137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:15]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að vekja máls á þeirri hugmynd sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kynnir hér í dag og hefur kynnt áður sem er hugmyndin um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég tel að þessi hugmynd hafi þann stóra galla að þjóðin hafi einfaldlega ekki forsendu til þess að taka upplýsta afstöðu til málsins á þessu stigi málsins. Kostirnir sem lagðir yrðu fyrir hana yrðu í besta falli ófullkomnir og í versta falli misvísandi. Þeir eru ófullkomnir af því að þegar hún gengur að kjörborðinu í slíkri atkvæðagreiðslu er enginn samningur á borðinu. Það er ekkert fast í hendi sem þjóðin getur byggt ákvörðun sína á. (Gripið fram í: Hvernig komst Samfylkingin ...)

Við þekkjum gjörðir Evrópusambandsins. Við þekkjum Rómarsáttmálann. En við getum ekki litið fram hjá því að við þurfum að semja um aðlögun Íslands að þessum gjörðum, semja um 35 kafla sem taka á og tengjast grundvallarhagsmunum Íslands. Niðurstaðan er ekki gefin fyrir fram, hvað sem hver segir. Valkostirnir eru misvísandi (Forseti hringir.) því að þrátt fyrir allar skýrslurnar, bækurnar og greinarnar lifa tröllasögur og glansmyndir um Evrópusambandið góðu lífi, annars vegar um að við munum tapa yfirráðum yfir auðlindum (Forseti hringir.) okkar, hins vegar um að ESB sé allra meina bót. Hvort tveggja er rangt.