137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:25]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ein helstu vonbrigði mín eftir að ég fór að taka þátt í stjórnmálum voru þau að átta mig á því að svokallaðir pólitískir spekingar, stjórnmálafræðingar sem oft er leitað álits hjá í fjölmiðlum, vissu ekkert um hvað þeir voru að tala. Þegar maður komst í aðstöðu til að fylgjast með málinu frá báðum hliðum sá maður að vangaveltur þessara manna voru yfirleitt algjörlega út í hött.

Nú hefur hæstv. utanríkisráðherra tekið að sér hlutverk pólitísks skýranda og umræðuefnið er flokkssamþykkt Framsóknarflokksins. Ég get upplýst hæstv. ráðherra um það að ég tók mikinn þátt í umræðum um þessa flokkssamþykkt og það var algjörlega á hreinu að mikilvægi þess að um skilyrði væri að ræða sneri að því að þetta væri óeftirgefanlegt, enda var umræðan um það frá samflokksmönnum hæstv. utanríkisráðherra öll á þá leið að skilyrði Framsóknarflokksins væru svo stíf að það væri í rauninni ekki hægt að segja að Framsóknarflokkurinn vildi sækja um aðild því að það væri ekki hægt að fara í viðræður með svo stíf skilyrði.