137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:38]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í fyrri umræðu um þá þingsályktunartillögu sem við ræðum núna benti ég á að Evrópusambandið er samstarf lýðfrjálsra Evrópuríkja. Það var stofnað til að tryggja frið í álfunni og hefur það að leiðarljósi að bæta hag þjóðanna sem eru í samstarfinu og fólksins sem býr í álfunni. Þetta hefur tekist með miklum ágætum þau rúmlega 50 ár sem liðin eru síðan Rómarsáttmálinn var undirritaður. Eðli félagsskaparins sem sóst er eftir hlýtur að skipta máli.

Við höfum átt náið samband við Evrópusambandið í fjölda ára. Flestir þeir sem voru andsnúnir EES-samningnum þegar hann var gerður á sínum tíma eru nú sammála okkur hinum sem hlynnt vorum honum þá, um að hann hafi leitt til blómlegra viðskiptalífs og betri lífskjara en við höfum áður þekkt þó vissulega hafi nú á síðasta ári komið í ljós að sumir kunnu ekki að fara með frelsið. Eftirlitsiðnaðurinn, eins og stofnanirnar sem áttu að sjá til þess að frelsið væri ekki misnotað voru gjarnan kallaðar, sofnaði á vaktinni og við erum að súpa seyðið af því.

Eins og fram kom í ræðu formanns utanríkismálanefndar var fjallað um þingsályktunartillögurnar tvær saman, þ.e. um þingmál nr. 38 og 54, og því var stýrt af mikilli og góðri verkstjórn og þakka ég formanninum það og öllum nefndarmönnum ágæta samvinnu. Nú er því lagt til að við undirbúning viðræðna og skipulag þeirra muni ríkisstjórnin fylgja þeim sjónarmiðum um verklag og meginhagsmuni sem fram koma í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar við þingmál nr. 38.

Eins og ég sagði áðan var samvinnan í nefndinni með ágætum en eins og gerist í stórpólitískum málum náðist ekki samstaða um öll atriði á lokasprettinum. Þess vegna liggja nú fyrir þrjú nefndarálit. Ágreiningsatriðin snúa að því hvort bera eigi ákvörðunina um að sækja um aðild að Evrópusambandinu undir þjóðaratkvæði og svo aftur hvenær þjóðin eigi að greiða atkvæði um aðildarsamning og sannast að segja er ég ekki alveg klár á af hverju þriðja álitið er og síst eftir þær umræður sem fóru hérna fram áðan.

Hvað varðar tillöguna um að bera það að fara í samningagerð eða sækja um aðild að Evrópusambandinu, þ.e. að fara með það í atkvæðagreiðslu þá lít ég á það sem pólitíska brellu af hálfu þeirra sem ekki vilja fara í samningaviðræður til þess að reyna að tefja málið. Ég tel það bara vera pólitíska brellu. Hvað varðar ágreiningsatriði um hvenær eigi að greiða atkvæði um samninginn þá sýnist mér það snúast um að hvort samviska alþingismanna bjóði þeim að fara að niðurstöðu sem verður í þjóðaratkvæðagreiðslu og ég ætla að láta öðrum eftir þá umræðu.

EES-samningurinn markaði vatnaskil í íslensku efnahagslífi en hann nær samt ekki til veigamikilla þátta í atvinnulífi okkar og ber þar fyrst að nefna sjávarútveg og landbúnað. Þessir atvinnuvegir voru burðarásinn í efnahagsstarfsemi hér á landi í gegnum aldirnar og allt líf og menning í landinu bar einkenni þess. En það er liðin tíð og nú standa þessir atvinnuvegir ásamt öðrum; orkunni, iðnaðinum, menntuninni, listinni, heilbrigðisþjónustunni, versluninni, tölvuleikjum, gervifótum og mörgu öðru, undir efnahagsstarfsemi í landinu og til þess ber að líta í samstarfi okkar og samningum við aðrar þjóðir og umheiminn.

Sá áróður er rekinn gegn samningaviðræðum við Evrópusambandið að við þurfum að gefa eftir yfirráð okkar yfir auðlindinni í sjónum og að sveitir landsins muni leggjast í auðn. Fólk lokar eyrunum og talar hærra þegar staðreynd eins og sú að meginregla við úthlutun veiðiheimilda er í samræmi við það sem nefnt er hlutfallslegur stöðugleiki, þ.e. veiðireynsla á hafsvæðinu næstu níu ár á undan. Öllum sem nenna að hlusta og hugsa um þetta er þó ljóst að það þýðir að íslenskum fiskiskipum verði úthlutað öllum veiðiheimildum á Íslandsmiðum. Ef þessi staðreynd nær ekki skollaeyrum þeirra sem eru andstæðingar þess að við leitum eftir samningum um aðild að Evrópusambandinu er næsta mótbáran sú að útlendingar geti stofnað hér útgerðarfélög og þannig veitt frá okkur fiskinn. Þeir loka aftur eyrunum og hækka róminn þegar þeim er bent á að heimilt er að setja reglur um hvar landa skuli aflanum og að sama skapi um búsetu þeirra sem gera skipin út. Ef þessi staðreynd nær eyrum fólks er sagt að sjávarútvegsstefnunni megi breyta og því sé hreint ekki á vísan að róa með ákvæði eins og þessi.

Virðulegi forseti. Ég nefni þessi atriði ekki til að láta líta svo út að samningagerð við Evrópusambandið um þessa miklu auðlind verði auðveld og að við þurfum ekki að halda þar vel á spöðunum. Ég nefni þetta til að benda á að í áköllum um fræðslu og fróðleik um Evrópusambandið virðast að minnsta kosti sumir einungis heyra það sem þeir vilja heyra.

Hvað heldur konan þá að þurfi að semja um? spyr væntanlega einhver. Jú, við þurfum að huga að komandi kynslóðum og tryggja okkur til framtíðar. Ég vænti þess að þingheimur og þjóðin öll sé mér sammála um að óviðunandi niðurstaða í sjávarútvegi hljóti að vera frágangssök í væntanlegum aðildarviðræðum. Við eigum að leggja áherslu á þá staðreynd að stærstu nytjastofnar okkar eru utan hinnar sameiginlegu fiskveiðilögsögu Evrópusambandsins og á þeim rökum eigum við að knýja á um að hafa forræði yfir auðlindinni.

Við þurfum líka að huga vel að því hvernig staðið verði að veiðistjórn ef staðbundnir stofnar breytast í deilistofna og ef stofnar færa sig um set, til dæmis vegna breytinga á umhverfi á norðurslóðum. Við þurfum nefnilega að huga að framtíðinni og hugsa til þess að þær breytingar sem geta orðið þurfi ekki alltaf að verða á þann veg að þær komi okkur vel. Breytingar geta orðið í allar áttir og þá getur verið gott að vera ekki alveg einn á báti.

Engin ástæða er heldur til að ætla að sveitir landsins leggist í auðn. Það hefur sýnt sig í öllum greinum að viðskiptafrelsi hleypir nýju lífi í atvinnugreinar. Auðvitað mun í framtíðinni sem hingað til þurfa að færa peninga til landbúnaðarins. Dæmin frá Finnlandi sanna að leyfilegt að styrkja landbúnað norðan við 62. breiddargráðu umfram það sem kemur úr sjóðum Evrópusambandsins og auðvitað munum við leita eftir slíkum samningi. Þá vil ég halda því fram að íslenskir bændur muni sjá fjölmörg tækifæri á hinum stóra og margbreytta markaði eða öllu heldur mörkuðum sem eru innan Evrópusambandsins. Loks hefur komið fram að ýmsir möguleikar geta opnast fyrir hinar dreifðu byggðir landsins í alls konar evrópsku samstarfi og áætlunum ef við yrðum hluti af byggðasamstarfi Evrópusambandsins. Allir vita sem vilja að í því samstarfi er borin mikil virðing fyrir hinu upprunalega og þá sérstaklega því sem snertir menningu, sögu og tungu.

Evrópusambandið hefur enga skoðun á því hverjir eiga auðlindirnar. Sérhverju ríki sem tekur þátt í samstarfinu er í sjálfsvald sett hvort auðlindir eða fyrirtæki séu í einka- eða ríkiseign. Hins vegar er bannað að mismuna fyrirtækjum eftir eignarhaldi. Ríkisfyrirtæki verða að lúta sömu reglum á markaði og einkafyrirtæki og öfugt. Það getur ekki verið að margir hafi á móti slíku fyrirkomulagi árið 2009.

Virðulegi forseti. Ég hef hér að framan vikið að þeim atvinnugreinum sem mest pláss hafa tekið í umræðunni, þeim atvinnugreinum sem andmælendur aðildar telja að standi mest ógn af aðild að Evrópusambandinu. Í þeirri andrá finnst mér rétt að vekja athygli á mótsögninni sem í raun felst í efnistökunum. Flest félagasamtök sem atvinnurekendur standa að hafa hvatt til þess, sum í bráðum áratugi, að leitað verði eftir aðild að Evrópusambandinu. Þau telja uppbyggingu og þróun atvinnuveganna í landinu best borgið í samfélagi við Evrópuríkin. Nú síðustu mánuði hafa launþegasamtök mörg hver slegist í hópinn og á nefndarfundi utanríkismálanefndar komst fulltrúi Sjómannasambandsins einhvern veginn þannig að orði að að það yrði einfaldlega að láta reyna á hvernig samningur fengist til að fá þetta mál út úr heiminum, eins og hann sagði. Það er heiðarleg afstaða og mér þykir hún líka skynsamleg. En það er nú bara mitt mat.

Eins og lög gera ráð fyrir verður samningagerðin sjálf á hendi og forræði framkvæmdarvaldsins. Í nefndarálitinu er fjallað ítarlega um hvernig hinir ýmsu þjóðfélagshópar og Alþingi munu koma að samningagerðinni. Allir, allir sem nefndin talaði við um þessi efni, voru á einu máli um að gott samráð við alla þá hópa í þjóðfélaginu sem vilja koma að málinu skiptir miklu máli og auðvitað verður að hafa gott samráð og samvinnu við Alþingi sem mun gegna veigamiklu eftirlitshlutverki í samningagerðinni allri. Hið sama kemur fram í öllum fróðleik sem finna má um hvernig þjóðir geta best staðið að samningagerð við Evrópusambandið.

Ráðherra sem tekur á sig þá miklu ábyrgð að leiða þessa samningagerð verður að skilja þetta og sjá til þess að þessar kröfur verði uppfylltar. Það er ekki síður mikilvægt að vandlega verði valið til þess mannafla sem mun standa í því daglega og um leið mjög svo krefjandi striti sem samningagerðin verður og á ég þá við það sem kallað er á stofnanamáli samningamenn eða samninganefndir.

Virðulegi forseti. Öllum er okkur sjálfstæði þjóðarinnar mikils virði. Eðli samstarfs innan Evrópusambandsins er að deila ákveðnum þáttum ríkisvaldsins með öðrum þjóðum. Í íslensku máli er talað um yfirþjóðlegar stofnanir. Er þá átt við að í fyrir fram skilgreindum málaflokkum ráða þjóðir ráðum sínum í sameiningu og komast að sameiginlegri niðurstöðu. Vissulega er það svo að í gegnum árin hefur breyst hvaða málaflokkar þetta eru. Breytingar sem orðið hafa í þá veru hafa allar orðið með samþykki þjóðanna sem taka þátt í samstarfinu. Þetta er einfaldlega af þeirri ástæðu að engar breytingar er hægt að gera á sáttmálanum nema með samþykki allra þjóða. Það er skýringin á því hvers vegna þjóðir sem taka þátt í samstarfinu þurfa að samþykkja aðild nýrra þjóða að því. Svo mun áfram verða.

Íslensk þjóð varð fullvalda 1. desember 1918 og sjálfstæð urðum við 17. júní 1944. Sjálfstæði og fullveldi í dag er allt annars konar en þá var og felst í því að hafa aðgang að þeim alþjóðasamtökum og stofnunum sem ákveða leikreglurnar sem gilda í heiminum. Þær eru eins og flestir vita allt aðrar í dag en þær voru á tímum gufuskipanna.