137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:26]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sem betur fer ekki pólitískur spekingur, ég er bara aumur fyrrverandi líffræðingur, en það vill svo til að það eru framsóknarmenn hér í salnum sem hafa lagt sama mat og ég á ályktunina. Tveir framsóknarmenn sem hafa talað í dag voru á flokksþinginu og tóku þar þátt í umræðum. Mat þeirra beggja er að það álit sem kemur frá meiri hluta utanríkismálanefndar falli eins og flís við rass að því er varðar þessa ályktun.

Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að Framsóknarflokkurinn setti ákveðin skilyrði, hann útfærði þau sjálfur, sagði að í fyrstu skrefunum ætti það sem hann kallaði samningsmarkmið, og taldi upp að ofan þessi skilyrði, að leggja til grundvallar — ekki að vera ófrávíkjanlegt, heldur að leggja til grundvallar.

Mig langar svo aðeins til að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi skipt um skoðun frá því í mars sl. þegar hann sagði á viðskiptaþingi: „Afstaðan er að sækja um aðild að Evrópusambandinu og taka upp evru.“ Hefur hann skipt um skoðun á því?