137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:28]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér mjög stórt og erfitt mál. Við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd að íslenska þjóðin er mjög klofin og skipt í afstöðu sinni til þess. Stjórnmálaflokkarnir eru að einhverju leyti allir klofnir. Innan þeirra finnast ólík viðhorf. Kannanir sýna að stuðningsmannabakland eða kjósendabakland allra stjórnmálaflokka í landinu er skipt. Samtök atvinnulífsins eru klofin þar sem ákveðnar greinar, fyrst og fremst sjávarútvegsgreinarnar og landbúnaðurinn, leggjast eindregið gegn aðild en aðrar greinar styðja hana, eins og Samtök verslunar og þjónustu og iðnaðurinn. Verkalýðshreyfingin hefur skiptar skoðanir á þessu máli. Væntanlega finnast innan flestra samtaka í öllum landshlutum og á vinnustöðum ólík sjónarmið í þessu máli. Þess vegna er vandasamt fyrir okkur sem þjóð að halda á því og það er erfitt á ýmsan hátt, meðal annars fyrir minn flokk, fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð. Við höfum þá mótuðu flokkslegu stefnu að það þjóni ekki hagsmunum Íslands best að ganga í Evrópusambandið. Við höfum rætt þetta og metið á hverjum tíma allt frá okkar stofnun og niðurstaðan hefur orðið sú hin sama. En hlutirnir þróast að sjálfsögðu og það gera þeir einnig innan okkar raða og þar er vissulega orðið meira um fólk sem nálgast þetta með því hugarfari að kannski eigi að láta á það reyna hvað þarna sé í boði. Eitt er víst og það er að þetta mál er uppi og hefur verið uppi og það mun ekki hverfa hverjar sem lyktir þess verða hér og nú. Við gerðum erfiða málamiðlun þegar gengið var til þessa stjórnarsamstarfs. Sumir mundu sjálfsagt kalla það fórn og menn spyrja eðlilega: Hvernig getur það verið að flokkur sem hefur það í sinni stefnu að meta það svo að hagsmunum Íslands sé ekki best borgið innan Evrópusambandsins standi að slíkum hlutum?

Því er til að svara og það er best að segja hlutina eins og þeir eru að án einhverrar lendingar eða málamiðlunar í þessu máli hefði í fyrsta lagi þessi ríkisstjórn ekki orðið til. (VigH: Það hefði betur verið svo.) Í öðru lagi er það þannig að þetta mál er uppi og ég held að öllum sé ljóst sem fylgst hafa með umræðum um það undanfarna mánuði og undanfarin missiri að að því var og að því er að draga að það verði til lykta leitt með einhverjum hætti. Við getum velt því fyrir okkur ef fyrri ríkisstjórn hefði lifað af síðastliðinn vetur, væri ekki alveg eins líklegt að svipuð staða væri þá uppi í málinu, að þar hefði allt stefnt í þá átt að látið yrði reyna á aðildarviðræður við Evrópusambandið? Margir telja að svo sé.

Við stöndum líka frammi fyrir þeirri staðreynd hér, samanber tillöguflutninginn og þær tvær tillögur sem eru hér andlag umræðunnar í dag, að yfirgnæfandi meiri hluti þingmanna og þingsins virðist telja að að því sé komið að láta á þetta mál reyna. Við ræðum hér stjórnartillögu um aðildarumsókn og við erum með tillögu frá tveimur af þremur þingflokkum stjórnarandstöðunnar um að undirbúa mögulega umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Það vísar eindregið í þá átt að þau veðrabrigði séu orðin að hér á þingi séu núna breytt hlutföll og mun meiri stuðningur við það að láta á þetta reyna og hefði þá ekki sú staðreynd, sá þingvilji með einum eða öðrum hætti fundið sér farveg nú á þessu kjörtímabili, nú á næstu árum? Ég held að það sé hinn pólitíski veruleiki sem við stöndum frammi fyrir.

Það er líka veruleiki að í öllum löndum, að minnsta kosti flestum þar sem ég hef skoðað það, hefur það alltaf verið umdeilt mál að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Það var það í Noregi þegar minnihlutastjórn lagði inn umsókn og flokkurinn sem að henni stóð var klofinn í málinu. Það var það í Tékklandi. Svo var í Svíþjóð á sínum tíma, í Austurríki. Það var það á Írlandi og svo framvegis. Það hefur alltaf verið þannig að um þessi mál, sem yfirleitt hafa klofið mjög bæði flokka og skipt þjóðum upp, að þá hafa aðstæður verið með einum og öðrum hætti slíkar. Þess vegna er það rangt sem hér er sagt að það sé eitthvert einsdæmi að aðildarumsókn beri að með þessum hætti og að bakland ríkisstjórnar standi ekki heilt að henni. Það er ekki svo. Þannig hefur það yfirleitt ekki verið.

Jú, jú, menn geta sagt að það sé ekki mjög trúverðugt að stjórnarflokkarnir sem með framkvæmdarvaldið fara séu með ólíka afstöðu til málsins og haldi öllum fyrirvörum til haga eins og við gerum sannarlega í krafti okkar stefnu og áskiljum okkur allan rétt í málinu. Hv. þm. Bjarni Benediktsson taldi vanta ákafann í málið. En er það endilega svo að vafinn, að fyrirvararnir, að gagnrýnin nálgun sé versti förunauturinn í leiðangri af þessu tagi? Liði mönnum endilega betur með að hér hefði náð saman eindreginn aðildarsinnahópur sem hefði átt sér það eina markmið að keyra Ísland inn í Evrópusambandið og hann hefði staðið að því að leggja inn umsókn og hann hefði farið með viðræður? Það skyldi nú ekki vera að það gæti bara reynst ágætt að þau skiptu sjónarmið sem eru í landinu um þetta mál eigi sér líka málsvara innan ríkisstjórnar og á Alþingi.

Við áskiljum okkur ekki bara rétt til þess að leggjast gegn samningsniðurstöðu, verði hún sú sem við teljum mörg hver líklegt, þ.e. að hún breyti litlu um það mat sem uppi hefur verið um hvað það þýði fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið. (VigH: Það er óábyrgt að tala svona.) Við áskiljum okkur líka rétt til þess á hverju stigi málsins sem er að leggja það til að samningaviðræðum verði hætt og það á Alþingi líka að gera. Ég fagna því að utanríkismálanefnd hefur styrkt aðkomu Alþingis að þessu máli og sett því skýrari ramma, meðal annars með þeirri breytingartillögu sem hún flytur. Það er að mínu mati mjög mikilvægt að menn nálgist síðan málið þannig að þeir hefji viðræðurnar á því sem erfiðast er. Það á ekki að geyma það þangað til síðast að fara í viðræður um sjávarútvegsmálin, um landbúnaðarmálin og matvælaiðnaðinn. Þvert á móti á að mínu mati að leggja megináherslu á að fá stærstu spurningunum svarað sem fyrst og fá það skýrt fram hvort þær væntingar sem sumir hafa um að Ísland geti fengið þarna umtalsverðar varanlegar undanþágur frá meginreglum Evrópusambandsins séu raunhæfar eða ekki. Ef þær eru ekki raunhæfar er ástæðulaust að halda viðræðum áfram. Ég sé það ekki fyrir mér að nein ríkisstjórn leggi samning fyrir þjóðina og mæli með því að hann verði samþykktur sem felur í sér fullt afsal okkar á forræði í sjávarútvegsmálum, þá hluti fyrir landbúnaðinn sem ýmsir óttast og þar fram eftir götunum.

Að sjálfsögðu er margt fleira í þessu stóra máli sem þarf að huga vel að og það er farið mjög vel yfir það í nefndaráliti meiri hlutans. Það eru hlutir sem lúta að auðlindamálum almennt, að lýðræðinu, að valdaframsalinu, að félagslegum áherslum og að gjaldmiðilsmálum, sem að sjálfsögðu eru stór og mikilsverð mál og það er kostur ef það getur skýrst hverjar aðstæður Íslands yrðu í þeim efnum.

Ég hlýt að vara hér við því sem ég tel vera eina hættu þessa máls og það er oftrúin á að í þessu sé fólgin líkleg lausn á öllum okkar vanda. Það er tvennt sem ég held að þurfi að varast. Það er annars vegar oftrúin á að þetta mál í sjálfu sér spili mikið hlutverk í þeim vanda sem Ísland glímir við nú um stundir. Hann er hér. Hann er heima á Íslandi. Verkefnin eru hér sem við þurfum að takast á við næstu missirin og við eigum ekki að láta annað trufla okkur um of í þeim. Hitt eru óraunhæfar væntingar um að samningsniðurstaðan geti falið í sér einhver umtalsverð frávik frá meginreglum Evrópusambandsins. Ég hef hvergi fundið neinu stað sem bendir til þess að líklegt sé, svo dæmi sé tekið, að Ísland fengi til muna betri samning og fleiri undanþágur en Noregur fékk á sínum tíma, sérstaklega í seinni tilraun sinni, og vissu þá allir að Noregur þyrfti góðan samning ef líkur ættu að vera á því að norska þjóðin samþykkti hann.

Það er gott að um það er samstaða að íslenska þjóðin eigi í þessu máli síðasta orðið. Síðasta orðið, segi ég, og það tengist ekkert því hvort sú kosning fer fram fljótlega eftir að samningsniðurstaða liggur fyrir eða eftir að Alþingi hafi gert nauðsynlegar stjórnarskrárbreytingar. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að kosningin eigi að fara fram strax að hæfilegum tíma liðnum eftir að samningsniðurstaða liggur fyrir, komi einhvern tíma til hennar, hafi menn ekki dregið sig út úr umræðum áður. Það er vegna þess að ég gef mér — og ég hef engan heyrt halda neinu öðru fram — að það verði íslenska þjóðin með atkvæði sínu í þjóðaratkvæðagreiðslu sem ráði niðurstöðunni. Hafni hún samningsniðurstöðu er engin ástæða til að gera breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins sem þá er engin þörf fyrir. Þess vegna er það kostur, ótvíræður kostur, að bera málið strax undir þjóðina en ekki þegar Alþingi að alþingiskosningum liðnum hefði gert endanlegar breytingar á stjórnarskránni.

Kannski eiga þingmenn sem hér eru núna í öndverðum fylkingum — ekki endilega svo óskaplega ósammála, samanber ræður hér og tillögur — eftir að sameinast á nýjan leik í afstöðu sinni til þess ef til samningsniðurstöðu kemur og kannski eiga margir ólíklegustu vopnabræður eftir að verða þá í fylkingu sem leggst gegn niðurstöðunni og ræður þjóðinni frá því að ganga að samningnum.

Nú eru örlagatímar fyrir okkar þjóð. Við stöndum í harðri baráttu fyrir okkar efnahagslegu framtíð, efnahagslegu sjálfstæði, og sumir mundu vilja bæta stjórnmálalegu sjálfstæði sjálfsagt þar við að einhverju leyti. Heimurinn er líka á tímamótum. Hann er í mikilli mótun. Við glímum við verstu kreppu í hagsögu seinni alda eða áratuga frá því fyrir 70–80 árum síðan. Eitt vitum við og það er að við lifum saman á þessum hnetti. Framtíð heimsins er þannig samofin og Ísland er og verður og ætlar sér að vera hluti af því. Við erum hluti af hinum tæknivædda samrunaheimi, og það er ekki spurning um það hvort við ætlum að eiga góð samskipti við okkar grannríki og umheiminn heldur hvernig, á hvaða formi það er. Enginn mælir gegn því að við þurfum að sjálfsögðu að eiga góð og sterk tengsl við Evrópu þar sem um 70% útflutningsviðskipta okkar liggja. Spurningin er bara um hvernig best sé um það búið og hvað þjóni okkar hagsmunum í þeim efnum.

Við eigum okkur örugglega öll drauma um það hvernig við viljum sjá heiminn og hvernig hann sé best saman settur. Án þess að gerast of hátíðlegur vil ég leyfa mér að segja að ég trúi á það að besta fyrirkomulagið sé frjálst bræðralag þjóða þar sem engin þjóð ber aðra ofurliði, hvað þá vopnum, þar sem þjóðir eiga með sér gagnkvæm, hagstæð viðskipti, samskipti og samstarf. (VigH: Er það svo nú?) Til þess þarf vissulega skipulag. Til þess þarf heimurinn og einstök svæði vissulega skipulag. En það þurfa ekki að vera yfirþjóðleg bandalög. Það er hægt að sjá það fyrir sér öðruvísi. Það er hægt að tryggja viðskipti með almennum leikreglum og samningum, þess vegna með heiminn allan undir, sem hugnast mér betur en tollabandalög og svæðisbundnar blokkir. Það er hægt að gæta öryggis og friðar í heiminum án þess að skipta honum upp í hernaðarbandalög. Satt best að segja hefur sú skipan mála gefist hörmulega.

Það er líka hægt að segja að mörgu leyti það sama um viðskiptablokkirnar. Þær hafa ekki reynst heiminum vel. Þær takast á. Þær draga upp landamæri og þá verða oft ýmsir út undan, þeir sem veikar standa að vígi. Við skulum ekki láta drauminn deyja um það að til sé annað og mögulega betra fyrirkomulag í þessum efnum en það sem við sitjum uppi með, sumpart arf frá liðnum tímum, orðið til við óheppilegar aðstæður í lok styrjalda eða viðskiptaátaka.

Evrópa þarf að sjálfsögðu að vinna saman öll, ekki bara 27 eða 30 eða 48 svæði, þess vegna alveg eins 70 eða 100. Þess vegna alveg eins Katalónía, Skotland, Færeyjar, Borgundarhólmur, sem í minni framtíðar-Evrópu mættu vera þar jafngildir aðilar og Ísland og þess vegna önnur smærri ríki sem ekki fer mikið fyrir um þessar mundir.

Að lokum trúi ég því að við séum sjálf okkar eigin gæfusmiðir, að við Íslendingar munum alltaf ráða mestu um það sjálf hvernig okkur vegnar og reiðir af, óháð því í sjálfu sér í hvaða form við bindum samstarf okkar við aðra. Örlög okkar að því marki sem það er í mannlegu valdi mótast af okkur sjálfum og því hvernig við stöndum að málum, hversu vel okkur tekst til, hversu farsæl við erum í okkar framgöngu allri. Þar hefði mátt takast betur til og svo sannarlega betur til núna hin síðustu ár.

Ég þarf ekki, frú forseti, og hef naumar aðstæður til að hafa um þetta miklu lengra mál. Ég deili niðurstöðu meiri hluta utanríkismálanefndar og er henni sammála og hef sömu afstöðu til málsins. Ég get gert rök meiri hlutans í öllum aðalatriðum að mínum og þó sérstaklega þau rök sem formaður utanríkismálanefndar, hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, flutti hér í góðri framsöguræðu.

Að lokum vil ég þakka honum og öðrum nefndarmönnum í utanríkismálanefnd alveg sérstaklega fyrir mikla og góða vinnu. Það deilir enginn um það að hér hefur verið lagður mjög góður grunnur að framhaldi málsins og Alþingi þarf síðan að eiga ríka aðild, ásamt með öðrum sem að verkinu koma, að því að fylgja því fram á þeim grunni sem hér er lagður og vonandi tekst það vel. Mikið er í húfi. Ég get vissulega tekið undir það sem fleiri hafa sagt að það hefði verið æskilegra að ná um þetta mál breiðari samstöðu. Það hefði að sjálfsögðu verið betra ef það hefði náðst til fulls. Sjónarmið hafa þó verið sætt í verulegum mæli og hér hefur það komið rækilega fram, til dæmis hjá hv. síðasta ræðumanni, hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sem fagnaði því þó að margt hefði áunnist í því góða starfi sem utanríkismálanefnd hafði forustu um. Það er þrátt fyrir allt ekki svo óskaplega langt á milli sjónarmiða í þessum efnum, að einhverju leyti hvað varðar málsmeðferð og aðferðafræði, en ekki að því er virðist um grundvallarhagsmuni Íslands í málinu og þá er mikið fengið. Sé það svo að við séum sammála um að standa á þeim grundvallarhagsmunum sem hér eru skýrt upp dregnir og hverfa ekki frá þeim þarf ekki að hafa mjög miklar áhyggjur af málinu því að annaðhvort nást þeir þá fram í samningum eða gera það ekki og fari þannig ætti samstaðan að haldast og ekki verða mikið vandamál að útkljá þá málið á þann hátt að ekki hefðu náðst viðunandi samningar, að málið hefði verið reynt, þar með væri það frá, búið, og Ísland gæti snúið sér að öðrum hlutum.