137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[13:32]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni að ég mun líka styðja þessa tillögugrein eins og búið er að breyta henni. Ég tel að samningsumboðið sem meiri hlutinn gerir ráð fyrir sé skýrt. Það er eðlilegt og það fullnægir mjög vel þeim meginhagsmunum og sjónarmiðum sem Íslendingar þurfa að leggja áherslu á í aðildarviðræðunum.

Ég tel líka að eins og málið er núna orðið þá fullnægi það þeim óskum sem framsóknarmenn settu fram með tillögugerð á fyrri stigum og líka ályktun flokksþings okkar. Ég er því mjög sátt við þá stefnu sem þetta mál er að taka. En ég vil spyrja hv. þingmann hvernig hann sjái fyrir sér ferlið í þinginu ef þannig vildi til að ríkisstjórnin ætlaði sér eða samninganefndin að fara eitthvað út af sporinu. Hvernig yrði það ferli hér innan dyra? Maður á kannski ekki von á að það verði (Forseti hringir.) af því að það er búið að koma til móts við svo mörg af þeim sjónarmiðum sem hér hafa verið til umræðu. En hvernig yrði það ferli?