137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þegar Borgarahópurinn kom til þings lýsti hann því iðulega yfir að hér væri fjórflokkakerfi og ólýðræðisleg vinnubrögð tíðkuðust og annað slíkt. Hann brást reyndar trausti mínu í lýðræðisást sinni þegar hann batt trúss sitt við tvo af þessum ólýðræðislegu flokkum við nefndakjör á Alþingi sem leiddi til ólýðræðislegrar niðurstöðu um fjölda nefndarmanna þess hóps í nefndum.

Nú erum við að sækja um aðild að einhverju ríkjabandalagi úti í heimi og nú á að treysta Alþingi fyrir því að taka ákvörðun um að sækja um aðild að þessu ríkjabandalagi. Hvernig rímar það saman við lýðræðisástina og það að spyrja þjóðina um eitt og annað? Er það kannski minni háttar aðgerð eða minni háttar ákvörðun að sækja um aðild að þessu ríkjabandalagi úti í heimi? Finnst hv. þingmanni ekki mikilvægt að þjóðin fái að koma að þessari miklu ákvörðun sem fjórflokkarnir plús Borgarahreyfingin eru að taka ákvörðun um á næstu dögum? Er ekki mikilvægt að þjóðin komi að þessu en ekki bara þeir flokkar sem eru á Alþingi?

Auk þess kom fram, í byrjun fundar í morgun — hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, sem nú er farinn í heyskap vestur í Dali, lýsti því yfir að þingmeirihluti væri fyrir annarri niðurstöðu en hér verður. Hvernig rímar það við lýðræðisástina hjá Borgarahreyfingunni?

Ég vil líka taka undir það að á sama tíma og heimilin og fyrirtækin í landinu eru á heljarþröm erum við að taka ákvörðun um eitthvert mál sem leiðir til niðurstöðu eftir kannski 10 ár varðandi evruna, eftir 3 til 4 ár varðandi aðildina. Eru þetta ekki rangar áherslur?