137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:50]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason mun fylgja sannfæringu sinni og greiða atkvæði samkvæmt henni og hann tók það hér skýrt fram að hann mundi greiða þessari breytingartillögu atkvæði. Það er nákvæmlega þannig sem frá málinu var gengið að menn greiða (VigH: Var gengið frá því?) hér atkvæði — þingmenn ganga hér óbundnir til atkvæðagreiðslu og efnislegrar afstöðutöku í þessu máli. Það er algjörlega á hreinu.

Ég bið hv. þingmann að hafa ekki endilega Morgunblaðið sem fyrstu heimild um mína afstöðu í þessu máli. Það er svolítið frjálslega frá sagt að ég hafi talað um að það gengi ekki að menn gerðu bandalög gegn stjórninni. Ég sagði að það væri auðvitað munur á því annars vegar að styðja breytingartillögu og flytja hana og það væri munur á því og að taka afstöðu til mála þegar kæmi að atkvæðagreiðslum í þingsalnum og hinu að dragast inn í einhvern hráskinnaleik stjórnarandstöðunnar sem þóttist ætla að sameinast hér um að flytja breytingartillögu um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. En hvar er sú samstaða núna þegar stjórnarandstaðan skilar þrískiptum nefndarálitum og aðeins (Forseti hringir.) einn flokkur stendur að (Gripið fram í: Það var af því að þingmaður Vinstri grænna var bugaður til að hætta við.) breytingartillögu um tvöfalt þjóðaratkvæði?