137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[13:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Heimurinn hættir ekki að þróast burt séð frá því hvort við erum að tala um Evrópusambandið eða ekki. Ísland hættir ekki að þróast hvort sem það fer inn í Evrópusambandið eða stendur utan þess. Það er allt breytingum undirorpið í þessu efni. Við getum ekki séð framtíðina alla fyrir. Það er oft sagt að það sé erfitt að spá um hana þannig að við getum ekki séð það nákvæmlega fyrir. Þær ákvarðanir sem við tökum í dag tökum við að sjálfsögðu út frá þeirri stöðu sem við erum í og þeirri þekkingu sem við höfum um okkar nánustu framtíð. En við getum ekki séð fyrir alla hluti til langrar framtíðar.

Hv. þingmaður sagði að spurningin hefði verið einföld. Það er oft þannig að við einföldum spurningum eru bara til flókin svör. Ég vísaði hér til samþykkta landsfundar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og ég gat um það í minni framsöguræðu hvað segði þar, að það væri stefna flokksins að hagsmunum Íslands væri best borgið utan Evrópusambandsins en að við vildum að um þetta mál færi fram lýðræðisleg opin umræða og að við vildum að málið yrði leitt til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu (Forseti hringir.) og við teljum (Gripið fram í.) að með þessari málsmeðferð sé verið að koma til móts (Forseti hringir.) við þessi viðhorf.