137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:18]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Vilji þjóðarinnar er alveg skýr. Tæplega 80% þjóðarinnar vilja fá að kjósa um aðildarumsókn þannig að vilji þjóðarinnar er skýr í þessu máli.

Það er talað um tíma og þess vegna var mér svo tíðrætt um vinnubrögð í minni ræðu. Ef forsætisráðherra og ríkisstjórnin hefðu sýnt myndugleika strax núna í maí þegar þing var sett og sagt: „Gott og vel, við ætlum ekki að eyða tíma þingsins í þetta mál, við ætlum að fela þjóðinni þetta, höfum þjóðaratkvæðagreiðslu um málið eigi síðar en 1. júlí“, þá væri þetta mál afgreitt í dag.

En af því að þetta mál er svo fast í hendi fyrir Samfylkinguna vill hún frekar eyða tíma þingsins og þjóðarinnar um leið í þetta mál í staðinn fyrir að fara beint í það og treysta þjóðinni til þess að kjósa um aðildarumsókn eða ekki. Ég tel að við hefðum getað unnið mikinn tíma ef Samfylkingin hefði komið einhvern tíma með einhverri reisn inn í þetta mál og sagt: „Gott og vel, okkar afstöðu þekkja allir en við ætlum að teysta þjóðinni af því að við fáum þannig sem mesta breiða pólitíska sátt í þessu máli líka.“ Það er líka þýðingarmikið.