137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[13:44]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er komin til umfjöllunar tillaga til þingsályktunar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu eftir umfjöllun utanríkismálanefndar þar sem ég hef setið. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá 1. minni hluta utanríkismálanefndar en undir nefndarálitið rita sá sem hér stendur og hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir. Ég ætla að byrja á því að fara yfir helstu atriði nefndarálitsins.

Það mál sem hér er til umfjöllunar hefur, eins og fram hefur komið í umræðunni í dag, verið fellt saman að stærstum hluta til við þingmál nr. 54 sem þingflokkar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tefldu fram þegar að þetta þingmál var lagt fram á þinginu. Ég held að það hljóti að vera óumdeilt að það sem gerðist síðan í kjölfarið sýnir hversu vanbúið það mál var í raun að koma með þingmál inn í þingsal án þess að því fylgdu fullnægjandi skýringar eða einhvers konar leiðbeining frá þinginu um á hvaða forsendum gengið yrði til viðræðna. Þvert á móti var ekki annað ráðið af þingmálinu eins og það var borið upp á þinginu en að þegar hefði verið tekin ákvörðun um aðildarviðræður á grundvelli þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað í þjóðfélaginu. Krafan væri um að fá fram samning sem greiða ætti atkvæði um, málið væri fullrætt. Vísað var í skýrslur sem gerðar hafa verið á undanförnum árum og að öðru leyti væri einfaldlega rétt, þrátt fyrir þann ágreining sem var í ríkisstjórninni, að leyfa þinginu að taka þessa ákvörðun og það væri lýðræðislegt og skynsamlegt ferli. Það sem gerst hefur í millitíðinni er, eins og hv. formaður utanríkismálanefndar hefur komið inn á og liggur fyrir í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar, að þessum leiðbeiningum hefur verið fylgt í öllum meginatriðum. Í greinargerð í máli 54 segir að sá vegvísir sem nauðsynlegur er fyrir aðildarviðræður skuli fjalla um alla þá þætti sem taka þarf tillit til í tengslum við aðildarumsókn, svo sem aðkomu þjóðarinnar að aðildarumsókninni, en þá er átt við hvort efnt skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort hefja skuli viðræður, og ekki síður með hvaða hætti staðfesta skuli aðildarsamninginn. Þetta tvennt var algerlega óhugsað þegar þingmálið sjálft kom fram og var ekkert um það fjallað þar. Því var ekki fylgt eftir með nokkrum hætti, enda stjórnarflokkarnir tveir ósammála um jafnmikil grundvallaratriði eins og þessi.

Í öðru lagi er fjallað um hvernig skipa skuli viðræðum Íslands við Evrópusambandið og eru því gerð góð skil í nefndaráliti meiri hlutans. Við höfum leitað upplýsinga hjá öðrum þjóðum, skoðað hvernig þær hafa borið sig að og um það hefur verið ágætissátt í nefndinni.

Í þriðja lagi er fjallað um með hvaða hætti eftirliti Alþingis og upplýsingagjöf til þess skuli háttað á meðan mögulegar aðildarviðræður standa. Það var það sem við hv. formaður nefndarinnar ræddum aðeins um áðan. Sé þetta skilningurinn hjá meiri hlutanum sem fram kom í framsögu hv. formanns nefndarinnar tel ég að verið sé að veita afar þröngt umboð til viðræðna þar sem þingið getur á hverjum tíma stigið fram og sagt: Hér erum við komin út fyrir það sem við teljum skynsamlegt og getum í raun stöðvað viðræðuferlið. Ég hef sjálfur haft þá sannfæringu að það sem þyrfti nauðsynlega að vera til staðar til að hefja aðildarviðræður væri í fyrsta lagi breið pólitísk samstaða um að menn vildu fara í viðræðuferlið og, eftir atvikum og kannski ekki síður, að menn felli sig við Evrópusambandið eins og það birtist þeim.

Eftir kosningarnar í vor var það ljóst að ekki hefðu valist til forustu fyrir þjóðina flokkar sem eru sammála um þetta mál og þar með var auðvitað afar erfitt að segja að kjósendur hefðu með einhverjum hætti lýst vilja sínum í málinu. Á sama tíma var afar erfitt að halda því fram að það væri einhver breið pólitísk samstaða um að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Þetta leystu stjórnarflokkarnir með þeim hætti að ýta málinu inn í þingið. Þegar vinnu utanríkismálanefndar lauk síðan endurspeglaðist klofningurinn eða hin ólíka sýn á málið þegar þingmenn stjórnarflokkanna tveggja komu saman að nefndaráliti og tóku til umfjöllunar þau atriði sem eru grundvallarforsenda þess að flokkarnir tveir hafa ólíka skoðun í málinu, þá stigu þeir til baka og ýttu þeim ágreiningsefnum og álitaefnum inn í framtíðina. Það er engin afstaða tekin um það í nefndarálitinu sjálfu hvaða grundvallarnálgun er hjá þeim sem standa að álitinu til þeirra álitaefna sem svo víða eru rædd í nefndarálitinu sjálfu. Við getum sem dæmi tekið sjávarútvegsmálin þar sem ekki er flókið mál að lýsa öllu því sem við Íslendingar viljum helst standa vörð um í tengslum við sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, hvernig hún á illa við íslenskar aðstæður. En það er hins vegar flóknara mál þegar leggja á þá hagsmuni á vogarskálarnar og vega á móti kostum þess að ganga í Evrópusambandið og svara síðan þeirri spurningu: Hvernig kemur sú mæling út? Sú mæling hefur verið grundvöllur fyrir stefnu Sjálfstæðisflokksins fram á þennan dag og það er í slíku hagsmunamati sem kjarni vinnunnar á þinginu hlýtur að eiga að liggja. En það kjósa menn ekki að gera í áliti meiri hlutans heldur einungis að vekja athygli á öllum álitaefnunum og ýta síðan skipinu úr vör.

Fleiri atriði eru tiltekin í þingmáli nr. 54 eins og t.d. hvernig staðið skuli að opinberum stuðningi við kynningu á niðurstöðum viðræðna og hvaða stjórnarskrárbreytingar eru nauðsynlegar. Ég ætla að koma aðeins inn á það á eftir og ekki síst um áætlaðan kostnað sem alltaf er spurt um í tengslum við þetta mál. Það er kannski ekki skrýtið við þær aðstæður sem uppi eru í þjóðfélaginu að menn séu mjög meðvitaðir um allan kostnað sem lagt er út. Eins og segir í nefndaráliti 1. minni hluta er það alveg óumdeilt að öll þau atriði sem vakin var athygli á í máli nr. 54 hafa fengið þó nokkra umræðu hjá nefndinni. Það var góð samstaða og formaður nefndarinnar stýrði, eins og ég vék að í stuttri ræðu minni áðan, nefndinni af mikilli yfirvegun. Honum tókst að koma miklu í verk á tiltölulega skömmum tíma og flutti áðan góða framsöguræðu sem gott jafnvægi var í. Ég tek undir með honum þegar hann kallar eftir því að við reynum að efna til málefnalegrar umræðu um þetta mál í þingsal í dag.

Þrátt fyrir að við höfum sameinast um að taka öll þessi stóru mál til umfjöllunar, hvernig við eigum að fást við spurninguna um aðildarumsókn, verður að segjast eins og er að það standa alltaf nibbur upp úr þeim vegi, þ.e. ákveðin mál. Þegar vinnunni er lokið og það þarf að fara draga saman niðurstöðurnar fara línurnar í ólíkum áherslum milli flokkanna að skerpast. Það er kannski fyrst og fremst tvennt sem ég ætla að nefna og rakið er í nefndaráliti 1. minni hluta sem við höfum gert athugasemdir við. Mál nr. 54 fjallar fyrst og fremst um formsatriði, um það hvernig menn ætla að bera sig að áður en þessi ákvörðun verður tekin. Þess vegna eru þetta atriði sem varða formið í grunninn og ég skal koma aðeins á eftir nánar að kjarna málsins. Þrátt fyrir að þessi tvö atriði séu á sinn hátt formsatriði tel ég það lýsandi fyrir þann gríðarlega mikla ágreining sem er um þetta mál að jafnvel tekst ekki sátt um formsatriðin, um það hvernig við eigum að bera okkur að. Það hljóta þess vegna að vera gríðarleg vonbrigði fyrir ríkisstjórnina sem hrindir þessu máli af stað inn í þingið í þeirri von að efla lýðræðislega umræðu og skapa lýðræðislegan grundvöll fyrir þessa erfiðu ákvörðun sem hún telur að við þurfum að taka afstöðu til, að ekki skuli einu sinni vera sátt um formið.

Hér er í fyrsta lagi um að ræða þá tillögu að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort farið verði í aðildarviðræður. Það er rétt að byrja á að segja frá því að það var niðurstaða landsfundar Sjálfstæðisflokksins sem haldinn var í vor, þ.e. að ef ríkisstjórnin eða þingið hygðist hreyfa því að farið yrði í aðildarviðræður við Evrópusambandið væri rétt að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu. Grunnurinn að þessari tillögu liggur í því að Evrópusambandsmálin eru þannig í eðli sínu að þau ganga þvert á flokka. Þau ganga þvert á þjóðfélagshópa en ég held að við höfum líka tekið eftir því að Evrópumálin kljúfa dálítið landsbyggðina frá höfuðborgarsvæðinu og um það erum við a.m.k. sammála, þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem á fulltrúa í öllum kjördæmum landsins, að mikill áherslumunur er í þessu máli á milli kjördæma í landinu. Og ég tel að þegar við ræðum Evrópumálin þurfum við að taka tillit til þessara ólíku sjónarmiða.

Ég vék stuttlega að því áðan að málið hefði verið lagt fram í pólitískum ágreiningi á milli stjórnarflokkanna, að ekki væri með nokkru móti hægt að færa fyrir því sannfærandi rök að í kosningunum í vor hefði verið tekin ákvörðun um að sækja um aðild. Að minnsta kosti völdust ekki til ríkisstjórnarsetu flokkar sem voru sammála í málinu. En það er sá grundvöllur sem ég tel almennt vera heppilegastan. Það væri skýrt umboð, tveir flokkar sem hefðu skýra stefnu um að vilja fara inn í Evrópusambandið með einhverjum minni háttar fyrirvörum. Slíkir flokkar sem veljast til forustu fyrir landið hefðu að mínu áliti fengið umboð til að leggja fram umsókn. Þeir hefðu enga sérstaka ástæðu til að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu áður en lagt yrði af stað. Ég tel reyndar að þrátt fyrir að slíkir flokkar stæðu ekki að aðildarumsókninni væri ekki hægt að útiloka að flokkarnir á þinginu gætu sameinast um málið. Sú hugmynd er ekki út í bláinn en eins og staðið er að henni, eins og efnt er til hennar, eins og umræðan hefur verið um hana, eins og stífnin birtist hjá þeim sem vilja ganga í ESB er augljóst að það er enginn vilji í reynd til að leita málamiðlunar, leita einhverra sátta. Þessi niðurstaða leiðir til þess að það er bara ein skynsamleg leið til að taka næsta stóra skref og hún er sú að vísa málinu áfram til þjóðarinnar um hvort sækja beri um. Ég ætla ekki að fara að tína til öll rökin sem liggja því að baki en eitt er augljóst: Þeim mun skýrari sem þingviljinn er, þeim mun skýrara er umboðið sem viðræðunefndin fær, þeim mun betur líður viðsemjendum okkar gagnvart því að verja tíma og fjármunum í að efna til viðræðna við Íslendinga og yfir höfuð að hefja þær.

Það er ekki hægt að láta hjá líða að gera að umtalsefni hugmyndina um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu í þessu efni. Hún lýtur reyndar að hinu síðara, atriði sem ágreiningur er um við meiri hluta nefndarinnar, þ.e. með hvaða hætti eigi að staðfesta viðræðuferlið, staðfesta þann samning sem fæst eftir viðræður. En hugmyndin er sem sagt sú að enginn ætlar að taka pólitíska ábyrgð á því að hefja viðræður og síðan ætlar enginn að taka pólitíska ábyrgð á að staðfesta þann samning heldur. Það er engin ríkisstjórn sem ætlar að hrinda þessu af stað heldur á að splundra þingflokkunum og láta reyna á nauman meiri hluta í þinginu til að koma ferlinu af stað. Síðan á að klára samninginn og þegar hann er fenginn ætlar ríkisstjórnin ekki að efna til þess sem stjórnarskráin segir að sé nauðsynlegt að gera, þ.e. að breyta stjórnarskránni, efna til kosninga, staðfesta breytingar á stjórnarskránni og skrifa undir samninginn. Nei, ríkisstjórnin ætlar ekki að gera það og meiri hluti utanríkismálanefndar tekur undir að það væri verið að fara á svig við þjóðarvilja með því að efna þá ekki til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Eru menn sem sagt í einhverjum vafa um þjóðarviljann varðandi þetta mál í heild sinni? Menn treysta sér til að leggja það til á þinginu og ríkisstjórnin treystir sér til að leggja til að sækja um aðild og fara í gegnum allt ferlið. En menn áskilja sér annars vegar rétt í þingsályktunartillögunni sjálfri til að leggjast gegn samningnum þegar hann liggur fyrir, eins og það var orðað í þingsályktunartillögunni sem er alveg ótrúleg setning, að menn ætli að ganga viðræðuferlið á enda og leggjast síðan gegn samningnum. Og án þess að taka pólitíska ábyrgð á málinu og ganga þá leið sem stjórnarskráin býður, án þess vísa málinu þá til þjóðarinnar. Það er eins og þetta ferli eigi nánast að vera leitt til lykta án þess að neinn ætli að bera á því pólitíska ábyrgð. Það er eins og allir vilji stíga til baka. Hvorki í byrjun né á endanum ætlar neinn að bera á því pólitíska ábyrgð. Ég tel einfaldlega að þetta tvennt verði að fara saman og ég tel reyndar að það verði aldrei stuðningur meðal þjóðarinnar við málið fyrr en fengist hefur breiður pólitískur stuðningur við málið. Það er líka einhver mesti lærdómur sem við getum dregið af meðferð sambærilegra mála í öðrum löndum.

Sumir hafa gengið svo langt að segja að það þurfi að vera breiður pólitískur stuðningur og ekki síður breiður almennur stuðningur meðal þjóðarinnar í a.m.k. tvö ár til að það sé skynsamlegt að leggja fram umsókn og ganga inn í þetta ferli. Þeir sem ákafastir eru í að leggja fram umsókn hefðu að mínu áliti átt að huga betur að nauðsynlegum forsendum þess að hér geti skapast sátt, að hér geti yfir höfuð náðst breið samstaða en það finnst mér ekki gert með þessu. Þetta eru formsatriðin en ekki einu sinni um þau hefur tekist sátt.

Mig langar til að víkja að einu í þessu sambandi. Á vorþinginu ræddum við um breytingar á stjórnarskránni. Þá stóð til að breyta 79. gr. stjórnarskrárinnar með þeim hætti að hægt væri að breyta stjórnarskránni og senda þær breytingar beint í þjóðaratkvæðagreiðslu án þess að rjúfa þing. Þeir sem mæltu mest fyrir þeirri leið og gengu hvað harðast fram á þinginu ræddu á sama tíma um Evrópusambandið. Þeir sögðu að í tillögum að breytingu á stjórnarskránni væri vissulega ekki rætt um heimild til að ganga í Evrópusambandið en það skipti engu máli vegna þess að 79. gr. tryggði að á yfirstandandi kjörtímabili væri hægt að koma slíku ákvæði inn og senda það til þjóðarinnar til staðfestingar. Með öðrum orðum væri hægt að ljúka viðræðuferlinu við Evrópusambandið og fá endanlega staðfestingu þjóðarinnar á líðandi kjörtímabili án þess að boða til kosninga. En núna þegar menn horfa framan í nýjan veruleika, annan veruleika en menn sáu fyrir sér þá, vegna þess að þessar hugmyndir náðu ekki fram að ganga, hefur það gerst að hugmyndir um að láta þjóðina eiga síðasta orðið hafa verið lagðar til hliðar.

Að mínu áliti er ein leið til að láta þjóðina eiga síðasta orðið, þ.e. að láta þingið taka ferlið alla leið til enda, láta þingið staðfesta samninginn. Séu menn eitthvað hræddir við það eru þeir í reynd að segja að þeir óttist að ekki sé sá meiri hluti, ekki sá pólitíski stuðningur við málið á þinginu sem nauðsynlegur er til að ljúka málinu. Hversu skynsamlegt eða hversu raunhæft er það þá yfir höfuð að láta sér detta í hug að þjóðin sé á allt annarri skoðun en þingið? Um það er nokkuð rætt í nefndaráliti meiri hlutans í nefndinni og ég verð að segja að mér finnst þar skautað í kringum nokkur grundvallaratriði. Til dæmis verð ég að lýsa mig fullkomlega ósammála því að verið væri að fara á svig eða að neita því að taka tillit til þjóðarviljans með því að halda ekki ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þessum tveimur grundvallaratriðum er fylgt eftir í áliti 1. minni hluta með breytingartillögu sem er sett fram í tveimur liðum. Sá fyrri gerir ráð fyrir því að aðildarviðræðunum verði ekki hrint af stað án þess að fyrst hafi farið fram þjóðaratkvæðagreiðsla og sett eru tímamörk í tillögunni um að þjóðaratkvæðagreiðslan geti farið fram innan þriggja mánaða. Þetta er þingsályktunartillaga. Telji menn það of stuttan tíma verður að bregðast við því. En tillagan um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu eins fljótt og verða má og eigi síðar en innan þriggja mánaða er sett fram til að undirstrika að hugmyndinni er ekki teflt fram til að leika einhverja tafarleiki í þessu máli. Ég verð að lýsa undrun minni á því að menn telji það úrslitaatriði fyrir okkur Íslendinga að koma inn umsóknum um aðild að Evrópusambandinu á meðan ein ákveðin þjóð er í forustu fyrir sambandinu, í þessu tilviki Svíar. Ég efast reyndar ekki um að þeir séu tilbúnir til að standa við þær yfirlýsingar sem þeir hafa gefið um að greiða götu okkar eins mikið og þarf, taka tillit til sjónarmiða okkar og ráða okkur heilt varðandi gang viðræðnanna, hversu hratt á að fara.

Í þessu sambandi er ómögulegt annað en að vekja athygli á tímasetningu þessarar þingsályktunartillögu þar sem við erum einmitt um þessar mundir að ræða kröfu hollenskra og breskra stjórnvalda á hendur íslenska ríkinu vegna Icesave-innlánsreikninga Landsbankans í þessum tveimur löndum. Eins og öllum má vera ljóst ríkir mikil óvissa um afdrif þess máls innan þingsins.

Í nefndaráliti minni hlutans er komið inn á þetta og einfaldlega spurt: Er það trúverðugt að umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu verði sett í einhvern friðsamlegan og vinsamlegan farveg á sama tíma og þessi deila stendur sem hæst, á meðan á sama tíma liggur fyrir að fullkomin óvissa ríkir um með hvaða hætti því máli lýkur? Hafa þarf í huga í því samhengi að við vitum að Evrópuþjóðirnar allar stóðu gegn sjónarmiðum Íslands þegar við áttum í viðræðum við þessi tvö ríki og fulltrúa Evrópusambandsins í haust. Þá sameinuðumst allar þessar þjóðir gegn þeim sjónarmiðum sem við höfðum fram að færa. Hvaða vísbendingar hafa komið fram um að eitthvað annað verði uppi á teningnum þegar umsóknir um Evrópusambandið kemur fram og málið er enn þá óafgreitt frá Alþingi? Reyndar finnst mér með hliðsjón af þeirri niðurstöðu sem þar liggur fyrir full ástæða til að spyrja hvort sömu ríkisstjórn og kemur með þá samninga sem fær harkalega gagnrýni frá nær öllum umsagnaraðilum á þinginu sé treystandi til að fara með jafnviðkvæma hagsmuni og hér um ræðir.

Það er ástæða til að koma aðeins inn á þá meginþætti sem raktir eru í áliti meiri hlutans og varða hagsmuni okkar Íslendinga á hinum ólíku sviðum. Ég vék stuttlega að því áðan að það er ekki erfitt að stilla því upp og kalla til ráðgjafar og ráðagerða flesta hagsmunaaðila á Íslandi og inna þá eftir því hvað þeir telji að hafa beri í huga í viðræðum við Evrópusambandið, hvernig hagsmunir þeirra skarist við stefnu Evrópusambandsins í einstökum málum. Það hefur verið gert og þeir hagsmunir eru teknir til umfjöllunar í áliti meiri hlutans. Það er allt saman ágætlega gert en þar er hlutunum þó ekki forgangsraðað og öll pólitísk umræða er lögð til hliðar. Menn þegja t.d. um þau mál sem skilja að stefnu stjórnarflokkanna sem standa að þessu þingmáli og að nefndarálitinu. Það hlýtur að vekja alla þjóðina til umhugsunar um með hvaða hætti staðið verður að hagsmunagæslu í viðræðuferlinu sjálfu. Hvað meina þeir flokkar sem standa að þessu nefndaráliti og styðja að við sækjum nú um aðild að Evrópusambandinu en gera ekki annað en að benda á að hér séu ýmsir hagsmunir sem gæta þurfi að? Ég get vel skilið þegar flokkar mæla með því að sótt verði um aðild að ströngum skilyrðum uppfylltum eins og t.d. Framsóknarflokkurinn hefur gert. Hann hefur valið þá leið að segja: Hér eru skilmálarnir sem eru óumsemjanlegir við okkur framsóknarmenn. Þetta eru þau mál sem eru skilyrði okkar í viðræðum við Evrópusambandið. Þetta er pólitísk sannfæring okkar og stefna. Hér er málinu ýtt úr vör án pólitískrar stefnu. Hér liggur fyrir nefndarálit tveggja flokka sem eru algerlega á öndverðum meiði í málinu án þess að þessi pólitíska leiðsögn sé höfð með í umfjölluninni. Það hlýtur að sæta furðu og það sætir reyndar furðu almennt í allri Evrópuumræðunni sem átt hefur sér stað frá því að málið kom fram hversu mjög umræðan hefur snúist um annað en kjarna þess að ganga í Evrópusambandið. Umræðan hefur snúist um átökin milli stjórnarflokkana, um tillögur okkar sjálfstæðismanna, um formsatriði til og frá. En það er nánast engin umræða um það hér á þinginu hvað það þýðir að gangast undir sjávarútvegsstefnuna, hvernig hinir ýmsu aðilar á þinginu meta ólíka hagsmuni. En það höfum við gert í Sjálfstæðisflokknum og við höfum komist að ákveðinni niðurstöðu um þetta atriði.

Ég ætla ekki að leyna því héðan úr ræðustól á þinginu að auðvitað eru uppi ólík sjónarmið um það hagsmunamat í flokknum. En það liggur samt sem áður fyrir ákveðin niðurstaða. Að mínu áliti hafa þættir í Evrópusamvinnunni fengið aukið vægi vegna þess sem úrskeiðis hefur farið hjá okkur Íslendingum undanfarin ár. Það er þá einkum og sér í lagi sameiginlega peningamálastefnan, myntbandalag Evrópusambandsins, sem hlýtur eftir þá atburði sem upp hafa komið á Íslandi að hafa fengið aukið vægi í þessu hagsmunamati. En þrátt fyrir þetta hefur sannfæring mín ekki breyst, þ.e. að hagsmunum okkar sé ágætlega borgið hér fyrir utan.

Ég vil þó koma því að í þessu samhengi að þessi stefna Sjálfstæðisflokksins er ekki meitluð í stein. Hún er ekki í neinni líkingu við nokkur trúarbrögð sem taka ekki breytingum yfir tímann. Í því liggur einmitt stefna flokksins, í því liggur munurinn á þessu tvennu að stefna flokksins byggir á hagsmunamati og við viljum að það hagsmunamat sé stöðugt í gangi. Við sjáum tilefni til þess eftir að bankahrunið varð hér sl. haust að efna til víðtækrar og breiðrar umræðu um það í flokknum hvort ástæða væri til að taka þetta mat til endurskoðunar og e.t.v. komast að breyttri niðurstöðu. Í grundvallaratriðum varð niðurstaðan áfram sú hin sama en með því að benda á þá leið að reyna að skapa sátt um málsmeðferðina alla og upphaf og enda viðræðnanna og fara þjóðaratkvæðagreiðsluleiðina var tekið tillit til ólíkra sjónarmiða, ekki bara í Sjálfstæðisflokknum heldur í þjóðfélaginu öllu. Þegar við ræðum um mikilvægustu hagsmuni okkar hljótum við alltaf, og ekki hvað síst í þingsal, að staldra við sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins sem til er komin vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem Evrópuríkin búa við, mörg þeirra eiga sameiginlega fiskstofna. Það ætti þess vegna ekki að koma neinum á óvart að Evrópuríkin hafi séð sig knúin til þess í ljósi þeirrar staðreyndar að koma sér saman um sameiginlega fiskveiðistjórnarstefnu, að ákveða með sameiginlegum hætti hversu mikil sóknin ætti að vera í þá stofna sem þau búa sameiginlega yfir. Það grundvallaratriði verða menn að hafa í huga þegar þeir ræða um aðildina að Evrópusambandinu vegna þess að við munum þá rugla saman fiskveiðistjórn á miðunum okkar, þar sem eru að langmestu leyti staðbundnir stofnar, við fiskveiðistjórnarkerfi sem byggir á allt öðrum forsendum. Vegna þess að það eru margir í þessu þjóðfélagi sem eru að reyna að átta sig á Evrópumálunum sem trúa því að hægt sé að fá varanlegar og verulegar undanþágur frá þessari stefnu eða öðrum stefnum Evrópusambandsins, hefur það verið ein grundvallarskoðun Sjálfstæðisflokksins í málinu að slíkar varanlegar eða verulegar undanþágur er ekki hægt að fá í viðræðuferlinu.

Í framhaldi af þessu er kannski ástæða til að ræða aðeins um Evrópuumræðuna í þjóðfélaginu. Er það ekki merkileg staðreynd t.d. hversu miklu hærra hlutfall Íslendinga vill fara í aðildarviðræður en er tilbúið að ganga í Evrópusambandið? Ég les þannig í þessar tölur að í þjóðfélaginu sé mikil von bundin við viðræðuferlið, það séu býsna margir sem spyrji sig: Hvað er það eiginlega sem við getum fengið út úr samningunum? Ég skynja það í þingsal líka að það eru allnokkrir sem vilja hefja aðildarviðræðurnar til þess að eyða öllum vafa í því efni. Sannarlega er það þannig að tekið verður tekið tillit til einhverra óska okkar Íslendinga um aðlögunartíma, sennilega um einhverjar minni háttar varanlegar undanþágur frá einu eða öðru en í öllum stóru málunum liggur fyrir hvað er í boði. Það sagði ég við fyrri umr. þessarar þingsályktunartillögu, það er einfaldlega Evrópusambandið eins og það er. Þess vegna finnst mér mikilvægt þegar við erum að hrinda af stað Evrópuaðildarumsókn að þeir sem að henni standa geri betur grein fyrir því heldur en þeir hafa gert til þessa hvort þeir eru sáttir við Evrópusambandið eins og það er eða hvort skilyrðin sem rætt er um í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar og við höfum tekið aðeins til umfjöllunar, ég og hv. formaður þeirrar nefndar, eru þess eðlis að þau séu óumsemjanleg. Það er ekki bara galli við upphaf viðræðnanna að það skuli ekki vera pólitísk sátt, það er ekki bara galli við upphaf viðræðnanna að það sé ekki samstaða í ríkisstjórn heldur er það alveg sérstakt vandamál að mínu áliti hversu miklar væntingar eru bundnar við viðræðunefndina og þá niðurstöðu sem menn eru að fara að sækja í viðræðum við Evrópusambandið. Ég fæ alltaf eitt svar þegar ég hitti utanríkisráðherra Evrópusambandsríkja eða eftir atvikum þingmenn á þingi Evrópusambandsins. Það er þetta: Ef þið komið með svona miklar væntingar er það þetta sem við fáið. Það eru ekki í boði neinar varanlegar undanþágur. Við erum búin að koma okkur saman um reglurnar í þessum klúbb, ríkin 27 og þeir sem vilja sækja um inn í klúbbinn verða að beygja sig undir reglurnar og taka þátt í þeim.

Þetta leiðir hugann að öðru mjög mikilvægu atriði sem varðar þær hugsjónir og þann grundvöll sem Evrópusambandið í raun og veru snýst um, þ.e. samvinnu sem Evrópuþjóðirnar hafa ákveðið að hafa með sér með skipulegum hætti, skapa með sér innri markaðinn og þróa með sér ýmis samstarfssvið. Þeir hafa t.d. fyrir ekki mjög löngu síðan ákveðið að taka utanríkismálin og öryggismálin sérstaklega upp sem nýtt samstarfssvið. Það er sem sagt ákveðin hugsjón sem býr að baki samstarfi Evrópuþjóðanna. Það er ákveðinn vilji Evrópuþjóðanna sem liggur slíku samstarfi til grundvallar og ég get vel staðið hér og sagt: Ég er mikill Evrópusinni. Ég tel að við eigum að vera í miklu samstarfi við Evrópusambandið og ég tel reyndar að við séum það nú þegar með aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu, EES-samningurinn veitir okkur aðgang að öllum innri markaðnum og við höfum gert miklu meira en að fara inn á innri markaðinn og inn í EES-samninginn af því að við erum líka þátttakendur í ýmsum áætlunum Evrópusambandsins og við erum fullir þátttakendur í Schengen-samstarfinu sem er meira en segja má um sumar Evrópuþjóðirnar. Ég get í sjálfu sér skrifað undir flest það sem Evrópuþjóðirnar hafa ákveðið að sameinast um, að gildin og markmiðin sem Evrópuþjóðirnar eru sameiginlega að vinna að er eftirsóknarvert og það er skynsamlegt fyrir þjóðir að eiga með sér samstarf um þau markmið.

Ég get líka tekið undir það að á sinn hátt væri betra fyrir okkur Íslendinga að eiga rödd í Brussel, að eiga okkar eigin þingmenn í Brussel. Ég er ekki með þessu að halda því fram að þeir munu ráða neinum úrslitum. Við munum þurfa að kosta þó nokkuð miklu til en það væri fólgið í því betra lýðræði fyrir okkur Íslendinga, og ekki síst í ljósi þess hvernig við höfum verið að framkvæma EES-samninginn, að eiga okkar fulltrúa þar sem fara með okkar atkvæði og láta okkar rödd heyrast þar þannig að allar hinar 27 þjóðirnar heyri. Það er enginn vafi á því að það væri betra en það fyrirkomulag sem byggt er inn í EES-samninginn. Þetta þýðir samt sem áður ekki að það séu ekki þættir í Evrópusamvinnunni sem maður verður að gjalda varhuga við og það séu ekki þættir í frekara Evrópusamstarfi sem geti verið þess eðlis að ástæða sé fyrir okkur Íslendinga að staldra við og spyrja okkur hvort þeir kostir sem fylgja myntsamstarfinu, sem fylgja beinni aðild að Evrópuþinginu, sem fylgja beinni aðild að öllum ráðherrafundunum, aðild að framkvæmdastjórninni og öllu því öðru samstarfi sem við fengjum að komast að með skýrari hætti með fullri aðild séu svo mikilvægir að þeir vegi upp ókostina sem við fórnum, sem varða okkar grunnatvinnuvegi, eins og t.d. á sjávarútvegssviðinu.

Ég ætla ekki að nota ræðutíma minn til að fara yfir öll hin ólíku svið. Auðvitað eru margir hagsmunaaðilar, t.d. í landbúnaðarmálum, sem hafa komið sjónarmiðum sínum á framfæri við nefndina og þau eru öll ágætlega rakin en ég tel einfaldlega að okkur beri skylda til að halda á lofti hagsmunum sjávarútvegsins sérstaklega, í fyrsta lagi vegna þess hversu hann er hlutfallslega mikilvægur í íslenskum efnahag og í öðru lagi vegna þess hversu illa sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins á við íslenskar aðstæður.

Ég vil líka hafa sagt það hér að þó að ég telji litlar líkur á því að fá varanlegar undanþágur þá er það engu að síður þannig að það verður einhver sveigjanleiki sýndur og það er mikilvægt í því sambandi að þingið sé upplýst, haft með í ráðum, hafi tækifæri til að veita aðhald, koma sjónarmiðum á framfæri, eftir atvikum kalli þá eftir sérfræðingum, hagsmunaaðilum eða öðrum til að leita eftir ábendingum. Þeir þurfa reyndar líka að vera á sinn hátt í nokkuð sambærilegri stöðu, þ.e. að ferlið sé gagnsætt gagnvart þeim. Ég er ekki að halda því fram að menn muni ekki fá samning sem felur í sér neins konar tillit eða neins konar aðlögun fyrir íslenska þjóð við inngöngu í Evrópusambandið ef ferlið fer þannig.

Ég vil að lokum, virðulegi forseti, víkja að því að ég tel að þetta mál sé þannig vaxið að það sé nauðsynlegt að leita ríkari samstöðu um það en gert hefur verið. Allt sem sagt hefur verið um viljann til að fá breiða pólitíska sátt hefur ekki staðist. Þegar til kastanna kemur er það þannig að annar stjórnarflokkurinn ætlast til þess og telur sig greinilega hafa fengið loforð um að þetta mál verði afgreitt ekki seinna en á þessu sumarþingi og um það vitna auðvitað atburðir dagsins þar sem einstakir þingmenn sem hugðust voga sér að leggja fram breytingartillögu í málinu fá skýr skilaboð um að það verði ekki liðið og að það stefni stjórnarsamstarfinu sjálfu í uppnám. Hér verður maður að vekja athygli á því að í stjórnarsáttmálanum sjálfum, sem ég tel reyndar að fylgi áliti meiri hlutans, kemur sérstaklega fram að flokkarnir áskilji sér rétt til að halda sjónarmiðum sínum á lofti. Þegar einstakir þingmenn ætla síðan að nýta sér þennan skriflega rétt sem samið hefur verið um eru þeir snúnir niður og þvingaðir til að beygja sig undir vilja ríkisstjórnarinnar. Það er þess vegna sem ég hef sagt að þingsalurinn sé eins og eitt jarðsprengjusvæði og menn vita ekki hvar sprengjurnar liggja. Menn vita ekki hvort þeir mega gera þetta eða hitt vegna þess að það eru aðrir sem þurfa að hafa á því skoðun og stígi menn feilspor springur allt í loft upp. Það er auðvitað alveg skelfilega á skjön við öll þessi fögru orð, allar yfirlýsingarnar um að hér væri einungis verið að hrinda af stað lýðræðislegu ferli þar sem allir væru frjálsir til að hafa sýna skoðun, að horfa upp á þessa atburði gerast. Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason kom upp í ræðustól í morgun og hélt því fram að á þinginu væri raunverulega meiri hluti sem væri tilbúinn til að styðja tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég held að það sé rétt, að það sé raunverulega þannig. En ég ætla að leyfa mér að hafa efasemdir um að allir sem hafa þá sannfæringu muni fylgja henni, einmitt af þessari ástæðu að þegar kemur til atkvæðagreiðslu í þinginu verður það ekki afstaðan til Evrópusambandsins sem mun ráða úrslitum heldur afstaðan til ríkisstjórnarinnar. Það verður afstaða til þess hvort menn vilji gera ríkisstjórninni skaða eða ekki. Með þessu eru menn einfaldlega að skjóta álitaefnum á frest. Menn eru að ýta undan sér umræðu sem einn góðan veðurdag mun hvort eð er þurfa að fara í. Hún mun snúast um þetta: Vilja menn ganga í Evrópusambandið eða ekki? Það er spurningin sem menn munu þurfa að standa frammi fyrir. Þeir sem halda því fram að hægt sé að binda flokkana í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu horfa algerlega fram hjá þeirri staðreynd að þar sem þeirri aðferðafræði er beitt er það sama þingið og setur þjóðaratkvæðagreiðsluna af stað sem fær málið til endanlegrar afgreiðslu. Þannig er það ekki samkvæmt stjórnskipun okkar í dag. Það verður þess vegna annars þings að taka endanlega afstöðu til málsins jafnvel þó að menn af góðum hug efni til þjóðaratkvæðagreiðslunnar og telji sig bundna af henni, þá er það einfaldlega bundið inn í ferlið samkvæmt lögum að það mun þurfa að boða til kosninga og hið nýja þing verður ekki bundið af því sem hið fyrra þing gerði. Og þeir þingmenn sem veljast nýir inn á hið nýja þing koma þangað inn á sínum eigin forsendum. Þetta er algerlega ljóst.

Ég kalla eftir því að í umræðu um þetta mál taki menn einfaldlega afstöðu til stóru spurninganna. Menn skjóta ekki öllum þessum stóru spurningum inn í framtíðina. Að menn lýsi því hér þegar málinu á að ýta úr vör hvar pólitísku línurnar liggja, hvar sársaukamörkin liggja í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Og það dugar ekki að teikna upp hagsmunina eina og sér og láta þar við sitja. Það er ófullnægjandi grundvöllur fyrir aðildarviðræðum að mínu áliti.

Ég tel jafnframt að það sé nauðsynlegt fyrir umræðuna að menn taki til umfjöllunar tillögu 1. minni hluta nefndarinnar um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu annars vegar og um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu í hinn endann hins vegar. Ég hvet menn til að leyfa sjálfum sér að hafa jafnvel ólíkar skoðanir á þessum tveimur hugmyndum, jafnvel þótt þær séu frá virðulegri ríkisstjórn. Það er auðvitað, eins og ég vék að áðan, merkilegt að svo virðist sem skyndilega hafi tekist meiri hluti um að fara leið ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu þrátt fyrir að flokkarnir hafi verið allt annarrar skoðunar fyrir stuttu síðan. Og eins og við víkjum að í áliti 1. minni hluta í nefndinni þá hlýtur þetta að vekja mann til umhugsunar um það hvort það er í reynd hræðslan við kosningarnar sem ræður för, óttinn við það að kjörtímabilið styttist meira en menn helst vildu eða er það kannski hitt að menn ætla ekki og vilja ekki þurfa að fella málið í þann pólitíska farveg sem nauðsynlegur er til að fylgja málinu alla leið. Vilja menn vísa málinu endalaust frá sér, fyrst ríkisstjórnin inn á þingið, síðan flokkarnir frá sér og loks til þjóðarinnar og svo aftur til þjóðarinnar og svo með loforði um það að menn munu fylgja leiðsögn þjóðarinnar? Hvort ætla menn að leiða þjóðina eða láta þjóðina teyma sig áfram í málinu? Ég held að málið snúist dálítið um það. Hafa menn trú á því að það sé hægt án nokkurrar pólitískrar leiðsagnar í málinu endalaust að ýta málinu út til þjóðarinnar? Þá er það mín sannfæring að það fæst aldrei neinn meiri hluti fyrir málinu. Ef flokkarnir ætla ekki að bera ábyrgð á ferlinu, ef flokkarnir ætla ekki að bera ábyrgð á samningnum þá er alveg öruggt að það mun ekki takast meiri hluti meðal þjóðarinnar um að styðja slíkan samning. Það er alveg ljóst. Það sýnir reynsla annars staðar frá og þar sem efnt er til viðræðna í miklum ágreiningi þá fer slíkt ferli illa. Ég vil biðja menn um að taka þessi orð mín ekki þannig að við eigum ekki að hlusta eftir vilja þjóðarinnar. Ég tel einfaldlega að þetta tvennt þurfi að fara saman og þeir sem mestan áhuga hafa á því að við göngum inn í Evrópusambandið eigi að hafa vit til þess og koma auga á að það þarf að haga sér með þeim hætti að líklegt sé að samstaða náist um málið hjá þjóðinni. Til þess erum við að semja þessar reglur um gagnsæi í málinu. Það er á þeim grundvelli sem hugmyndin um þjóðaratkvæðagreiðsluna byggir í upphafi og það er einungis með því móti sem rík sátt verður um málið þegar upp er staðið.

Mín sannfæring á þessum tímapunkti stendur til þess að aðildarsamningur verði ekki samþykkur. Ég byggi það ekki síst á því að væntingarnar eru of miklar og á því byggja þeir flokkar sem helst vilja ganga inn mesta ábyrgð. Það er of lítið raunsæi í umræðum um Evrópusambandið á Íslandi í dag. Þetta kann hins vegar að breytast. Eins og ég vék að áðan þá á hagsmunamatið alltaf stanslaust að vera í gangi. Það kann vel að vera að ef við tökum rangar beygjur, ef við tökum rangar ákvarðanir núna við uppbyggingu efnahagslífsins á Íslandi, að efnahagslífið hafi ekki náð sér á strik og það er jafnan þannig að þegar efnahagslífið á Íslandi er í ákveðinni lægð þá er áhuginn fyrir nýjum lausnum eins og þessari jafnan mestur. Það kann svo sem vel að vera að gangi okkur illa að rífa okkur upp úr þeirri efnahagslægð sem nú er geti tekist samstaða um það meðal þjóðarinnar að stíga skref sem þjóðin væri almennt ekki tilbúin til að stíga annars.

Að þessu sögðu vil ég einfaldlega segja að þrátt fyrir að í utanríkismálanefnd hafi mikið verk verið unnið á skömmum tíma þá er þetta mál lagt fram í allt of mikilli tímaþröng. Nefndin hefur unnið undir óeðlilega miklum þrýstingi og hefur þurft á öðrum hverjum fundi upp á síðkastið að fjalla um annað risastórt mál sem er til umsagnar í nefndinni frá fjárlaganefnd, Icesave-samningana, sem nefndin hefur reyndar líka að eigin frumkvæði verið að fjalla um. Umgjörð málsins er algerlega ófullnægjandi og það er ómögulegt að skilja hvers vegna þeir sem harðast hafa gengið fram í þessu máli hafa ekki getað staðið við stóru orðin um að reyna að efna til sáttar. Sú sátt fæst með því að mínu áliti að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort hefja eigi viðræðurnar. Ég leyfi mér að hafa efasemdir um að þeir sem hafa sannfæringu fyrir þeirri leið fylgi sannfæringu sinni eftir á þinginu þrátt fyrir góð orð þar um.