137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:52]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta skýrði málið ekki. Á annan veginn segir formaður Sjálfstæðisflokksins að það sé bara hið ískalda hagsmunamat sem valdi því að menn hafi enga skoðun í málinu og enga ástríðu fyrir Evrópuhugsjóninni. En síðan segir hann sjálfur að það sé niðurstaða Sjálfstæðisflokksins að hið ískalda hagsmunamat sé þannig að þrátt fyrir allt hið góða sem hann sér í Evrópu, eins og hann lýsti því í ræðu sinni, þá geti menn ekki farið inn.

Ég á bara mjög bágt með að skilja þetta, frú forseti. Ég á mjög bágt með að skilja þennan málflutning. Um leið er verið að kalla eftir pólitískri leiðsögn. Um leið er verið að kalla eftir stefnu. Af hverju segja sjálfstæðismenn ekki eins og er? Þeir vilja ekki fara inn í Evrópusambandið. Þeir hafa aldrei viljað það. Tillagan um að undirbúa umsóknina betur var bara svona plattillaga frá stjórnarandstöðunni. (Gripið fram í: Hvaða vitleysa.)