137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir hans málflutning og yfirferð á nefndaráliti 2. minni hluta utanríkismálanefndar þar sem hann gerði ágætlega grein fyrir þeim sjónarmiðum sem þar koma fram. Hv. þingmaður notaði nokkurn tíma af ræðu sinni til þess að lýsa áhyggjum sínum af Vinstri hreyfingunni – grænu framboði sérstaklega og sagði meðal annars að hann vonaðist til þess að flokkurinn lærði af Framsókn.

Ég get upplýst þingmanninn um að ég skoðaði mjög ítarlega samþykktir Framsóknarflokksins í þessum málum við vinnslu málsins í utanríkismálanefnd og það er mitt mat — þingmaðurinn kann að vera ósammála mér — að þeim atriðum sem talin eru upp í flokksþingssamþykkt Framsóknarflokksins sé í raun öllum vel til skila haldið í nefndaráliti meiri hlutans og í umfjölluninni um skilyrt umboð finnst mér að það sé í raun og veru komið mjög rækilega til móts við sjónarmið Framsóknarflokksins. Ég hef heyrt að sumir þingmenn eru sama sinnis. Ég vonast til þess að hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson líti (Forseti hringir.) sömuleiðis svo á að í vinnu nefndarinnar hafi einmitt verið reynt að draga lærdóm af flokkssamþykkt Framsóknarflokksins.