137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:03]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki alveg hvernig ég átti að skilja upphaf að annars ágætri ræðu hv. þingmanns. Hann hefur setið með mér á þingi í á sjöunda ár og hann á að þekkja það að þetta er mín daglega framkoma sem hann kallar silkipúðaframkomuna. Svona umgengst ég bæði þá sem ég elska og líka þá sem ég á í höggi við. (Gripið fram í: Nú?) En ég fylgi líka því boðorði að elska fjandvini mína, þá er ég að tala um pólitíska, ég á enga að öðru leyti.

Hvernig yrði brugðist við ef sú staða kæmi upp? Við skulum vona að það gerist ekki en þá er það þingið sem hefur komið að þessu máli og veitir umboðið með samþykkt sinni hér. Það yrði einhvers konar samvinna, samspil á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvaldsins ef málið tefldist í þá stöðu að við teldum að það væri einsýnt að ekki næðust fram vilji okkar og þarfir í slíkum samningum. En ég á ekki von á að það gerist. Ég get skýrt fyrir hv. þingmanni síðar af hverju.