137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[13:39]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég stíg hér upp fyrst og fremst til að þakka hv. þingmanni fyrir góða stjórn á störfum utanríkismálanefndar vegna þessa stóra máls. Ég tel reyndar að málið hafi verið unnið í allt of mikilli tímaþröng og undir of miklum þrýstingi. Auðveldast er að benda á að við skulum vera hér í miðjum júlímánuði að taka það til umfjöllunar. Það hefur líka gefist allt of lítill tími til að fara ofan í hagsmunamatið sem fylgir nefndarálitinu frá meiri hlutanum.

Mig langar aðeins að gera að umtalsefni örstutt þetta með skilyrta umboðið. Í reynd skil ég álit meiri hlutans þannig að það sé engin ástæða og ekki rétt að setja samninganefndinni neitt umboð en síðan er engu að síður sett mjög strangt skilyrði, þ.e. allir þeir hagsmunir sem ræddir eru í nefndarálitinu séu þess eðlis að frá þeim megi ekki víkja (Forseti hringir.) án þess að fyrst hafi farið fram umræða hér á þinginu. Er það sem sagt ætlunin að viðræðurnar við Evrópusambandið verði (Forseti hringir.) meira eða minna hér í þingsal?