137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[19:32]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil blanda mér í umræðuna um þingstörfin og taka undir með þeim þingmönnum sem hér hafa gert athugasemdir við fundartíma þingsins. Það hefur komið fram í umræðum hér í dag að það er mikill yfirgangur af hálfu ríkisstjórnar og meirihlutaflokkanna gagnvart sínum þingmönnum og sá yfirgangur og ókurteisi kemur nú fram í þessum fundartímum hér á föstudagskvöldi, annarri helgi í júlí, og á laugardegi fram á kvöld. Látum vera að þingið þurfi að vinna eðlilega að sumri til við þær erfiðu aðstæður sem eru í samfélaginu. En þessi framkoma er náttúrlega engan veginn boðleg gagnvart þingmönnum og ekki síst, virðulegi forseti, gagnvart starfsmönnum þingsins. Í þessum hópi er fjöldi fólks sem á sínar fjölskyldur og það eru ekki margar helgar yfir sumarið sem fólk hefur hér til að taka sér frí (Forseti hringir.) með sínum fjölskyldum, þingmenn til þess að sinna þingstörfum úti í kjördæmum og hitta þar sitt fólk meðal annars. (Forseti hringir.)

Ég vil fordæma þessi vinnubrögð af hálfu meiri hlutans í þinginu og hvetja fólk til þess (Forseti hringir.) að breyta nú um og taka tillit (Forseti hringir.) þó ekki væri nema til starfsmanna þingsins (Forseti hringir.) og fjölskyldna þeirra og leyfa þeim að komast í frí þessa helgi.