklingum sem óvíst er að hefðu borist ella.

Varðandi samningsmarkmið Íslands við aðildarviðræður að Evrópusambandinu vísa til ég til ítarlegrar umfjöllunar um meginhagsmuni þjóðarinnar í slíkum viðræðum. Í nefndaráliti meiri hlutans er skipulega farið í gegnum þá efnisflokka sem nánast óumdeilt er að skipti íslensku þjóðina höfuðmáli, komi til aðildar að sambandinu. Þar ber hæst sjávarútvegsmálin og málefni landbúnaðarins auk orku- og auðlindamála og gjaldmiðilsmála. Meiri hlutinn taldi afar mikilvægt að afmarka þessi atriði til að síðar í ferlinu væri hægt að byggja á þeim nánar skilgreindari samningsmarkmið. Að mati meiri hlutans var hins vegar ekki tímabært að fullvinna slík markmið á þessu stigi málsins meðan enn liggur ekki fyrir hvaða atriði það eru sem í raun og veru kalla á samningaviðræður. Þar kemur aftur að mikilvægi samráðsins sem ég gerði áðan að umtalsefni, samningamenn Íslands þurfa þegar þar að kemur að hafa skýra leiðsögn frá Alþingi og hagsmunaaðilum um það hver samningsmarkmiðin eigi að vera og hvaða niðurstaða sé ásættanleg í hverjum efnisflokki fyrir sig.

Auðlinda- og orkumál hlutu ítarlega umræðu í nefndinni enda sérstaða Íslendinga í þessum málum mikil. Meiri hlutinn leggur áherslu á að náttúruvernd og sjálfbær nýting náttúruauðlinda verði áfram meðal grundvallarsjónarmiða Íslendinga. Samningsmarkmið um þetta atriði þurfa að vera skýr og segir í nefndaráliti meiri hlutans að áhersla sé lögð á að Ísland geri fyllilega skýrt við samningaviðræður að ekki komi til greina að sáttmálar Evrópusambandsins mæli fyrir um eignarhald á auðlindum Íslands eða nýtingu þeirra umfram það sem umhverfisreglur á hverjum tíma mæla fyrir um. Mikilvægt er að forræði þjóðarinnar yfir auðlindum sem eru í efnahagslögsögu landsins verði ávallt að fullu tryggt.

Víst má telja að hvað erfiðast geti orðið að sækja réttindi Íslendinga í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum í aðildarviðræðum við Evrópusambandið en þeir málaflokkar varða íslenskt efnahags- og atvinnulíf og byggðaþróun miklu. Meiri hlutinn er á einu máli um að meginmarkmið hvað sjávarútveginn snertir í slíkum viðræðum lúti að forræði yfir sjávarauðlindinni með sjálfbæra nýtingu að leiðarljósi. Þannig verði Íslendingar að leggja áherslu á að halda forræði sínu í stjórn veiða og skiptingu aflaheimilda innan íslenskrar efnahagslögsögu byggðri á sjálfbærri þróun, ráðgjöf sérfræðinga og veiðireynslu og enn fremur að leita eftir eins víðtæku forsvari fyrir íslensk málefni í hagsmunagæslu í sjávarútvegi á alþjóðavettvangi og kostur er, m.a. að því er lýtur að stjórn veiða og deilistofna. Þá telur meiri hlutinn rétt að haldið verði í möguleika á því að takmarka fjárfestingar erlendra aðila í sjávarútvegi og því að Íslendingar hafi til frambúðar skýra aðkomu að mótun sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Að mati meiri hlutans má t.d. ná þessu fram með því að skilgreina lögsöguna sem sérstakt íslenskt fiskveiðistjórnarsvæði.

Varðandi landbúnaðarmálin telur meiri hluti nefndarinnar mikilvægast að leggja áherslu á hin fjölþættu hagsmunamál sem tengjast íslenskum landbúnaði og stöðu hans til frambúðar fyrir íslenskt samfélag. Landbúnaður snýr að matvæla- og fæðuöryggi þjóðarinnar en einnig því að íslenskt samfélag verði sem sjálfbærast um matvæli þar sem það er hluti af hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Meiri hlutinn telur líklegt að unnt verði að skilgreina allt landið sem svæði norðurslóðalandbúnaðar og harðbýlt svæði, sem gæti skapað grundvöll til að styrkja landbúnað hér á landi verulega, t.d. með framleiðslutengdum styrkjum frá Evrópusambandinu og/eða af hálfu íslenskra stjórnvalda. Þá leggur meiri hlutinn áherslu á að haldið verði fast við þá undanþágu sem nú hefur fengist samkvæmt EES-samningnum um viðskipti með lifandi dýr en hún er afar mikilvæg vegna landfræðilegrar einangrunar landsins og jafnframt þarf að tryggja íslenskum stjórnvöldum tæki til að þau geti gripið til nauðsynlegra ráðstafana til verndar íslenskum búfjárstofnum.

Byggðamál eru afar tengd landbúnaði innan Evrópusambandsins. Innan vébanda þess hefur verið dregið mjög úr beinum stuðningi í landbúnaði en stuðningur hefur þess í stað verið aukinn hvað varðar byggðaþróun, umhverfisverkefni og aðra nýsköpun í dreifbýli. Þessi stefnubreyting getur um margt fallið vel að frekari þróun íslenskrar byggðastefnu ef rétt er á spilum haldið. Meiri hlutinn leggur áherslu á að sveitarfélögin hafi ríka aðkomu að viðræðum um byggðamál enda verða hagsmunir sveitarfélaga og byggða ekki aðgreindir, eins og segir í nefndaráliti meiri hlutans.

Nefndin ræddi talsvert atriði sem lúta að almannaþjónustu enda telur meiri hlutinn það vera grundvallaratriði að Ísland haldi ákvörðunarvaldi sínu um skipulag og fjármagn almannaþjónustu. Sérstaka áherslu ber að leggja á félagslega velferð og réttindi launþega, almannaþjónustu og rétt stjórnvalda til að skipuleggja og veita þjónustu sem hefur almenna efnahagslega þýðingu. Þá telur meiri hlutinn afar mikilvægt að áhersla verði lögð á það í hugsanlegum aðildarviðræðum að félagslegum sjónarmiðum verði gert hátt undir höfði og tryggt verði að samræming reglna Evrópusambandsins komi ekki í veg fyrir að hið norræna félagslega fyrirkomulag verði hér áfram við lýði.

Ekki verður hjá því komist að víkja að gjaldeyrismálum en þau eru umfjöllunarefni sem mjög hefur brunnið á þjóðinni í kjölfar bankahrunsins og veikrar stöðu krónunnar. Verði af aðild mun Íslandi nánast örugglega gert að taka upp evruna en til þess að svo megi verða þarf aðildarríki að eiga aðild að Efnahags- og myntbandalagi Evrópu. Að auki þarf aðildarríki sem tekur upp evruna að uppfylla svokölluð Maastricht-skilyrði sem fela það í sér að halli á ríkissjóði má ekki vera meiri en 3% af landsframleiðslu og heildarskuldir hins opinbera mega ekki vera meiri en 60% af landsframleiðslu, verðbólga má ekki vera meiri en 1,5% hærri en meðaltal verðbólgu í þeim þremur löndum ESB þar sem hún er lægst og langtímavextir mega ekki vera meiri en 2% hærri en í þeim löndum ESB þar sem verðlag er stöðugast og viðkomandi ríki þarf að hafa verið í gengissamstarfi Evrópu, svokölluðu ERN2, í a.m.k. tvö ár án gengisfellingar og innan vikmarka sem nú eru 15%.

Hvað gjaldmiðilsmálin áhrærir er ljóst að þau skipta okkur verulegu máli við endurreisn íslensks efnahags- og atvinnulífs. Augljóst er að íslenska krónan verður okkar gjaldmiðill um næstu framtíð en margir telja brýnt að við skoðum alla möguleika sem kunna að bjóðast í því efni til lengri tíma litið. Það er álit meiri hlutans að komi til aðildarviðræðna við ESB beri að leggja kapp á að viðræður um gjaldmiðilsmál verði forgangsverkefni í viðræðuferlinu og í því eigi að leita eftir samkomulagi við sambandið og Evrópska seðlabankann um stuðning við krónuna en slíkur stuðningur gæti orðið mikilvægur liður í því að koma á stöðugleika í efnahagsmálum hér á landi.

Umræða um utanríkis- og öryggismál hefur farið vaxandi á vettvangi Evrópusambandsins og á það ekki síst við um hugmyndir um sameiginlegan her á vegum sambandsins. Um þetta atriði er fjallað allítarlega í nefndarálitinu og telur meiri hlutinn að draga megi þær ályktanir af þeim upplýsingum sem aflað var að samstarf ESB á sviði varnarmála sé enn nokkuð skammt á veg komið. Þá telur meiri hlutinn fátt benda til þess, miðað við afstöðu aðildarríkjanna, að það verði þróað í átt til þess sem t.d. er innan NATO. Meiri hlutinn ítrekar að hverju aðildarríki er í sjálfsvald sett innan síns ramma hvort og þá að hve miklu leyti það kýs að taka þátt í samstarfi ESB á sviði utanríkis- og öryggismála. Út frá fyrirliggjandi upplýsingum og þeim skýringum sem fylgja Lissabon-sáttmálanum telur meiri hlutinn tryggt að Ísland haldi skilyrðislausu forræði sínu yfir öryggis- og varnarmálum og Ísland verði áfram herlaust land. Sérstaða Íslands sem herlausrar og vopnlausrar þjóðar er augljós. Ísland mun undir engum kringumstæðum koma á innlendum her eða taka þátt í samstarfi herja. Af þeim sökum er einnig eðlilegt að Ísland standi utan Evrópsku varnarmálastofnunarinnar líkt og Írar hafa kosið að gera enda er þátttaka í henni valkvæð.

Nefndin ræddi einnig um fjölmarga aðra efnisþætti, svo sem sveitarstjórnarmál, umhverfismál, atvinnu- og iðnaðarmál, skatta- og tollamál svo og ýmis mál sem tengd eru EES-samningnum og þær undanþágur, aðlaganir og sérlausnir sem Ísland hefur náð fram í tengslum við hann. Of langt mál er að gera grein fyrir þeim atriðum hér þrátt fyrir að virðulegur forseti hafi nú tvöfaldað ræðutímann og vísast því til umfjöllunar í nefndarálit meiri hlutans um þau atriði.

Frú forseti. Ljóst er að við hugsanlega aðild að Evrópusambandinu framselur þjóðin hluta af fullveldi sínu til sambandsins. Þetta felur í sér að gera þarf breytingar á 21. gr. stjórnarskrárinnar. Í áliti meiri hlutans kemur fram að öll aðildarríki ESB njóta almennrar viðurkenningar sem sjálfstæð og fullvalda ríki á alþjóðavettvangi. Því er ekki um það að ræða að möguleg aðild Íslands að ESB feli í sér að landið hafi glatað stöðu sinni sem sjálfstætt og fullvalda ríki. Við nauðsynlegar stjórnarskrárbreytingar, komi til aðildar Íslands að Evrópusambandinu, telur meiri hlutinn rétt að leitað verði liðsinnis færustu sérfræðinga á sviði stjórnskipunarréttar við gerð ákvæðis um framsal valdheimilda. Að sama skapi telur meiri hlutinn nauðsynlegt að líta til þeirra fordæma sem finna má hjá nágrannaríkjum okkar og miða við þau grundvallarskilyrði að valdframsalið sé með þeim hætti að það sé takmarkað og afmarkað, eigi sér ávallt stoð í lögum og sé að auki alltaf afturkræft. Þá telur meiri hlutinn rétt að kveða á um að framsalið sé einungis leyfilegt í ákveðnum tilgangi og að því skilyrði uppfylltu að önnur ríki framselji vald sitt á sama hátt. Jafnframt telur meiri hlutinn nauðsynlegt að ríkið eigi sjálft aðild að þeirri stofnun sem vald er framselt til, stofnanir séu lýðræðislegar og byggist á grunnstoðum réttarríkisins. Síðast en ekki síst áréttar meiri hlutinn að tryggt verði að valdframsal verði einungis heimilt leiði það ekki til lakari réttarstöðu þegnanna en leiðir af stjórnarskrárbundnum réttindum þeirra.

Í störfum nefndarinnar kom töluvert til umræðu hvort halda skyldi tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu, þá fyrri um hvort farið skyldi í aðildarviðræður við Evrópusambandið og þá síðari um hvort samþykkja skyldi hugsanlegan aðildarsamning. Það er niðurstaða meiri hlutans að ekki skuli ráðast í slíka tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Í því sambandi bendir meiri hlutinn á að mikilvægt er að leiða til lykta þá umræðu sem farið hefur hátt í þjóðfélaginu undanfarin ár um hvort hagsmunum Íslands sé betur borgið innan eða utan vébanda Evrópusambandsins og hvað hugsanlegur aðildarsamningur fæli í sér.

Þar sem aðildarsamningur verður að lokum ávallt borinn undir þjóðina til samþykktar eða synjunar í þjóðaratkvæðagreiðslu telur meiri hlutinn ekki nauðsynlegt að efna fyrir fram til sérstakrar kosningar um afstöðu þjóðarinnar til aðildarviðræðna enda liggja fyrir skýrar vísbendingar um að meiri hluti þjóðarinnar sé þess sinnis að ráðast eigi í aðildarviðræður á þessu stigi burt séð frá afstöðunni til sjálfrar aðildarinnar.

Nefndin ræddi ítarlega þær leiðir sem koma til greina varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu um hugsanlegan aðildarsamning að Evrópusambandinu. Um þær vísast til álits meiri hluta nefndarinnar sem og minnisblaðs Bjargar Thorarensen lagaprófessors og Davíðs Þórs Björgvinssonar, dómara við Mannréttindadómstól Evrópu, sem birt er sem fylgiskjal með álitinu. Hins vegar vil ég í þessu sambandi árétta að ef þjóðaratkvæðagreiðsla á að vera bindandi að lögum þarf að breyta stjórnarskrá lýðveldisins áður en slík atkvæðagreiðsla getur farið fram. Þann hátt sem hafa þarf á við slíkt þekkir þingheimur, rjúfa þarf þing eftir að stjórnarskrárbreytingar eru samþykktar og boða til kosninga þannig að nýtt Alþingi geti tekið afstöðu til breytinganna. Fyrr öðlast þær ekki gildi. Með því að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu leiðbeinandi eða ráðgefandi lítur meiri hlutinn engu að síður svo á að um pólitískt bindandi kosningu væri að ræða. Nær óhugsandi er að ætla að lýðræðislega kjörnir fulltrúar þjóðarinnar mundu fara á svig við vilja hennar í svo veigamiklu máli sem hér um ræðir.

Flestar stjórnmálahreyfingar hafa ályktað um mikilvægi þess að niðurstöður úr hugsanlegum aðildarviðræðum við ESB yrðu bornar undir þjóðina í atkvæðagreiðslu að lokinni kynningu og umræðu. Má t.d. hafa til hliðsjónar fyrirkomulagið í Noregi en þar var aðildarsamningur lagður fyrir norska Stórþingið sem ræddi hann og ákvað síðan að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um sjö mánuðum síðar til að gefa hagsmunasamtökum góðan tíma til að kynna sjónarmið sín og almenningi kost á að kynna sér efni samningsins og móta sér afstöðu. Nefndin er sammála um að það sé mikilvægt og lýðræðislegt að niðurstaða sjálfra aðildarviðræðnanna verði borin undir þjóðina. Meiri hluti nefndarinnar álítur að niðurstaða þeirrar atkvæðagreiðslu ráði því hvort ráðist verður í þær breytingar á stjórnarskrá sem aðild að ESB mundi hafa í för með sér.

Í nefndaráliti fulltrúa Sjálfstæðisflokksins er á hinn bóginn lagt til að þjóðaratkvæðagreiðslan eigi þá fyrst að fara fram þegar Alþingi hefur samþykkt breytingar á stjórnarskrá, nýtt þing staðfest þær og hið nýja þing jafnframt staðfest aðildarsamning við ESB með lögum. Meiri hlutinn telur óviðunandi að þjóðin fái ekki tækifæri til að greiða atkvæði um hugsanlegan aðildarsamning í kjölfar þess að hann liggur fyrir. Með því að hefja þegar næstu skref í átt að aðild að ESB með stjórnarskrárbreytingum án þess að þjóðin hafi kosið um aðildarsamning væri vilji hennar virtur að vettugi.

Meiri hlutinn telur ekki skipta meginmáli í þessu sambandi hvort niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild sé lagalega bindandi eða leiðbeinandi enda hlýtur afstaða stjórnmálaflokkanna að vera skýr um að þeir bindi sig pólitískt til að hlíta vilja þjóðarinnar í þessum efnum. Það er skoðun meiri hlutans að þjóðin eigi að veita Alþingi leiðsögn á grundvelli efnisatriða aðildarsamnings í almennri þjóðaratkvæðagreiðslu. Synji þjóðin aðildarsamningi muni Alþingi ekki aðhafast frekar í málinu. Samþykki þjóðin aðildarsamning mun Alþingi ráðast í nauðsynlegar breytingar á stjórnarskránni og undirbúa þær með þingrofi og kosningum í samræmi við ákvæði stjórnarskrár.

Vitaskuld er ekkert því til fyrirstöðu, sé til þess meirihlutavilji á Alþingi, að í þeim breytingartillögum felist ákvæði um aukinn meiri hluta á Alþingi og/eða endanlegt samþykki þjóðarinnar á lögum sem fela í sér framsal ríkisvalds. Má í því efni benda á ákvæði í stjórnarskrám ýmissa ríkja sem kveða á um slíkt. Með þeim hætti væri komið til móts við sjónarmið þeirra sem telja mikilvægt að þjóðin staðfesti lög um aðild Íslands að ESB. Það er hins vegar sjálfstætt úrlausnarefni við þær stjórnarskrárbreytingar sem ráðist yrði í, samþykki þjóðin niðurstöður aðildarviðræðna.

Ég get sagt það við þessa umræðu eins og ég lét ítrekað koma fram á fundum utanríkismálanefndar að sjálfur er ég hlynntur því að stjórnarskráin hafi að geyma ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu til staðfestingar á lögum um framsal ríkisvalds.

Nefndin ræddi nokkuð um þjóðhagsleg áhrif hugsanlegrar aðildar að Evrópusambandinu, eins og fram kemur í nefndaráliti meiri hlutans, og óskaði sérstaklega eftir því við meðferð málsins að reynt yrði að leggja mat á þann kostnað sem hlytist af aðildarumsókn og eftirfarandi viðræðum við Evrópusambandið. Ljóst er að verulegur kostnaður verður því samfara enda kemur fram í minnisblaði utanríkisráðuneytisins til nefndarinnar að gera þurfi ráð fyrir að allt regluverk Evrópusambandsins verði þýtt á íslensku en við aðild yrði hún eitt af opinberum tungumálum þess. Þetta væri augljóslega mjög umfangsmikið verkefni og utanríkisráðuneytið gerir ráð fyrir að tæpar 600 millj. kr. þurfi til þess út árið 2012 og eru þýðingar raunar langþyngsti kostnaðarliðurinn. Brýnt er að leitað verði eftir því við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að þýðingarvinnan verði styrkt fjárhagslega úr sjóðum Evrópusambandsins vegna smæðar íslenska málsvæðisins.

Einnig mun þurfa töluverðan mannafla til að sinna verkefnum vegna aðildarviðræðnanna. Utanríkisráðuneytið áformar að færa fólk til í starfi meðan á því verkefni stendur og mæta þeim þætti að mestu með hagræðingu en eftir mun standa töluverður ferðakostnaður og ráðgjafarþjónusta. Reikna megi með u.þ.b. 300 millj. kr. í aukinn beinan kostnað. Þá er gert ráð fyrir að kostnaður annarra ráðuneyta verði árin 2010 og 2011 samtals í kringum 100 millj. kr.

Eins og fjármálaráðuneytið bendir á í minnisblaði sínu til nefndarinnar má búast við að kostnaður verði þeim mun meiri eftir því sem meiri þungi er lagður í viðræðurnar og því þurfi að afmarka betur umfang aðildarviðræðna og greina niður í áfanga og verkefni ef leggja ætti nákvæmara mat á kostnaðinn sem af þeim gætu leitt.

Meiri hluti utanríkismálanefndar áréttar að í ljósi efnahagsaðstæðna er mjög þýðingarmikið að halda þétt utan um allar áætlanir sem gerðar verða í tengslum við aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Jafnframt verður að gera ríka kröfu til stjórnvalda um að ráðist verði í alla þá hagræðingu og tilfærslu á mannafla sem mögulegt er auk þess sem verkefni sem með nokkru móti er unnt að slá á frest verði látin bíða um sinn og þeim fjármunum sem sparast þá frekar veitt í farveg aðildarviðræðnanna með það að markmiði að leita sem farsælastra lausna fyrir Ísland til frambúðar.

Þegar ferli viðræðnanna liggur fyrir er þýðingarmikið að öll ráðuneyti geri Alþingi grein fyrir áætluðum kostnaðarauka sínum enda mun hann koma til þinglegrar meðferðar í fjárlagafrumvarpi.

Frú forseti. Innan flestra stjórnmálasamtaka eru, líkt og í samfélaginu öllu, skiptar skoðanir um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Ráða þarf bæði efnisleg og tilfinningaleg rök sem rista djúpt. Okkur ber öllum að bera virðingu fyrir skoðunum hvers annars og leitast við að halda umræðunni um þetta mjög svo umdeilda mál yfirvegaðri og málefnalegri. Við þurfum að finna því lýðræðislegan farveg þannig að það verði til lykta leitt af þjóðinni sjálfri því aðeins þannig getur þjóðin orðið sátt við hlutskipti sitt að því er varðar tengslin við Evrópusambandið.

Í gegnum söguna hafa ríkisstjórnir og Alþingi tekið afdrifaríkar ákvarðanir um þátttöku Íslands í fjölþjóðlegum samtökum eða um aðrar skuldbindingar á sviði utanríkismála sem klofið hafa þjóðina í fylkingar, ekki síst vegna þess að hún var ekki spurð. Sem betur fer er það nú almenn skoðun að aðild Íslands að ESB verði aldrei leidd til lykta nema í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvenær slík atkvæðagreiðsla getur farið fram og á hvaða stigi er hins vegar umdeilt eins og ég hef þegar rakið. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna er kveðið á um að lögð skuli fram tillaga til þingsályktunar um aðildarviðræður við ESB en að niðurstöður þeirra skuli lagðar fyrir þjóðina. Jafnframt kemur þar fram að stjórnarflokkarnir virði ólíkar áherslur hvors um sig gagnvart aðild að ESB og rétt þeirra til málflutnings og baráttu úti í samfélaginu í samræmi við afstöðu sína og fyrirvara um samningsniðurstöðuna.

Það á einnig við um þá sem standa að áliti meiri hluta utanríkismálanefndar, fulltrúa Samfylkingarinnar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Borgarahreyfingarinnar. Afstaða þeirra til aðildar Íslands að Evrópusambandinu er ólík en þeir eru sammála um að ákvörðun um aðild Íslands að sambandinu verði í höndum íslensku þjóðarinnar sem muni greiða atkvæði um samning í þjóðaratkvæðagreiðslu að loknum aðildarviðræðum. Minn flokkur, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, hefur mótað þá stefnu að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins. Jafnframt hefur flokkurinn ályktað um mikilvægi þess að fram fari opin og lýðræðisleg umræða um kosti og galla Evrópusambandsaðildar og að aðild Íslands að ESB eigi að leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það er ekkert launungarmál að innan raða Vinstri grænna eru skiptar skoðanir um málsmeðferð í þessu máli enda þótt breið samstaða sé um sjálfa afstöðuna til Evrópusambandsaðildar. Aðrir þingmenn flokksins munu gera grein fyrir afstöðu sinni síðar í þessum umræðum. Ljóst er að þeir sem telja að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan ESB en vilja jafnframt ljá tillögu um að ganga til aðildarviðræðna stuðning sinn gera það til að hægt sé að kalla fram lýðræðislega og upplýsta afstöðu þjóðarinnar til hugsanlegrar aðildar og þeirra skilmála sem aðild Íslands yrði háð. Með aðildarviðræðum skýrist á ítarlegan hátt hvaða samningsgrundvelli Ísland getur náð svo að þjóðin geti tekið ákvörðun um þetta stóra álitamál samtímans með allar forsendur þess ljósar.

Samhliða umræðum um niðurstöður aðildarviðræðna, verði í þær farið, þarf þjóðin að ræða mikilvæg grundvallaratriði að því er Evrópusambandið varðar. Þar takast ekki síst á grundvallarspurningar um eðli sambandsins, um þá hugsjón sem margir eiga sér um að Ísland sem Evrópuþjóð eigi að leggja sitt af mörkum við uppbyggingu lýðræðislegrar Evrópu með hugsjónina um félagslegt réttlæti, jafnrétti og virðingu fyrir manngildi og umhverfi að leiðarljósi. Á hinn vænginn með hugsjónina um ævarandi og óskert fullveldi Íslands sem við Íslendingar börðumst svo lengi fyrir og andstaðan við að til verði eitt stórríki, sambandsríki Evrópu, sem þjóni innri hagsmunum og viðmiðum sem þar eru ríkjandi og byggja á mikilli miðstýringu og litlu þátttökulýðræði. Þessa grundvallarþætti þarf þjóðin líka að meta og takast á um ekkert síður en afmörkuð atriði í einstökum málaflokkum aðildarsamnings.

Vinnan í utanríkismálanefnd í þessu afdrifaríka máli hefur verið afar umfangsmikil og upplýsandi. Allir nefndarmenn hafa lagt mikið af mörkum og eiga hlutdeild í þeim afrakstri sem felst í nefndaráliti meiri hlutans og á það jafnt við um þá sem undir álitið skrifa og hina sem skila sérstöku áliti. Má með sanni segja að sú nýja utanríkismálanefnd sem tók til starfa í kjölfar alþingiskosninganna í apríl sl. hafi ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur í fyrstu verkefnum sínum á þessu kjörtímabili. Ég þakka samnefndarmönnum mínum í utanríkismálanefnd, hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, varaformanni nefndarinnar, Birgittu Jónsdóttur, Bjarna Benediktssyni, Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, Helga Hjörvar, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir afar gott samstarf í þessu stóra og veigamikla máli og liðsinni við mig sem formann.

Nefndin hélt 19 fundi á sex vikum og tók á móti hátt í 80 gestum auk þess sem nefndarmenn kynntu sér 57 umsagnir og athugasemdir um málið. Þótt hart hafi verið tekist á á stundum fór vinnan farsællega fram og er nú komin á leiðarenda í þessum áfanga þótt vissulega sé nóg eftir enn, nái tillagan fram að ganga hér á Alþingi. Umræður í nefndinni voru málefnalegar, hreinskiptnar og uppörvandi og þrátt fyrir að ekki hafi náðst einhugur að lokum um eitt nefndarálit bar engan skugga á samstarf og skoðanaskipti nefndarmanna.

Ég vil jafnframt þakka starfsmönnum utanríkisráðuneytis og annarra ráðuneyta fyrir góða samvinnu og aðstoð við vinnslu málsins. Það er á engan hallað þótt hér sé sérstaklega nefndur Högni S. Kristjánsson, skrifstofustjóri á skrifstofu Evrópumála í utanríkisráðuneytinu, en hann sat drjúgan hluta funda nefndarinnar og var óþreytandi við að afla nefndarmönnum upplýsinga og gagna og kom með fjölmargar gagnlegar ábendingar. Þá þakka ég jafnframt nefndarriturunum Sigrúnu Brynju Einarsdóttur, Þresti Frey Gylfasyni og Hildi Evu Sigurðardóttur ásamt öðru starfsliði nefndasviðs Alþingis sem unnið hefur að málinu með nefndinni. Án ómetanlegs framlags allra þessara værum við ekki með í höndunum þann afrakstur sem nefndarálitið ber með sér.

Í ljósi alls þess sem ég hef nú rakið í ræðu minni er það niðurstaða meiri hluta utanríkismálanefndar að leggja til að tillaga utanríkisráðherra verði samþykkt með þeirri breytingu sem ég hef áður gert grein fyrir, að við undirbúning og skipulag aðildarviðræðna við Evrópusambandið skuli ríkisstjórnin fylgja þeim sjónarmiðum um verklag og meginhagsmuni sem koma fram í nefndaráliti meiri hlutans.

Undir nefndarálit meiri hlutans rita, auk þess sem hér stendur, Valgerður Bjarnadóttir, Helgi Hjörvar, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, með fyrirvara, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Birgitta Jónsdóttir, með fyrirvara.

Frú forseti. Eins og fram kom við upphaf umræðunnar eru hér rædd sameiginlega tvö mál, þingsályktunartillaga utanríkisráðherra, mál nr. 38, og þingsályktunartillaga þingmanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, mál nr. 54. Við afgreiðslu málsins úr nefndinni varð að samkomulagi að bæði málin yrðu tekin út og rædd sameiginlega. Nefndarálit meiri hlutans á þskj. 249 fjallar um mál 38 en eins og skýrt kemur fram í álitinu á það í raun einnig við um mál 54 en þar eð tillagan í því máli kemur til sjálfstæðrar afgreiðslu leggur meiri hluti utanríkismálanefndar fram tillögu um afgreiðslu þess máls á sérstöku nefndaráliti á þskj. 250.

Meiri hlutinn lítur svo á að við umræður og meðferð nefndarinnar á 38. og 54. máli hafi verið fylgt þeirri leiðsögn sem gert er ráð fyrir í tillögu þingflokka Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í 54. máli og vísað í því efni til nefndarálitsins á þskj. 249. Meiri hlutinn telur að það álit sé í raun orðið að þeim vegvísi sem tillaga þingflokka Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks gengur út frá að búin verði til fyrir aðildarviðræður. Auk þess er í breytingartillögum meiri hlutans við 38. mál hnykkt á því að við viðræður skuli fylgja þeim sjónarmiðum um verklag og meginhagsmuni sem fram koma í nefndaráliti meiri hlutans.

Því telur meiri hlutinn ekki tilefni til að álykta um tillöguna í 54. máli og leggur til að það verði afgreitt með svofelldri rökstuddri dagskrá, með leyfi forseta:

„Þar sem færð hafa verið fyrir því gild rök að umfjöllun um málið hafi farið fram samhliða umfjöllun um 38. mál, sbr. þingskjal 249, og komið til móts við þau sjónarmið sem þar koma fram samþykkir Alþingi að tekið verði fyrir næsta mál á dagskrá.“

Undir þetta nefndarálit rita, auk þess sem hér stendur, hv. þingmenn Valgerður Bjarnadóttir, Álfheiður Ingadóttir, Helgi Hjörvar, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Birgitta Jónsdóttir, með fyrirvara.

Frú forseti. Ég hef nú lokið að gera grein fyrir nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar, vinnunni í nefndinni, þeim meginsjónarmiðum sem meiri hluti nefndarinnar leggur til að hafðir verði að leiðarljósi samþykki Alþingi að ráðast í viðræður við Evrópusambandið og um málsmeðferð alla. Ég ítreka þakkir mínar til allra sem lagt hafa hönd á plóg við þetta mikilvæga mál. Ég vonast til þess að umræður um það á Alþingi verði málefnalegar og yfirvegaðar og að okkur takist að skiptast á skoðunum um bæði málin sem hér eru til umfjöllunar og þau verði síðan leidd farsællega til lykta í atkvæðagreiðslu.