137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:22]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Eins og við heyrðum í morgun þá eru náttúrlega skiptar skoðanir um málið. Ég vona að menn muni greiða hér atkvæði eftir sinni bestu samvisku eins og allir kalla eftir.

Það var merkilegt að heyra talað um að menn engist. Já, það er alveg rétt eins og frammíkallið bar með sér að við engdumst undan ykkar samstarfi og þið eflaust líka. Það er bara þannig. Ég hélt að við værum að tala um ný vinnubrögð hérna. 1. febrúar var tilkynnt sérstaklega: Nú er ný verkstjórn á landsmálunum. Hvers konar nýja verkstjórn var það? Reyndar er þetta verkstjórn sem ég kannast ekki við. Þetta eru vond ný vinnubrögð. Það eru allir að kalla eftir samstöðu. Menn eru að kalla hér eftir pólitískri leiðsögn frá ríkisstjórninni af því að hún fer með framkvæmdarvaldið. Það er hún sem ber ábyrgð á aðildarumsókn gagnvart Evrópusambandinu eða ekki. Af hverju (Gripið fram í.) ekki að tala breiðar? Af hverju að þjösna (Gripið fram í.) þessu máli svona í gegn þegar menn vita — og menn í ríkisstjórnarflokkunum (Forseti hringir.) voru látnir vita um það strax í maí — að hægt er að ná breiðri pólitískri samstöðu um að fara strax með málið í þjóðaratkvæði.