137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:04]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Hér um stórt og mikið mál að ræða og óhætt að segja að mjög margir eru búnir að bíða mjög spenntir eftir því að það komi inn til þingsins og eins eru einhverjir eflaust sem kvíða því líka þar sem málið er mikilvægt fyrir framtíð þjóðarinnar og mun skipta miklu máli og reyna á þingmenn og því er ekkert skrýtið við það að taugar sumra þingmanna séu býsna þandar þessa dagana. (Gripið fram í.) Nei, hæstv. utanríkisráðherra, en það er mér mikil ánægja að þú skulir vera kominn í salinn og ætlir að hlusta á ræðu mína.

Ég vil byrja á því í upphafi að lýsa áhyggjum mínum af þeirri stöðu og í raun lýsa yfir stuðningi við hv. þm. Ásmund Einar Daðason sem hér kom upp og sýndi að mér finnst mikinn karakter þegar hann lýsti því hvernig almennir þingmenn eru í raun beittir ofbeldi til að knýja þá til að hverfa frá þeim stjórnarskrárbundna rétti sem þeir hafa, þ.e. að fara eftir sinni sannfæringu. Ég ætla ekki að gera einum né neinum upp hver það var sem beitti þennan nýja þingmann slíku ofbeldi — við stöndum í sömu sporum, ég og Ásmundur, að vera nýir á þingi — en það er alveg ljóst að það var gert. Slíkur var heiðarleikinn í orðum hans.

Að þessu sögðu vil ég þakka formanni utanríkismálanefndar fyrir þá vinnu sem hann hefur lagt í þetta starf. Það verður ekki fram hjá því litið að búið er að leggja töluvert mikla vinnu í þetta en við erum örugglega ekki öll sammála um, eins og hefur komið hér í ljós, hvort sú vinna sé ásættanleg og niðurstaðan úr henni falli okkur öllum vel í geð. Mér finnst í raun sorglegt að svo mikil vinna eins og mér virðist hafa verið lögð í þetta mál skuli vera keyrð í gegn með þeim hraða sem hér er, þ.e. að keyra málið í gegn í dag og svo fram á morgundaginn. Mér finnst það í raun sorglegt, því að ég verð að viðurkenna það eftir að ég byrjaði að lesa þessi gögn í gærkvöldi held ég frekar en í fyrrakvöld, ég man það reyndar ekki alveg, að eftir því sem maður les þetta oftar þeim mun meira sér maður af hlutum sem þarfnast nánari skoðunar eða eru gagnrýniverðir. Ég ætla aðeins að hlaupa yfir nefndarálitið en vil byrja á því að nefna aðeins orð sem féllu í ræðu hæstv. fjármálaráðherra. Það er í fyrsta lagi það — það er verst að hæstv. ráðherra skuli vera farinn — að ég skildi ekki alveg og náði ekki alveg orðunum um Katalóníu. Ég vissi ekki að Katalónía væri sjálfstætt ríki. (Gripið fram í.) Já, það er kannski málið hvort hann hafi verið að lýsa því yfir fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að ríkisstjórnin styddi það að Katalónía yrði sjálfstætt ríki og bið ég þá fyrir kveðju til góðra vina minna á Spáni.

Það er rétt sem kom fram hjá hæstv. fjármálaráðherra að hlutirnir þróast hratt og taka breytingum. En mér þykir mjög sérkennilegt að það er stutt frá síðustu kosningum, 25. apríl var kosið, og umsnúningur hæstv. ráðherra og sumra í hans ágæta flokki í mjög mörgum málum hlýtur að nálgast það að vera heimsmet og ef ekki heimsmet þá Evrópumet, (Gripið fram í: Evrópusambandsmet.) Evrópusambandsmet líklega, því að fyrir 25. apríl og alveg fram að þeim degi gat fólk ekki trúað öðru en Vinstri hreyfingin – grænt framboð væri algerlega mótfallin því að ganga í Evrópusambandið. Nú tekur sá flokkur forustu í því í raun að liðka til um að svo verði gert. Þetta er mikill umsnúningur. Ég skil vel og tek undir þau orð sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir beindi til ráðherrans áðan, hvernig hann gæti horft framan í kjósendur sína út af þessu.

Aðeins varðandi nefndarálit meiri hlutans. Þar er ítarlegur og mikill inngangur og greining á ýmsum málum og úr því kemur reyndar mjög lítil og að mér finnst snubbótt tillaga í raun út úr öllum þessum pappír, en á bls. 9 í álitinu kemur fram, með leyfi forseta:

„Meginþungi málsins frá degi til dags hvílir á samninganefnd, sem utanríkisráðherra skipar að höfðu samráði við ríkisstjórn …“

Það er sem sé okkar ágæti hæstv. utanríkisráðherra sem mun skipa þessa samninganefnd og ég ber ágætt traust til núverandi utanríkisráðherra og líklega kemur það og vonandi í hans hlut að skipa þessa nefnd, því að ég efast ekki um að hann muni gæta sannmælis og sanngirni í því. Þetta er hins vegar dæmi um það að hlutirnir eru ekki í mjög föstum skorðum þegar ráðherranum er veitt þetta vald. Ég hefði gjarnan viljað að Alþingi hefði þetta vald hjá sér. Síðan er fjallað um vinnubrögð og eitthvað slíkt en á bls. 10, neðarlega, segir, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn leggur til að ráðherrar auk samningamanna komi reglulega á fund utanríkismálanefndar, auk þess sem öll gögn sem lögð eru fram í aðildarviðræðum komi á borð nefndarinnar.“

Ég verð að biðja þá sem skrifuðu þetta ágæta nefndarálit forláts á því að þessu hvorki trúi ég né treysti. Ég get ekki treyst því að öll gögn verði lögð fram og það er einfaldlega vegna þess að við höfum reynsluna frá hinu svokallaða Icesave-samkomulagi, sem er afar illa unnið og hvorki fugl né fiskur, að þar eru ekki öll gögn lögð fram, gögnum er haldið frá þinginu. Ég vona að það sé ekki viljandi gert, ég vona að það séu mistök að menn haldi gögnum frá þinginu, en það er búið að ljóstra upp um gögn sem þetta átti við og því miður grunar mig að svo sé um önnur gögn og því hef ég ekki trú á og treysti ekki að þetta verði gert með réttum og sanngjörnum hætti.

Á bls. 13 í álitinu er talað um undirbúning fyrir mögulegar viðræður og þar stendur, með leyfi forseta, og nú ætla ég að leggja áherslu á mál mitt:

„Í öðru lagi hefur verið unnið að skipulagi aðildarviðræðna, þar sem starfsmenn ráðuneytisins hafa kynnt sér hvernig staðið hefur verið að aðildarviðræðum í öðrum ríkjum. Má þar nefna Möltu og Króatíu, auk Finnlands.“

Hér er loksins komin skýring á því hvað hæstv. utanríkisráðherra var að gera á Möltu þegar hans var hér sárt saknað. Hann var vitanlega að ræða þessi Evrópumál. Það er alveg ljóst þó að því hafi verið neitað eða menn ekki þorað að viðurkenna það þá var hann vitanlega að því og hefur örugglega gert góða ferð. (Gripið fram í.) Já, það þykir mér gott að heyra, hæstv. ráðherra.

Síðan er á bls. 14 atriði sem mér finnst skipta mjög miklu máli og er ein af ástæðum þess að mér finnst þessi nálgun og þessi tillaga allsendis ómöguleg. Það varðar þá meginhagsmuni sem hér er rætt um og þau skilyrði sem ég segi að eigi að vera og þau skilyrði sem voru samþykkt á flokksþingi framsóknarmanna og það voru skilyrði sem áttu að vera í viðræðum varðandi Evrópusambandið. Ég er ekki sammála því og mér líkar ekki sú túlkun sem hér er höfð uppi varðandi þessi skilyrði, því að ég vil benda á það og koma því á framfæri að ég var flutningsmaður þess á fyrrnefndu flokksþingi að þessi skilyrði yrðu sett þarna inn, útskýrði hugmyndina á bak við þau og fékk stuðning fyrir þeim. Ég vil leyfa mér að koma því á framfæri að markmiðið með skilyrðunum var alveg skýrt, það þýðir ekkert að vera að þynna það eitthvað út.

Hér stendur hins vegar, með leyfi forseta, það er verið að tala um meginhagsmuni:

„Þau verða hins vegar ekki sett fyrr en síðar í ferlinu þegar orðið er ljóst hvaða atriði það kunna að vera í raun sem kalla á samningaviðræður.“

Þetta finnst mér vera opinn tékki. Auðvitað þurfum við að ákveða fyrir fram hvað það er sem við viljum alls ekki gefa eftir og það eru þau skilyrði sem við eigum að fara með í svona viðræður. (Gripið fram í.) Ég ætla að halda aðeins áfram, ég ætla að koma inn á eina setningu sem mér finnst raunar mjög sérstök, með leyfi forseta, og hún er líka á bls. 14:

„Rétt er því að huga sérstaklega að því að tryggt verði að Íslendingar geti nýtt endurnýjanlegar vatnsafls- og jarðhitaauðlindir sínar til orkuframleiðslu og fjölbreytts iðnaðar. Í fljótu bragði virðist ekkert í reglum ESB hindra þetta …“

Í fljótu bragði — ég skil þetta þannig að menn hafi ekki gefið sér mikinn tíma til að fara yfir þessi mál og lýsi ég yfir miklum áhyggjum af þessu, því að eitt af grundvallaratriðum þess sem við þurfum að gæta að varðandi hagsmuni þjóðarinnar eru þessar auðlindir og það er eitt af þeim skilyrðum sem voru í ályktun frá flokksþingi framsóknarmanna.

Á blaðsíðu 15 er fjallað um sjávarútvegsmál. Þar er talað um meginmarkmið í samningaviðræðum, meginmarkmið. Þetta er óásættanlegt. Þarna á að vera algerlega klárt hver skilyrðin eru. Svo stendur, með leyfi forseta:

„Auk þess verði leitað eftir eins víðtæku forsvari í hagsmunagæslu í sjávarútvegi á alþjóðavettvangi og kostur er ...“

Það á sem sagt ekki að halda því mjög fast til streitu. Það á að reyna að ná því svona eins og kostur er.

Síðan kemur, með leyfi forseta:

„Jafnframt verði haldið í möguleika á því að takmarka fjárfestingar erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegi ...“

Þetta er að mínu viti allt of óljóst. Þó ég efist ekki um að hugsunin sé ágæt í þessu öllu saman þá er megin- og meiningarmunur á því hvort við eigum að skilyrða lykilþætti varðandi okkar undirstöður, okkar þjóðlíf eða hvort við eigum að vera með það í loðnum texta eins og hér og ég er bara að lesa greinargerðina nota bene, ekki tillöguna sjálfa.

Síðan stendur á blaðsíðu 16, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn leggur áherslu á að kröfum Íslendinga um forræði yfir sjávarauðlindinni verði haldið sem og rétti Íslendinga til að stýra sókn í veiðistofna er byggist á sjálfbærri þróun, ráðgjöf sérfræðinga og veiðireynslu.“

„Meiri hlutinn leggur áherslu á“ stendur þar. Þetta á að sjálfsögðu að vera algert skilyrði af okkar hálfu. Þetta á ekki að vera umsemjanlegt á nokkurn einasta hátt. Síðan segir áfram á blaðsíðu 16, um miðja síðu, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn telur einnig afar mikilvægt að Íslendingar fari með samningsforræði við stjórn veiða úr deilistofnum eins og hægt er og tryggi þannig sem best réttindi Íslands til veiða úr þeim,“

Þetta er ekki skilyrði. Þetta er mjög loðið. Hérna á að reyna eitthvað og ég get því miður ekki treyst því að þarna verði haldið fast um hlutina að fenginni reynslu af þessu Icesave-samkomulagi og tel því að hérna hefði þurft varðandi þetta atriði og önnur sem ég hef nefnt að það væri algert skilyrði.

Á blaðsíðu 17 er fjallað um landbúnað. Í raun langaði mig til að lesa allan þann kafla — en ég ætla ekki að gera það — því það er í raun full þörf á því. Í kaflanum er meðal annars talað um mjólkurframleiðslu og annan hefðbundinn búskap og að eitt af samningsmarkmiðum Íslands væri að styðja við það. Þetta er óskaplega fallegt. Síðan stendur, með leyfi forseta:

„Er því mikilvægt að leita allra leiða til að búa svo um hnúta að stuðningi við landbúnað verði sem minnst raskað þótt ljóst sé að ákveðin breyting í uppbyggingu styrkjakerfisins muni eiga sér stað með aðild að sambandinu.“

Það er sem sagt verið að segja að þeir sem styðja þetta meirihlutaálit séu tilbúnir — eða ég skil þetta þannig. Það getur vel verið að þetta sé mistúlkun hjá mér — að þeir séu tilbúnir að leggja núverandi landbúnaðarkerfi í púkkið til Evrópusambandsins og að landbúnaðarkerfinu verði einfaldlega breytt þannig að það verði eins og Evrópusambandið er með sitt og þar af leiðandi verulega hoggið í mjólkurframleiðsluna og þá búgrein og hér er ekkert farið eftir þeim viðvörunarorðum sem komið hafa frá Bændasamtökunum um landbúnaðinn. Ég skil því ekki hvernig menn geta sett þetta fram án þess að hafa algjörlega skilyrt hvernig þeir vilja sjá þetta verða og um hvað þeir vilji standa vörð. Þarna er að mínu viti verið að fórna landbúnaðinum, að fórna þessari grein landbúnaðarins í það minnsta.

Fyrst ég er að tala um þetta þá var í Bændablaðinu sem við fengum í dag eða gær minnst á forsíðu, held ég frekar, á skýrslu sem Hagfræðistofnun hefur unnið fyrir landbúnaðarráðuneytið eða utanríkisráðuneytið um áhrif þess á landbúnaðinn að ganga í Evrópusambandið. Þessi skýrsla, þessi drög eru óbirt. Ég er búinn að kalla eftir því að fá þessa skýrslu úr landbúnaðarráðuneytinu nota bene. Ég er ekki búinn að óska eftir henni úr utanríkisráðuneytinu. (Utanrrh.: Talaðu við ráðherra.) Þessi skýrsla er sögð vera vinnugagn eða vinnuskjal og ekki tilbúin. En eftir því sem mínar heimildir segja þá er þetta lykilgagn í því að ákveða og taka afstöðu til þess hvernig landbúnaðinum gæti reitt af hugsanlega innan Evrópusambandsins. (VigH: Ekki í fyrsta sinn sem skýrslum er leynt.) Nei, rétt hjá hv. þingmanni.

Síðan kemur á blaðsíðu 18, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn telur rétt að landbúnaðinum verði skapað svigrúm til aðlögunar að ESB sérstaklega með tilliti til ólíks styrkjakerfis og hnattrænnar stöðu.“

Það á sem sagt að aðlaga landbúnaðinn að ESB. Það á ekki að standa vörð um hann.

Hér er aðeins rætt um byggðamál í þessum kafla og minnst meðal annars á að tækifæri kunni að vera fyrir byggðirnar og ég skal viðurkenna að það er eitt af því fáa og líklega eina atriðið sem ég hef séð jákvætt við Evrópusambandið, þ.e. sú byggðaáætlun sem þeir starfa eftir. En því miður tel ég svo að þeir hagsmunir sem við leggjum að veði á móti, hagsmunir landbúnaðarins, hagsmunir sjávarútvegsins vegi meira en þessir styrkir. Því finnst mér algerlega ótækt að fórna þeim fyrir þetta.

Ég ætla aðeins að halda áfram með þetta. Hér er kafli um gjaldmiðilsmál. Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum um hann. Ég fæ ekki betur séð en hann gangi einfaldlega ekki upp í okkar stöðu og sé í raun marklaus inni í þessu plaggi.

Þá er ég kominn að tillögu meiri hluta nefndarinnar. Ég vil taka fram að ég er algerlega á móti þeirri tillögu. Ég styð heils hugar það álit sem formaður Framsóknarflokksins kynnti í dag og þá túlkun hans sem hann hefur á þessu áliti og því hvernig hann hefur haldið á málum varðandi tillögu Framsóknarflokksins og stefnu hans. Hér stendur, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild ...“

Á flokksþingi Framsóknarflokksins var samþykkt ályktun í þá veru að gengið skuli til aðildarviðræðna við Evrópusambandið og ég hef sagt það — verið getur að þetta sé hártogun hjá mér — en ég geri greinarmun á viðræðum, að óska eftir viðræðum eða fara í viðræður og sækja um aðildina. Ég geri greinarmun á því. Þetta er kannski langsótt. Ég viðurkenni það. En ég tel að þarna sé skýr greinarmunur á, því ef þú sækir um eitthvað þá ertu að óska eftir inngöngu en ef þú óskar eftir viðræðum þá ertu væntanlega að athuga hvað sé í pakkanum og hvað sé í boði eins og svo margir hér hafa sagt. (Utanrrh.: Á grundvelli samningsumboðs.) Það er nefnilega þannig að við verðum að sjá hvað er í boði. Ertu að vitna — fyrirgefðu — hæstv. utanríkisráðherra, í flokksþing, í ályktun Framsóknarflokksins. Já, þakka þér fyrir að gera það. Á grundvelli samningsumboðs sem fengið er, hvernig? Það er fengið að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Það er fengið með því að menn setjast niður, skilgreina þau skilyrði, þau samningsmarkmið og þau skilyrði sem eru fyrir því að ganga til viðræðna og það er ekkert óeðlilegt að sú viðræðunefnd sem fer af stað hafi eitthvert umboð. Það er ekkert óeðlilegt við það. Mér líkar því ekki hvernig snúið hefur verið út úr varðandi þessa flokksþingssamþykkt. Það þarf ekkert að koma á óvart að Framsóknarflokkurinn talar ekki einni tungu í þessu máli. Það er alveg ljóst. Það þarf ekkert að koma á óvart. En það hefur verið svoleiðis um langa tíð innan flokksins að það eru skiptar skoðanir. Það voru skiptar skoðanir um þessa túlkun eftir flokksþingið og það var strax byrjað af Evrópusinnum innan flokksins að mistúlka það sem samþykkt var á þinginu og því miður er enn verið að því.

Við erum að ræða, eins og ég sagði áðan, um eitt af okkar stærstu hagsmunamálum eða það getur verið eitt af okkar stærstu hagsmunamálum fyrr og síðar. Það er einfaldlega þannig. Verið getur — sem ég óttast einna helst —að við séum að fara í vegferð núna með þessu áliti meiri hlutans sem muni reynast okkur dýrkeypt, því miður.

Í fyrsta lagi vantar, eins og ég hef komið að í ræðu minni, alveg skýra fyrirvara við það hvað við erum tilbúnir til að láta af hendi í slíkum samningaviðræðum. Ég hefði talið að það ætti að koma fram í tillögunni sjálfri. Þar stendur einfaldlega að það er samþykkt að sækja um aðild og svo er vísað í þessa stóru og miklu greinargerð sem er ágætlega unnin. En við höfum séð það oftar en einu sinni núna á þessu þingi — og þó er ég búinn að vera stutt — að greinargerðir sem eru gerðar og settar fram eru bara ekki virtar og þær halda ekki. Skemmst er að minnast umræðna og hægt að vísa í Brussel-viðmið varðandi Icesave og annað. Það er ekki tekið tillit til þeirra skilyrða sem við settum fram í þessari tillögu. Þau áttu að vera veganesti þeirra sem færu þarna að semja. Því vil ég segja að ég tel nokkuð ljóst að hugmyndir okkar framsóknarmanna og sú tillaga sem við fluttum á flokksþingi muni ekki ná hér fram að ganga og hljóta hér hljómgrunn. Mér sýnist að það sé því miður nokkuð ljóst. Við komum þeim inn í aðra þingsályktunartillögu sem fékk ágæta umfjöllun líka í utanríkismálanefnd og ber að þakka það. Ég tel því að af tvennu illu sé skynsamlegra og betra að fara þá leið sem hér hefur verið nefnd, þ.e. þjóðaratkvæðagreiðslu og kanna hug þjóðarinnar, hvað hún vill gera. Ég tel ekki að við höfum fengið það umboð að efna til þessara viðræðna án þess að vinna okkar heimavinnu betur eða þá að spyrja þjóðina þessarar spurningar. Af tvennu illu tel ég að það sé betra.

Niðurstaðan úr samningnum sem kemur væntanlega þarf vitanlega að vera borin undir þjóðina og vera bindandi. Ég kaupi það ekki að það eigi að vera ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla sem fjallar um endanlegan samning. Hún á að vera bindandi að mínu viti. Það hefur hér verið tæpt á öðru varðandi þetta. Ég skil heldur ekki og kaupi ekki þau rök sem hér hafa verið uppi á móti því að láta þjóðina greiða atkvæði um þetta. Einhverjir hafa hnýtt í Framsóknarflokkinn að þetta hafi verið nokkuð sem hann hafi verið með einu sinni og horfið frá. Það er ekkert að því, held ég, eins og sumir hafa bent á að taka upp gamlar hugmyndir ef þær eru góðar eða gamla siði ef annað betra býðst ekki. En þessi tillaga stjórnarmeirihlutans eða tillaga meiri hluta utanríkismálanefndar er ekki ásættanleg. Hún er of víðtæk, of opin og get ég því ekki samþykkt hana.