137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:35]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef öll skilyrði sem komu fram í flokksþingsályktun Framsóknarflokksins hefðu verið uppfyllt og hefðu náðst fram í viðræðum við Evrópusambandið þá tel ég mig ekki geta annað en að samþykkja að ganga þar inn. Ég gæti ekki staðið hér, held ég, og gert annað ef ég ætlaði að fylgja stefnu Framsóknarflokksins sem ég býð mig fram fyrir. Þá má spyrja: Hver er mín persónulega stefna eða það sem ég skrifaði hér undir á Alþingi? Þetta þarf allt að tvinnast saman og fara saman.

Ég held hins vegar að Íslandi, hvort sem við lítum á sjávarútveg eða landbúnað, sé betur borgið utan Evrópusambandsins og við eigum ekki að vera að gæla við þessar hugmyndir þegar við getum ekki sett fram nákvæmlega hverju við viljum halda og hverju við viljum sleppa. Ég sé ekkert sem við viljum sleppa, sem við viljum láta af hendi til Evrópusambandsins. Og ég held að það væri mjög góður (Forseti hringir.) kostur fyrir Evrópusambandið að ganga í Ísland.