137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:38]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held einmitt að í því að umhverfi breytist geti líka falist sóknarfæri fyrir byggðirnar og landbúnaðinn. Við getum ekki gefið okkur að staðan þurfi endilega að versna af því að í því að fá skilgreiningu sem norðurslóðalandbúnaður felst viðurkenning í því að Ísland megi styrkja sinn landbúnað, framleiðslutengja hann og svo framvegis umfram það sem Evrópusambandið gerir, af því að það er yfirleitt með styrkina í formi byggðagreiðslna svokallaðra. Ég held því að í þessu geti falist mikil tækifæri fyrir byggðirnar í landinu, mikil tækifæri fyrir landbúnaðinn um leið og við viðurkennum að sjálfsögðu að það séu ýmsar stöður í þessu sem við þurfum að verja sérstaklega sem snýr að landbúnaðinum eins og þetta blasir við í upphafi ferils. Þess vegna er það skilyrði og samningsmarkmið að verja og styrkja stöðu íslensks landbúnaðar. Þetta álit tekur kannski meira utan um landbúnaðinn og byggðirnar heldur en nokkurn annan þátt í þjóðlífinu. Í þessu vandaða áliti er lengri og ítarlegri og betri kafli um það en nokkurt eitt annað mál.