137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:46]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hálfslegin eftir þennan dag á Alþingi, í fyrsta lagi vegna þess, eins og ég hef minnst á áður hér í ræðu, að einn hv. þingmaður sá sig knúinn til þess að yfirgefa salinn og fara heim út af því að hann var ofurliði borinn af framkvæmdarvaldinu og í öðru lagi vegna útskýringa hv. formanns Vinstri grænna úr þessum ræðustól áðan þar sem hann reynir að koma sér undan ábyrgð sinni á því sem hann lofaði fyrir kosningar. Hann sagði sjálfur að þessi ríkisstjórn hefði ekki lifað nema samkomulag hefði verið gert við Samfylkinguna um að koma þessu máli hér á dagskrá með klofna ríkisstjórn og í andstöðu við sína flokksmenn, sem er mjög alvarlegt því að eins og við vitum öll gengu Vinstri grænir til þessara kosninga með ESB-aðild í andstöðu við ESB. Þess vegna langar mig til þess að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig getur hann horft framan í kjósendur sína á (Forseti hringir.) deginum 10. júlí 2009 með þetta í farteskinu?