137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:55]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Greinilegt er að illa gengur að skipuleggja störf þingsins. Forseti þingsins lýsti því yfir í fjölmiðlum á dögunum að hún reiknaði með því að þingstörfum yrði lokið í næstu viku, jafnvel snemma í næstu viku og hæstv. fjármálaráðherra tók undir þau orð. Það sýnir að mínu mati algert skilningsleysi á stærð þeirra mála sem eru að fara nú í gegnum þingið. Ég vil að þessi mál fái eðlilega umræðu en ég kalla það ekki eðlilega umræðu að funda hér fram á miðnætti á föstudagskvöldi og hafa hangandi yfir þinginu annað eins á laugardegi. Það er undarlegt að kalla það eðlilega umræðu þegar fyrir liggur að þingið kemst ekki heim fyrr en Icesave-samkomulagið hefur verið afgreitt, þegar það liggur fyrir að margir dagar eru til ráðstöfunar í næstu viku til að fara í gegnum þessa umræðu með eðlilegum hætti eins og þessi umræða á reyndar skilið í ljósi mikilvægis þess. Hér á ekki að (Forseti hringir.) funda fram á nætur til að geta ýtt málinu í gegn á einhverjum (Forseti hringir.) hraða sem þingforseti telur að sé nauðsynlegur.