137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:49]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er óneitanlega gaman að koma í kjölfar þessara orðaskipta hér upp. Ég þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir yfirgripsmikla ræðu þó að ég verði að viðurkenna að ég átti svolítið erfitt með að gera mér grein fyrir hver hans skoðun og flokks hans væri á málinu.

Ég er hins vegar algjörlega sammála formanni Sjálfstæðisflokksins um það að þetta mál, eins og öll önnur stór mál í einu samfélagi, íslensku samfélagi, krefst pólitískrar leiðsagnar, krefst þess að stjórnmálaflokkar hafi stefnu í málinu. Svo hlýði ég hér á ræðu formanns Sjálfstæðisflokksins og sá flokkur hafði, alla vega síðast þegar ég gáði, þá stefnu að ganga ekki í Evrópusambandið. En formaðurinn hefur varið hér heilum klukkutíma í að gera ítarlegar athugasemdir við það hvernig eigi að standa að samningaviðræðum og hvort og hvernig samning ætti að fá í stað þess að fara í hina ástríðufullu, efnismiklu ræðu gegn Evrópusambandinu.