137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:17]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Það er mikill misskilningur að Evrópusambandið sé eitthvert sáluhjálparatriði fyrir Samfylkinguna og við höfum sýnt það með því að koma hér fjölmörgum málum í gegn á undanförnum vikum mjög hratt og vel í 100 daga áætluninni. Það er verið að vinna hér hratt og vel að málum. Hratt og vel skiptir einmitt máli í þessu samhengi. Hvers vegna viljum við eyða tíma að óþörfu í það að bjóða þjóðinni upp á ófullkomna eða misvísandi kosti í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar við vitum með skoðanakönnunum undanfarin ár að vilji þjóðarinnar er býsna skýr. Hún vill fara í þessar aðildarviðræður. Það liggur á borðinu. Það er engin ástæða til þess að eyða meiri tíma þegar heimilin og fyrirtækin eiga í vandræðum þegar við getum farið beint í viðræðurnar og fengið þær forsendur sem við þurfum til þess að þjóðin geti tekið upplýsta ákvörðun.