137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:54]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Þetta er nú bara ekki hægt. Hér kemur enn eina ferðina í ljós að verið er að fara á bak við þingið og það er ekki einu sinni haft fyrir því, ekki sýnd sú viðleitni að hafa samráð í umræðu um dagskrá sjálfs þingsins. Hvernig í ósköpunum eigum við þingmenn þá að trúa því að næstu árin verði haft reglulegt samráð við okkur um allt þetta ferli sem Samfylkingin er að leggja í (Gripið fram í.) í viðræður við Evrópusambandið og fullyrðir að á hverju stigi málsins verði þingið upplýst og samráð haft um alla skapaða hluti þegar ekkert samráð hefur verið haft við þingið um nokkurn skapaðan hlut og nú kemur í ljós að það er ekki einu sinni hægt að hafa samráð við þingmenn um dagskrá, vinnutíma þeirra sjálfra. Þetta er því ekki trúverðugt, frú forseti. (Gripið fram í.)