137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[19:33]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil hér aðeins um miðbik þessarar umræðu segja mitt álit á þeirri tillögu sem hér liggur fyrir. Það er auðvitað alveg ljóst að ég styð þessa tillögu eins og hún kemur frá nefndinni. Ég vil líka, þó að það komi kannski ýmsum þingmönnum á óvart, þakka undirtektirnar við þessa tillögu. Ég er sem sagt þeirrar skoðunar, frú forseti, að þessi umræða hafi sýnt það svart á hvítu að þrátt fyrir það sverðaglam sem hér er stundum á Alþingi og hefur verið í þessari umræðu þá er miklu skemmra á milli manna en margir telja. Ég tel að þegar maður sker til hjartans og nýrnanna þær ræður sem hér hafa verið fluttar og reynir að skilgreina þær þá komi í ljós að þrátt fyrir átökin sem hér hafa verið sé það samt sem áður þannig að hér á þinginu sé möguleiki til þess að ná góðri samstöðu um þetta mál. Þó að einstaka þingmenn séu þessu mjög mótsnúnir og noti þetta í tengslum við önnur mál sem hér eru til umræðu til þess að vega að ríkisstjórninni þykist ég samt sem áður skilja það á máli til dæmis forustumanna stjórnarandstöðuflokkanna sem hafa talað að hægt er að ná ágætri samstöðu um þetta mál. Það hefur tekist hingað til í meðförum þingsins.

Þar á mest hrós skilið hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar. Ég hef setið hér og tekið eftir því sem utanríkisráðherra og upphaflegur flutningsmaður þeirrar tillögu sem hér liggur fyrir í svolítið breyttu formi að þeir sem hafa notið verkstjórnar hans í utanríkismálanefnd eru sammála um að hann hafi af hófsemd og yfirvegan unnið þá vinnu sem menn féllust á í hinni upphaflegu verkáætlun í nefndinni, þ.e. að freista þess að þætta saman þessar tvær tillögur sem hér hafa verið til umræðu. Ég er þeirrar skoðunar að það hafi tekist vel.

Ég vek sömuleiðis eftirtekt á því að það kemur glöggt fram í nefndarálitum beggja minni hluta í nefndinni að menn telja að öll álitaefni hafi verið rædd — í öðru segir öll, í hinu næstum því öll — og að þeim hafi verið gerð góð skil. Hin upphaflega tillaga stjórnarandstöðunnar fól það í sér að tekin yrði saman greinargerð um helstu hagsmuni Íslendinga að því er varðaði Evrópusambandið og sömuleiðis að það yrði gerður vegvísir. Hvort tveggja liggur fyrir. Það er sláandi þegar maður skoðar málsefnin að nefndarálitin sem koma frá 1. og 2. minni hluta fjalla fyrst og fremst um form. Þar er ekki um að ræða neina sérstaka efnislega andstöðu við tillöguna sjálfa og það er ákaflega athyglisvert.

Sömuleiðis er annað athyglisvert þegar maður skoðar málin sem tengjast nefndinni. Það eru álitin sem henni hafa borist. Ég tel að það sé sérstaklega lofsvert af hálfu nefndarinnar að hún bæði sendi málið til umsagnar fjölmargra aðila en hún gerði annað, sem hefur ekki verið gert frá því að heilbrigðis- og trygginganefnd var hér að fjalla um gagnagrunn á heilbrigðissviði (Gripið fram í.) skömmu fyrir síðustu aldamót og formaður þeirrar nefndar var einmitt núverandi utanríkisráðherra. Þá auglýsti hún gagnvart þjóðinni að allir þeir sem vildu senda inn umsagnir eða koma að máli við nefndina fengu það. Það tók ærinn tíma og miklu lengri tíma en það hefur tekið núna hjá utanríkismálanefnd. En utanríkismálanefnd fór þessa leið líka þannig að það var beinlínis kallað eftir álitum. Ég held að álitin sem hafa komið og ég held að ég hafi farið yfir þau flest — ætli þau hafi ekki verið 55–60 — af þeim voru kannski sex sem beinlínis tóku afstöðu gegn Evrópusambandinu af þeim sem skrifleg lágu fyrir. Afgangurinn tók annaðhvort ekki afstöðu eða var beinlínis með. Ef maður skoðar úr hvaða geirum þessi álit koma þá tengjast þau fyrst og fremst sjávarútvegi og landbúnaði og kemur engum á óvart. Við vissum þegar við gengum til þessarar umræðu að þetta yrðu málin sem um yrði deilt. Þetta eru líka hin málefnalegu rök sem helst hafa verið tínd til hér í umræðunni í dag af hálfu þeirra sem hafa efasemdir um tillöguna sem við erum að fjalla um.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson, sömuleiðis kollegi hans, formaður Framsóknarflokksins, formaður þingflokks framsóknarmanna sem hélt hér gagnmerka ræðu áðan, fjölluðu efnislega fyrst og fremst um þetta tvennt. Það var eins og við sem börðumst fyrir þessari tillögu hér í upphafi sögðum: Þetta eru málin sem menn munu lenda í togstreitu við Evrópusambandið um og það þarf ekkert að fara í neinar grafgötur með það.

Eigi að síður held ég að máli skipti samstaðan sem mér finnst að öðru leyti hafa birst í þessu. Hún kemur mér ekki á óvart. Þegar ég skoða það sem þingheimur hefur verið að segja og flokkarnir sem eiga hér fulltrúa á hinu háa Alþingi hafa verið að álykta um þá er það mín skoðun að á þinginu sé mjög sterkur meiri hluti fyrir því að sækja um aðild að Evrópusambandinu og leggja niðurstöðuna í dóm þjóðarinnar. Ef ég mundi koma hér með möppuna mína, sem ég er reyndar með, og lesa upp það sem einstakir þingmenn hafa sagt, meira að segja hinn bjartleiti þingmaður Vestfirðinga, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, sem á fundi með Heimssýn talaði með þeim hætti að hann útilokaði þetta ekki eins og hann gerði jafnan áður — en það væri hægt að fara mjög vandlega yfir til dæmis þingmenn Sjálfstæðisflokksins og það eru ákaflega margir þar sem með einhverjum hætti hafa lýst því yfir að þeir vilji fara þessa leið.

Ef maður skoðar síðan Framsóknarflokkinn þá hafa af þeim níu þingmönnum Framsóknarflokksins (Gripið fram í.) sem eiga sæti á hinu háa Alþingi, sex, þar á meðal hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, á einhverju stigi máls — sá hv. þingmaður sem ég nefndi hér sérstaklega (Gripið fram í.) gerði það reyndar þremur dögum fyrir kosningar — lýst yfir fylgi við að fara þessa leið.

Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur innan sinna vébanda stóran hluta af forkólfum atvinnulífsins hefur alltaf viljað skoða þetta með opnum huga. Þeir sem hafa tekið við forustuhlutverki í Sjálfstæðisflokknum í dag hafa jafnan nálgast þetta mál með opnum huga og jákvæðum alveg eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson gerði í ræðu sinni í dag þar sem hann tók það skýrt fram að þrátt fyrir þá afstöðu sem Sjálfstæðisflokkurinn tók á sínum landsfundi væri það mál stöðugt orpið undir blákalt mat á hagsmunum. Það má auðvitað rifja það upp að sá ágæti formaður Sjálfstæðisflokksins talaði með mjög jákvæðum hætti um upptöku evru og aðild að Evrópusambandinu skömmu fyrir landsfundinn.

Ég skil hins vegar þá afstöðu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur í þessu máli. Hann tók ákvörðun um það á sínum landsfundi að rétt væri að fara þá leið sem hann hefur lagt hér til í tillöguformi, þ.e. leið tvöfaldrar þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég skil það mætavel að forustumenn hans verða eðlilega að fylgja samþykktri stefnu flokksins og leggja þá tillögu fram, og það hefur komið fram að ýmsir í öðrum flokkum styðja þetta líka. Þetta er hið lýðræðislega ferli og hér á hinu háa Alþingi munum við taka ákvörðun um það hvort það verður farin leið tvöfaldrar þjóðaratkvæðagreiðslu eða ekki. Ég er henni algjörlega mótfallinn og það hefur komið alveg skýrt fram hér í ræðum í dag, meðal annars hjá formanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að stjórnarflokkarnir eru sammála um það — gagnstætt því sem ýmsir stjórnarandstæðingar hafa sagt hér í dag — þeir eru sammála um að eina leiðin til þess að þjóðin geti tekið upplýsta ákvörðun (Gripið fram í: Þetta er rangt.) sé að sótt verði um aðild þannig að menn viti að hverju þeir ganga, það sé á þeim grundvelli sem menn geta tekið upplýsta ákvörðun. Þetta eru stjórnarflokkarnir sammála um um leið og þeir hafa lýst því alveg skýrt yfir að þeir virði rétt hvors annars til þess síðan að fylgja niðurstöðunni eða ekki. En til þess að gefa fólki lýðræðislegan kost á því að taka slíka ákvörðun þá er þetta leiðin. Þetta er nánast sama leið og hægt er að lesa á heimasíðu Borgarahreyfingarinnar um það hvernig hún vill afgreiða þetta mál. Hv. þm. Þór Saari flutti meðal annars ræðu um það hér í dag.

Það sem ég á erfiðast með að skilja í þessari umræðu hér er vitaskuld afstaða Framsóknarflokksins. Framsóknarflokkurinn er sá flokkur sem á umliðnum árum ásamt Samfylkingunni hefur tekið hvað eindregnasta rökræðu innan sinna vébanda um Evrópusambandið. Það var einmitt fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, Halldór Ásgrímsson, sem lagði fram grundvöll að ákveðnum lausnum sem tengjast hinu erfiða deilumáli sem líklegt er að komi upp millum okkar og Evrópusambandsins nái tillagan fram að ganga, þ.e. um sjávarútvegsmál. Það var Halldór Ásgrímsson sem lagði ákveðinn grunn að því sem menn hafa verið að velta fyrir sér sem lausn í þeim málum. Sömuleiðis hefur annar formaður Framsóknarflokksins, Jón Sigurðsson, verið einn af skynsömustu mönnunum sem hafa tekið þátt í umræðu um Evrópusambandið hér og það var hann sem í reynd vann alla grunnvinnuna undir afstöðuna sem Framsóknarflokkurinn síðan tók á landsþingi sínu í vetur.

Ég taldi í framhaldi af málflutningi Framsóknarflokksins hér á þinginu, yfirlýsingum einstakra þingmanna hans og náttúrlega ekki síst ályktun flokksins um aðildarviðræður við Evrópusambandið að innan Framsóknarflokksins væri jákvæður vilji til þess að fara í þennan leiðangur. Ástæðan er auðvitað sú að það sagði alveg skýrt í kosningastefnuskrá Framsóknarflokksins að hann vildi að það yrði sótt um aðild, að farið yrði í aðildarviðræður við Evrópusambandið á grundvelli tiltekins samningsumboðs frá Alþingi.

Í ályktuninni segir þetta bara mjög skýrt. Þar segir, með leyfi forseta:

„Að Ísland hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið á grundvelli samningsumboðs frá Alþingi ...“

Og svo framvegis. (Gripið fram í: Lestu allt ...)

„... sem tryggi hagsmuni almennings og atvinnulífs og þá sérstaklega sjávarútvegs (Gripið fram í.) og landbúnaðar ...“

Síðan í tillögunni er talað um ákveðin skilyrði sem flokkurinn setur fyrir þessum leiðangri sínum eða þátttöku í honum. Ég ætla að koma að þeim rétt á eftir. En það segir líka í niðurlagi ályktunarinnar, með leyfi forseta:

„Fyrstu skref.

Þessi helstu samningsmarkmið, sem og önnur sem skilgreind verða í samvinnu hagsmunaaðila og stjórnvalda, með sem víðtækastri samstöðu, verði lögð til grundvallar því umboði sem samninganefnd Íslendinga fari með í samningaviðræður við Evrópusambandið.“

Með öðrum orðum, það er ekki verið að klappa í stein óhagganleg ófrávíkjanleg skilyrði af hálfu Framsóknarflokksins vegna þess að landsfundur hans sjálfs segir að þetta verði lagt til grundvallar ásamt ýmsum öðrum pörtum og skilgreinir þetta sem markmið í samningum. Þess vegna vil ég leyfa mér að segja að ég tel að ef menn ætla að lesa þessa ályktun á óskaplega venjulegan hátt þá komast þeir að því að sá flokkur sem samþykkti þetta er varfærinn hófsamur flokkur sem hefur jákvæðan vilja til að nálgast Evrópusambandið með þessum hætti sem ég hef hér verið að lesa upp. Með því vitaskuld til að halda hagsmunum Íslendinga til haga setur hann ákveðin skilyrði fyrir þessari afstöðu sinni sem hann kallar sjálfur hluta af samningsmarkmiðum sem eiga að vera grundvöllur umboðs samninganefndarinnar. Þess vegna kemur það mér mjög á óvart að menn skuli hér reyna að hártoga þetta eins og mér fannst hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, sem flutti að öðru leyti skelegga og fína ræðu, gera áðan. Mér var óskiljanlegt að komast að því að hann túlkar þetta með þeim hætti að það eigi ekki að fara í aðildarviðræður heldur bara viðræður og að samningsumboðið sé umboð um eitthvað allt annað en samninga. Það er ekki hægt að túlka þetta svona. Flokkar sem taka þátt í umræðu um jafnafdrifarík og mikilvæg mál verða að standa við það sem þeir segja.

Það er einmitt þannig að það hefur komið fram af hálfu þeirra sem hafa tekið þátt í að móta stefnu Framsóknarflokksins í þessum málaflokki að þeir skilja þetta nákvæmlega eins og ég skil þetta, þ.e. tveir hv. þingmenn Framsóknarflokksins komu hér upp í dag og lýstu því yfir að sú tillaga sem er afurð þeirrar vinnu sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hefur stýrt og utanríkismálanefnd á heiður skilinn fyrir að hafa innt af höndum, félli nákvæmlega að þessari ályktun Framsóknarflokksins. Þetta er dómur tveggja, eins nýs og annars gamals, fyrrverandi ráðherra um hvað hér sé á ferðinni. Ég get vel skilið að menn fari eftir sannfæringu sinni og ef sannfæring manna í einhverjum tilteknum málum fer á svig við yfirlýsta stefnu flokka þá tel ég að menn eigi sannarlega að geta tekið sér það leyfi að halda sinni sannfæringu. Ef það er þannig að þingmenn Framsóknarflokksins séu ósammála stefnu flokksins þá verður bara svo að vera. En mér finnst ekki hægt að koma hingað og halda því fram að Framsóknarflokkurinn hafi í reynd gert samþykkt um eitthvað allt annað. Þetta er yfirlýsing af hálfu Framsóknarflokksins.

Frú forseti. Án þess að ég ætli að taka of mikinn tíma í það þá eru þarna ákveðin skilyrði sem öll er að finna í nefndarálitinu, þ.e. það er verið að tala um það af hálfu Framsóknarflokksins að það eigi að vera skýr og einhliða úrsagnarréttur Íslands úr Evrópusambandinu. Þetta á að vera partur af heildarmyndinni. Þetta er þegar viðurkennt. Þetta er ekki í aðalsáttmála ESB í dag. En við höfum séð dæmi um þetta gerast eins og til dæmis með Grænland og þetta er almennt viðurkennt. En þetta er hins vegar að finna í Lissabon-sáttmálanum og allar líkur, öll rök hníga að því að hann muni hafa tekið gildi þegar við ljúkum samningaviðræðum ef allt gengur að óskum og ef þessi tillaga verður hér samþykkt.

Sömuleiðis er talað um það hjá Framsóknarflokknum — þetta er annað skilyrða af sex eða sjö — að það verði staðfest að Íslendingar haldi veiðirétti sínum innan íslenskrar fiskveiðilögsögu og fiskveiðistjórn verði áfram innanríkismál enda styðjist hún við reglur ESB um stöðug hlutföll, nálægðarreglu og Lúxemborgarsamkomulagið. Þetta er nánast það sem stendur og er að finna í nefndarálitinu. Sömuleiðis er að finna í nefndarálitinu það skilyrði Framsóknarflokksins sem lýtur að fæðuöryggi, þ.e. að það verði tryggt viðurkennd nauðsyn á sérstökum ákvæðum vegna fámennis þjóðarinnar. Þetta geta menn lesið í nefndarálitinu. Sömuleiðis geta menn lesið það næsta skilyrði númer fjögur hjá Framsóknarflokknum að íslenskur landbúnaður verði skilgreindur sem heimskautalandbúnaður. Sömuleiðis er talað um það í nefndarálitinu að í upphafi viðræðna verði gerður stöðugleikasamningur við Evrópska seðlabankann sem tryggir stöðugt gengi íslensku krónunnar. Það er að finna þarna þó það megi að vísu — nú man ég ekki lengur í hvoru minnihlutaálitanna, að minnsta kosti í öðru þeirra — finna ákveðnar efasemdir um að þetta geti gengið upp. Sömuleiðis er að finna sérstakan kafla í nefndarálitinu þar sem fjallað er um varðstöðu, um íslenska þjóðmenningu, þjóðtungu og þjóðhætti. Allt, hvert einasta atriði nema eitt úr skilyrðum Framsóknarflokksins er að finna í nefndarálitinu. Þetta eina sem er ekki beinlínis að finna með þessum hætti er skilyrði sem stenst ekki einu sinni ákvæði EES, þ.e. að það verði staðfest að vegna aðstæðna á Íslandi og fámennis þjóðarinnar þá geti Íslendinga sett ákveðin lög um forgangsrétt manna, um lögheimili og fasta búsetu á Íslandi til þess að eiga ráðandi hlut í jarðeignum, lóðum, fasteignum og fyrirtækjum. Þetta gengur ekki upp gagnvart EES í dag og er að því leytinu til fingurbrjótur. En samt er meira að segja komið til móts við þetta í nefndarálitinu þannig að ég tel að hv. formaður utanríkismálanefndar hafi nánast beygt sig aftur á bak til að koma til móts við Framsóknarflokkinn. Ég er þeirrar skoðunar að það hafi verið hárrétt hjá honum. Ég tel nefnilega að það sé nauðsynlegt að hvernig sem við skylmumst hér á Alþingi Íslendinga um þetta mál þá verðum við þegar þeirri orrahríð er lokið að horfa til framtíðarinnar og velta fyrir okkur hvað sé hagsmunum Íslands fyrir bestu. Ef Alþingi tekur þessa ákvörðun í lok þessarar umræðu þá er það, eins og formaður Framsóknarflokksins og líka Sjálfstæðisflokksins sögðu báðir í dag, þá er það hagsmunum Íslands fyrir bestu að sem flestir verði samferða í því ferðalagi og það takist að ná sem breiðastri samstöðu. Það skiptir máli.

Þá hafa komið fram efasemdir um það meðal annars hjá formanni Framsóknarflokksins um að jafnvel þó að menn leggi af stað með þetta skýrt afmarkaða umboð, eins og mér finnst nefndarálitið frá hv. utanríkismálanefnd vera, þá verði það nú samt þannig að ekki sé á vísan að róa vegna þess að sá sem stýrir þessu ferli er jú utanríkisráðherra sem gæti kiknað í hnjánum og verið kannski vondur samningamaður og kannski er hann bara hinn versti fóli eftir allt saman. Nú er við þessu er lítið að gera. Stjórnskipunin gerir einfaldlega ráð fyrir því að framkvæmdarvaldið leiði þetta. Hins vegar gerir nefndarálitið og forskriftin á samningaferlinu sem er að finna sem afrakstur vinnu utanríkismálanefndar sitt besta til að stramma af þennan karl sem nú stýrir utanríkisráðuneytinu, þ.e. það er lagt fyrir með mjög aðdáunarverðum og vel útfærðum hætti hvernig samráðið á að vera við þingið. Þar kemur algerlega skýrt fram að haft verður samráð við utanríkismálanefnd eða fulltrúa hennar í sérstökum starfshópi, vinnuhópi þar sem fulltrúar allra flokkanna eiga sæti, áður en menn móta samningsaðstæður, áður en þeir fara í vinnu við sérhvern kafla, áður en þeir loka kaflanum þannig að Alþingi hefur fulla vitneskju á hverjum tíma um hvað er að gerast. Eftir sem áður er samt sá möguleiki uppi sem hv. þingmaður Sigmundur Davíð Gunnlaugsson nefndi hér og reyndar líka formaður Sjálfstæðisflokksins, að það gæti samt sem áður gerst að utanríkisráðherra og samninganefndin mundi taka ákvarðanir sem þeim væru ekki þóknanlegar og sem þeir teldu vera í andstöðu við hagsmuni Íslendinga. Það er mögulegt. En telja menn að það sé líklegt að það gerist í mörgum málum? Telja menn að utanríkisráðherra eða samninganefnd sem veit að hún er að tefla máli inn í þjóðaratkvæðagreiðslu og veit að hún þarf að hugsa um endataflið og ná jákvæðri niðurstöðu mundi gera sér leik að því að verða viðskila við hinar pólitísku hreyfingar á Alþingi í mörgum málum? Hugsanlega í einhverjum, en það er engin lógík í því að það gerist í mörgum málum og þess vegna er ekki lógík í þessari niðurstöðu hjá þessum ágætu mönnum. (Gripið fram í: Er lógík í Icesave?) Hins vegar skil ég ótta þeirra og ég skil kvíða þeirra og ég er þeirrar skoðunar að hinir pólitísku flokkar á Alþingi eigi að hafa raunverulega aðkomu að þessu. Þess vegna finnst mér að þeirra vilji eigi með einhverjum hætti að endurspeglast í því hvernig samninganefndin er samsett. Þetta finnst mér að skipti máli og ég vil segja þetta við þingið bara til að undirstrika það frá mínum bæjardyrum að mér er full alvara í því, þó að ég sé handhafi framkvæmdarvaldsins, að afhenda með vissum hætti þinginu tækifæri til að hafa bæði tá á hemli og hönd á stýri. Það skiptir máli. Þetta er ferðalag sem við verðum að fara í saman ef Alþingi tekur á annað borð ákvörðun um að við leggjum í það. Það er ekki búið að taka ákvörðun um það. Ég er þess mjög, mjög fýsandi. Það hefur komið fram. En ég tel að það varði líka þjóðarheill og heill landsins að jafnvel þeir sem greiða atkvæði gegn þessari tillögu, að þeir samt sem áður með tilliti til hagsmuna þjóðarinnar og þess hvernig við getum náð bestri niðurstöðu til að koma með heim — ég tel að þeir séu fólgnir í því að pólitísku flokkarnir taki þátt í þessu ferli af heilum huga. Það skiptir mjög miklu máli.

Ég lýsti því hér í minni framsögu fyrir tillögunni sem var flutt fyrir einhverjum vikum að það væri einbeittur vilji minn til að hafa sem best samstarf við þingið. Ég lýsti þeim vilja með útfærðari hætti í utanríkismálanefnd og lagði síðan í kjölfar þess fram ákveðið plagg um það hvernig ég gæti hugsað mér það. Ég varð ekki var við að það væri andstaða við það í nefndinni og sú útgáfa og niðurstaða — við getum sagt ákvörðun — sem utanríkismálanefnd hefur tekið og birtist í nefndaráliti meiri hlutans — og ekki eru neinar athugasemdir við það gerðar í hinum nefndarálitunum hvað þennan þátt varðar — hún er mér að skapi. Þar að vísu mundu einhverjir segja að væri fullítarleg forskrift um þetta nána samráð. En ég er til í það. Ég vil hafa þetta svona og ég vil bara undirstrika það að lokum að þegar við erum búin að ræða þetta á þinginu, þegar við erum búin að taka ákvörðun þá skiptir það máli fyrir landið okkar, fyrir þjóðina okkar að allir taki þátt í þessu ferli. Þannig er hægt að tryggja að útkoman verði okkur hagfelldust.