137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:16]
Horfa

Þór Saari (Bhr) (andsvar):

Frú forseti. Lýðræðisást Borgarahreyfingarinnar er mikil og óspjölluð enn og verður það vonandi. Þau skilyrði sem við settum m.a. við stuðning okkar við aðildarviðræðurnar komu af því að við settumst niður einn góðan eftirmiðdag og veltum því fyrir okkur hvort við vildum taka þátt í þessu hefðbundna þingkarpi sem viðgengist hefur áratugum saman og hengja einhverja verslunarvöru á skilyrði okkar við stuðning við aðildarumsókn. Niðurstaða okkar varð mjög fljótlega sú að svo væri ekki og við höfum staðið þétt við þau skilyrði sem við settum og ekki hvikað frá þeim. Við höfum í sanngjörnum umræðum við meiri hlutann náð þeim inn í nefndarálitið og er það vel, því að niðurstaðan, hv. þm. Pétur Blöndal, er sú að þjóðaratkvæðagreiðslan sem mun eiga sér stað um ESB-aðildina verður mun vandaðri og betri fyrir vikið.

Hvað varðar þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort sækja eigi um aðild eða ekki þá er í rauninni um sama mál að ræða og það er einfaldlega, eins og ég sagði áðan, stefna flokks hv. þingmanns að reyna að drepa málinu á dreif. Hér er um gríðarlegt hagsmunamál fyrir valdaöfl á Íslandi að ræða, að Evrópusambandið komist ekki að með sínar reglur og sitt siðgæði, því að það mundi örugglega bæta mjög íslenska stjórnsýslu og íslenskt samfélag að hér kæmu það sem ég kalla alvörureglur í stjórnsýslu sem ég tel að hafi ekki viðgengist svo vel sé á Íslandi hingað til.