137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans innlegg í þessa umræðu. Ég er býsna sannfærður um að skoðanir okkar eru í sjálfu sér ekkert mjög ólíkar í þessu efni enda berum við sömu Skagafjarðargenin báðir tveir að hluta til þannig að það þarf kannski ekki endilega að koma á óvart.

Varðandi flokksþing Framsóknarflokksins sem hér hefur verið drepið á finnst mér kannski að hin mismunandi túlkun sem kemur fram í þessari umræðu sé einkum á milli þingmanna Framsóknarflokksins sjálfra. Það er því ekki við okkur hina að sakast þó við misskiljum þetta eitthvað. Ég vil þó bara segja að það veldur okkur vonbrigðum að hv. þingmaður fellst ekki á að tekið sé mikið tillit til þeirra sjónarmiða sem þar komu fram því að ég hygg að það sé tekið á öllum efnisatriðum sem voru í samþykkt flokksþings Framsóknarflokksins og þeim séu gerð góð skil með ítarlegum hætti og eftir standi þá einungis spurningin um það hvort umboðið eigi fyrir fram að vera skilyrt við þau eða með (Forseti hringir.) þeim hætti sem við leggjum til. Ég kem betur að því í síðara andsvari.