137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:13]
Horfa

Þór Saari (Bhr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrirspurnina. Hvað varðar nefndirnar í vor — eins og allir vita er Borgarahreyfingin, hún heitir Borgarahreyfingin, nýtt afl á þingi og ekkert okkar með þingreynslu. Við sátum fyrstu vikuna eða tvær niðri í þingflokksherbergi og veltum því fyrir okkur hvað við ættum að gera í vinnunni okkar, við vissum ekkert hvað við ættum að gera, vorum með þreifingar, spurðum fólk og fengum fólk á okkar fund til að kenna okkur að vera þingmenn. Þá var okkur sagt að það væri mjög gott fyrir málefni hreyfingarinnar að vera í sem flestum nefndum ef við ætluðum að ná fram áherslumálum hreyfingarinnar. Við fundum þá út hvernig við ættum að fara að því að reyna að komast í þær nefndir sem okkur langaði í og gerðum að því leytinu einfaldlega bandalag við meiri hluta stjórnarflokkanna á þinginu til að komast í þær nefndir. Hvort það er lýðræðislegt miðað við fjölda þingmanna skal ég ekki um segja. Hin niðurstaðan hefði sennilega orðið sú að við hefðum ekki fengið sæti í einni einustu nefnd og það er þá spurning hversu lýðræðislegt það hefði verið.

Hvað varðar atkvæðagreiðslu um aðildarumsóknina sjálfa, þ.e. að fara í tvær atkvæðagreiðslur, þá teljum við að sú hugmynd sé einfaldlega til þess fallin að drepa málinu á dreif, það yrði mjög erfitt eða nánast ómögulegt að ákveða hvað ætti að fara út í þjóðaratkvæði um, með hvaða hætti ætti að orða spurninguna, hvers eðlis hún ætti að vera og um hvað ætti að ræða í því máli. Við töldum því best að málið yrði einfaldlega lagt í dóm þjóðarinnar þegar skýrt liggur fyrir hvað er í húfi en ekki einhverjar hugsanlegar fræðilegar pælingar um málið. Lýðræðisást Borgarahreyfingarinnar er mikil og eins og kom fram í máli mínu í morgun, varðandi afstöðu Ásmundar Einars Daðasonar, þá töldum við það mjög hættulegt og vont mál og ég lagði m.a. til úr þessu ræðupúlti að við atkvæðagreiðslu um EES-aðildina fær fram leynileg atkvæðagreiðsla til að koma í veg fyrir að þingmenn yrðu kúgaðir til hlýðni.