137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:44]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir beindi fyrirspurn áðan til hæstv. 1. varaforseta, Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, sem þá sat í forsetastóli um það hvort forseti hygðist hafa fund á morgun, laugardag og tók það sérstaklega fram að það væri að sjálfsögðu enginn bragur á því. Forseti ætlaði að kanna málið milli þess að ræðumenn kláruðu hér. Í millitíðinni hefur það komið í ljós að það var frétt í Ríkisútvarpinu, fyrsta frétt klukkan 2 í dag, þar sem greint var frá því að ákveðið hefði verið að hafa fund í fyrramálið. Klukkan 2 í dag hafði því hæstv. forseti þingsins greinilega tekið þá ákvörðun og ekki greinilega borið hana undir 1. varaforseta þingsins. Enn á ný þurfum við þingmenn að heyra um hluti eða eftir atvikum ekki heyra um hluti í fjölmiðlum. Þetta er að sjálfsögðu algjörlega óásættanlegt fyrir utan það hversu óásættanlegt það er að ætlast til þess að við séum að ræða þetta mikilvæga mál um mitt sumar á laugardegi. (Forseti hringir.) Hver er asinn? Er verið að reyna að hafa þessa umræðu þegar það er vitað að enginn er að hlusta (Forseti hringir.) þar sem þjóðin er upptekin af því að njóta sumarsins?