137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[19:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Nú mun hæstv. utanríkisráðherra væntanlega fara til Brussel með bréf þar sem hann sækir um. Heldur hæstv. ráðherra ekki að menn verði hissa í Brussel þegar þeir fá þýðingu á ræðu hæstv. fjármálaráðherra í dag um að hann ætli ekkert að ganga inn? Verða menn ekki hissa þegar eitthvað fólk er að sækja um en ætlar ekki að ganga inn?

Svo talaði hæstv. ráðherra mikið um lýðræðislegt ferli og þróun. Ég minni á yfirlýsingu Ásmundar Einars Daðasonar í dag þar sem hann segir: „Þá barst mér til eyrna að slíkt gæti valdið stjórnarslitum.“ Og hann fór út og er kominn í heyskap. Er þetta þessi lýðræðislega þróun? Hv. þingmaður heldur því meira að segja fram að meiri hluti sé á Alþingi fyrir einhverri annarri lausn, þ.e. tvöfaldri atkvæðagreiðslu. Hvað segir hæstv. ráðherra um þetta?